Vetnis-vörubíll bætist við flota Colas

Hér má sjá vetnistankana en ökutækið kemst allt að 700 …
Hér má sjá vetnistankana en ökutækið kemst allt að 700 km á milli áfyllinga. Ljóxmynd/MAN

Á dögunum var undirritaður samningur á milli Colas og Krafts hf. um kaup á vörubíl frá MAN. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að um er að ræða vetnisknúið ökutæki og í tilkynningu frá félögunum segir að um sé að ræða fyrsta vetnisknúna vörubílinn á Íslandi og er hann væntanlegur til landsins í árslok.

Colas, sem sérhæfir sig í framleiðslu á malbiki og tengdum vörum, valdi 520 hestafla MAN hTGX 26.510 6x4 BL SA vetnisbíl með 49 tonna heildarþunga. Kemst vörubíllinn á bilinu 600 til 700 km á fullum vetnistanki og losar ekki neinar gróðurhúsalofttegundir.

Í tilkynningu segir enn fremur að Colas hafi, auk nokkurra annarra fyrirtækja, undirritað viljayfirlýsingu um kaup á slíkum bíl til landsins í tengslum við verkefni sem Íslensk nýorka stendur að, og með samningnum við Kraft sé verkefnið nú orðið að veruleika.

Haft er eftir Sigþóri Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Colas, að félagið hafi trú á vetninu og telji það hentugan orkugjafa fyrir stærri vinnuvélar og stóra vörubíla. „Colas hefur átt áratuga gott samstarf við Kraft og MAN og bílarnir hafa reynst vel,“ segir hann.

Björn Erlingsson, framkvæmdastjóri Krafts sem er umboðsaðili MAN á Íslandi, segir samninginn marka tímamót en vetnisdrifnir bílar eigi sér langa sögu hjá MAN og kynnti félagið m.a. til sögunnar fyrstu vetnisknúnu strætisvagnana árið 1996.

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas, og Björn Erlingsson, framkvæmdastjóri Krafts hf., …
Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas, og Björn Erlingsson, framkvæmdastjóri Krafts hf., undirrituðu kaupsamninginn. Ljósmynd/Hörður Páll Guðmundsson
mbl.is