Fjórhjóladrifið reyndist gegna sínu hlutverki vel og reyndi töluvert á það í jólaveðrinu. Rok, hálka og skæðadrífa náðu ekki að hrekja Dacia Duster út af veginum.
Fjórhjóladrifið reyndist gegna sínu hlutverki vel og reyndi töluvert á það í jólaveðrinu. Rok, hálka og skæðadrífa náðu ekki að hrekja Dacia Duster út af veginum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar hafa án efa veitt Dacia Duster athygli úti á þjóðveginum enda er hann afar vinsæll bílaleigubíll og hefur hann selst grimmt.

Íslendingar hafa án efa veitt Dacia Duster athygli úti á þjóðveginum enda er hann afar vinsæll bílaleigubíll og hefur hann selst grimmt. Eins og fram kom í frétt á bílavef Morgunblaðsins í sumar höfðu selst 115 Dacia Duster hér á landi á fyrstu sjö mánuðum ársins. Það er litlu færra en í Noregi, en þar seldist 121 Dacia Duster á fyrri hluta ársins.

Bíllinn er framleiddur í Rúmeníu og er samstarfsverkefni Nissan/Renault-samsteypunnar og er notast við íhluti sem reynst hafa vel í bílum framleiðendanna.

Ódýr kostur

Fyrir jeppling í þessum stærðarflokki telst ekki sérlega mikið að borga fjórar milljónir fyrir. Hann er fjórhjóladrifinn með sex gíra beinskiptingu 1,5 dCI dísilvél og 110 hestöfl. Inni í þessum fjórum milljónum sem bíllinn kostar eru ekki sérlega mikil þægindi en flest það helsta: Loftkæling, útvarp með geislaspilara (og agnarsmáum tökkum) og mp3-tengingu auk þess sem blátannarbúnaður er fyrir síma. Fleira er það nú í raun ekki sem hægt er að tína til sem þægindi. Maður saknar einföldustu hlutanna á borð við snyrtispegil í sólskyggni og sætahitara. Svo væri líka gaman að geta stillt hæðina á sætinu til móts við stýrið sem hægt er að lækka um eitt þrep. Hann er rúmgóður, um það er engum blöðum að fletta. Þeir sem sitja aftur í sitja hátt og sjá vel út. Hæglega má koma þremur þar fyrir. Með því að fella niður aftursætin verður til eins konar gímald sem auðvelt er að hlaða í innan um stóran afturhlerann.

Dacia Duster er ódýrasti bíllinn í sínum stærðarflokki, um það verður ekki deilt. Hvað honum fylgir hlýtur, undir þeim formerkjum, að teljast aukaatriði.

Sérstök vél

Sem fyrr segir hafa framleiðendur Nissan og Renault sameinað krafta sína og nýtt þá íhluti sem vel hafa reynst. Vélin hljómar ekki sérlega fallega. Hún skilar sínum 110 hestöflum og eyðir innan við sjö lítrum í blönduðum akstri (í þessum reynsluakstri) en hljóðið er ekki fallegt. Varlega þarf að fara þegar maður skiptir niður til að hann fari ekki á yfirsnúning en þetta eru allt hlutir sem venjast nokkuð vel og ekki hægt að kvarta yfir í raun og veru. Það er fínt að aka bílnum en maður laumast samt ekkert endilega í bíltúr að kvöldlagi eingöngu akstursánægjunnar vegna. Engar tilfinningar rugla ökumanninn en hann kemst á milli staða.

Bíllinn var prófaður í síðustu viku desembermánaðar þegar veðurguðirnir fögnðu jólunum með stórbrotnu veðri. Á Hellisheiðinni var töluverður skafrenningur og ekki væsti um ökumann þó það byldi á hlið bílsins. Hann er þéttur og veghljóðið er lítið. Á meðan aðrir sátu fastir var áhugavert að finna hvernig Dacia Duster mallaði í gegnum hvern skaflinn á fætur öðrum. Hann var stöðugur í hálkunni þó hann væri ekki á negldum dekkjum og fær plús fyrir það hversu góður hann er í erfiðri færð.

Einfaldur en drífur

Það stuðaði undirritaða eilítið þegar bíllinn var lengi í gang í kuldanum. Vissulega svissar maður á og bíður dálítið áður en dísilmótorinn fær að rymja en þessi átti það til að fara ekki í gang fyrr en eftir góða hálfa mínútu. En hann fór alltaf í gang sem er kostur.

Á heildina litið er vel skiljanlegt hvers vegna Dacia Duster er svo algengur á bílaleigum landsins. Hann er hagkvæmur kostur og án alls prjáls. Hann drífur og það er mikilvægt hjá ferðamönnum. Það væri gaman að sjá fleiri takka í bílnum en það er ekki það sem leigjendum bíla er efst í huga. Sem fjölskyldubíll getur Duster komið vel út en þá skulu kaupendur stilla kröfum og væntingum í hóf. Þú borgar fjórar milljónir og færð nákvæmlega það sem í þeirri upphæð felst.

malin@mbl.is