Kínversk dekk í fyrsta skipti í toppslagnum hjá Auto Bild

Dekkið frá Sailun var ódýrast af þeim sem tóku þátt …
Dekkið frá Sailun var ódýrast af þeim sem tóku þátt í lokaslagnum hjá Auto Bild.

Þýska bíla­blaðið Auto Bild birti á dög­un­um ít­ar­lega út­tekt á bestu sum­ar­dekkj­um þessa árs. Í þetta skiptið voru meira en 250 ólík­ar gerðir af dekkj­um prófaðar og deildu Goo­dye­ar og Michel­in fyrsta sæt­inu, með Eagle F1 Assy­metric 6-dekk­inu ann­ars veg­ar, og Pi­lot Sport 5 hins veg­ar. Bridgest­one lenti í þriðja sæti en Cont­in­ental, Han­kook og Kumho deildu með sér fjórða sæt­inu.

Vakið hef­ur sér­staka at­hygli að í fyrsta skipti í 39 ára sögu Auto Bild komst kín­versk­ur dekkja­fram­leiðandi í eitt af tíu efstu sæt­um könn­un­ar­inn­ar. Er það Sail­un sem hlotn­ast þessi heiður, nán­ar til­tekið dekkið At­rezzo ZSR2 í stærðinni 225/​40 R18 og hafnaði Sail­un í tí­unda sæti.

Auto Bild seg­ir um­rætt dekk ekki sýna neina veik­leika hvað ör­ygg­isþætti varðar. Þvert á móti ryður sum­ar­dekkið frá Sail­un vel frá sér vatni, hef­ur stutta heml­un­ar­vega­lengd, er hljóðlátt og svar­ar öku­manni vel. Auto Bild bend­ir jafn­framt á að verðlauna­dekk Sail­un sé það ódýr­asta af þeim dekkj­um sem komust í lokaum­ferð út­tekt­ar­inn­ar.

mbl.is

Bílar »