Tesla endurnýjar Model Y

Endurhannað ytra byrði og nýjar felgur minnka vindmótstöðu enn frekar.
Endurhannað ytra byrði og nýjar felgur minnka vindmótstöðu enn frekar. Ljósmynd/Tesla

Banda­ríski raf­bíla­fram­leiðand­inn Tesla hef­ur svipt hul­unni af upp­færðri út­gáfu af Model Y, en fimm ár eru liðin síðan bif­reiðin kom upp­haf­lega á markað. Model Y hef­ur verið smíðaður í yfir 3,5 millj­ón­um ein­taka og náði þeim ár­angri 2023 að vera mest seldi bíll­inn á heimsvísu það árið.

Í til­kynn­ingu frá Tesla seg­ir að verk­fræðing­ar og hönnuðir fyr­ir­tæk­is­ins hafi hlustað á ábend­ing­ar eig­enda við þróun nýja Model Y og hef­ur áhersla verið lögð á þæg­indi í akstri, lip­urð og tengi­mögu­leika. Nýj­ung­ar í und­ir­vagni byggja á end­ur­bót­um upp­færðs Model 3 og ytra byrðið hef­ur verið end­ur­hannað til að draga enn frek­ar úr loftviðnámi.

Má m.a. þekkja upp­færðu út­gáf­una af því að ljós­astik­urn­ar að fram­an og aft­an hafa ein­kenn­andi út­lit og eru þær inn­blásn­ar af hönn­un Cy­bertruck og Cy­bercab. Einnig hef­ur Model Y fengið nýj­ar felg­ur sem hafa enn minni mót­stöðu en þær sem áður fylgdu bíln­um. Þessu til viðbót­ar hef­ur nýrri mynda­vél verið komið fyr­ir á fram­enda bíls­ins og á hún að veita bíl­stjór­an­um betri sýn á um­hverfið, í gegn­um miðju­skjá­inn, og er mynda­vél­in með inn­byggðum hreinsi- og hit­un­ar­búnaði sem kem­ur í veg fyr­ir móðukennda mynd og af­ís­ar mynda­vél­ina þegar kalt er í veðri.

Minnkað veg­hljóð og betri tón­list­ar­upp­lif­un

Breyt­ing­ar á smíði og inn­rétt­ingu Model Y hafa stuðlað að enn hljóðlát­ari akstri og hef­ur veg­hljóð minnkað um 22%, högg­hljóð um 20% og vind­gnauð um 20%. Glerið í rúðunum end­urkast­ar einnig 26% meiri sól­ar­orku og hjálp­ar til að viðhalda þægi­legu hita­stigi í farþega­rým­inu en loftræsti­kerfið hef­ur líka verið gert hljóðlát­ara og skil­virk­ara.

Fram­sæt­in hafa verið end­ur­hönnuð og eru með inn­byggða loft­kæl­ingu, en í ann­arri sætaröð hafa belt­is­sylgj­ur verið gerðar aðgengi­legri og höfuðpúðar verið lengd­ir.

Tesla seg­ir hljóðkerfi Model Y einnig hafa verið end­ur­hannað til að veita enn betri tón­list­ar­upp­lif­un en þökk sé hljóðleiðandi tex­tíl­efni eru sum­ir hátal­ar­arn­ir ósýni­leg­ir. Tengigeta bíls­ins við farsíma­kerfið hef­ur líka verið auk­in og ætti niður­hal að vera 50% hraðara og sendisvið Model Y 30% lengra.

Það má m.a. þekkja uppfærðan Model Y á framljósastikunni.
Það má m.a. þekkja upp­færðan Model Y á fram­ljós­astik­unni. Ljós­mynd/​Tesla
mbl.is

Bílar »