Það verður margt áhugavert að sjá í sýningarsal Ísband á laugardag en þá verður haldin vegleg jeppa- og pallbílasýning.
Meðal annars verður hægt að skoða RAM 3500 pallbíla sem eru sýndir bæði óbreyttir og með 35, 37 og 40 tommu breytingum. Sömu sögu er að segja af Jeep Wrangler Rubicon sem Ísband sýnir í 35, 37, og 40 tommu útgáfum.
Stjarna dagsins er Jeep Wrangler Rubicon 4xe Plug-In-Hybrid Special Edition en í tilkynningu frá umboðinu segir að þar sé á ferð jeppi fyrir þá sem hugsa sér ekki eingöngu að nota ökutækið til fjallaferða. Er jeppinn samlitur, á fínmunstruðum 30 tommu dekkjum og hægt að velja undir hann 20 eða 21 tommu felgur „sem undirstrika ferskt, en samt klassískt og fágað útlit,“ eins og umboðið kemst að orði.
Á Jeep Wrangler Rubicon að vera lipur í akstri og Special Edition-útfærslan að henta þeim sem vilja aka dagsdaglega á sportlegum og kröftugum jeppa í borgarumferðinni en hafa samt þann möguleika að geta ekið eftir torfærum vegaslóðum.
Ísband sérhæfir sig í breytingum á Jeep og Ram og er bílaumboðið það eina í landinu sem sér sjálft um að framkvæma slíkar breytingar, en Jeep og Ram sem Ísband breytir viðhalda verksmiðjuábyrgð sinni.
Sýningarsalur Ísband er að Þverholti 6 í Mosfellsbæ og verður opið milli klukkan 12 og 16 á laugardag.