Proace er sá bíll frá Toyota sem tekur við af Hiace sem naut fádæma vinsælda á sínum tíma. Bíllinn er framhjóladrifinn og framleiddur í Frakklandi.
Proace er sá bíll frá Toyota sem tekur við af Hiace sem naut fádæma vinsælda á sínum tíma. Bíllinn er framhjóladrifinn og framleiddur í Frakklandi. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Toyota Proace kom á markað síðsumars og tekur við af hinum vinsæla Hiace sem Toyota hætti framleiðslu á árið 2011. Proace er framleiddur í Frakklandi og er í raun sami bíll og Peugeot Expert nema með öryggisvottun Toyota auk fimm ára ábyrgðar.

Toyota Proace kom á markað síðsumars og tekur við af hinum vinsæla Hiace sem Toyota hætti framleiðslu á árið 2011.

Proace er framleiddur í Frakklandi og er í raun sami bíll og Peugeot Expert nema með öryggisvottun Toyota auk fimm ára ábyrgðar.

Proace er fáanlegur í nokkrum útgáfum, þ.e. með hliðarrúðum að aftan eða ekki, með sætum í rýminu aftan í eða án þeirra. Hægt er að velja um L2H1 með stutt hjólhaf og L2H2 með löngu hjólhafi auk þess sem bílana má fá með meiri lofthæð. Bíllinn sem prófaður var er með stærri gerð vélarinnar sem er býsna lipur, 2,0 lítra sem skilar 163 hestöflum. Hann er með lengra hjólhafinu og heilli yfirbyggingu. Allar gerðir eru einungis fáanlegar í framhjóladrifi en ekki fjórhjóladrifi.

Fínt hleðslurými

Hleðslurými Proace er mismikið eftir útfærslum en það er frá 5m 3 -7m 3 . Að því rými má komast gegnum eina eða tvær rennihurðir á hliðunum eða um afturhurðir sem opnast út um 180 gráður eða afturhlera á lömum.

Tiltölulega auðvelt er að hlaða í bílinn að aftan þar sem hleðsluhæðin er 526-604 mm. Aðeins reyndi á hvernig væri að hlaða í bílinn og hann leynir sannarlega á sér. Það virðist endalaust vera hægt að „troða“ í hann en ekki er mælt með því að farmurinn fari mikið yfir 1.200 kíló.

Þægilegt farþegarými

Þegar sendibílar eru annars vegar sætta menn sig gjarnan við eitt og annað enda eru þægindin ekki endilega í fyrirrúmi. Það sem kemur á óvart í Proace er hversu vel fer um bílstjóra og farþega. Koma má tveimur farþegum fyrir með góðu móti en ákjósanlegt er að þeir séu þó ekki mjög miklir um sig.

Bílstjórinn hefur fantagott rými og er hvergi aðþrengdur.

Sætishitarar eru í bílnum og allt það helsta sem nútíminn býður upp á: Bluetooth-búnaður, hraðastillir, upplýsingaskjár í háskerpu, hiti í hliðarspeglum, USB-tengi og hljóðinntak.

Í farþegarýminu er fjöldi ýmiss konar hólfa. Þau eru í loftinu, í hurðum og á útdraganlegu skrifborði sem er í miðjum sætisbekknum.

Staðlar Toyota

Sem fyrr segir er Proace framleiddur í Frakklandi. Hann er eftir sem áður framleiddur undir merkjum Toyota með því sem þeirri tegund fylgir. Hvergi er vikið frá öryggisstöðlum Toyota sem almennt teljast býsna góðir. Loftpúðar eru bæði fyrir bílstjóra og farþega. Skrikvörnin er á sínum stað og virkar vel við hinar ýmsu aðstæður. Stöðugleikastýring, ABS-kerfi, og hemlunarhjálp er í Proace eins og öðrum bílum frá Toyota auk þess sem hann uppfyllir reglugerðina um eftirlitskerfi fyrir loftþrýsting í dekkjum.

Vel ásættanlegar eyðslutölur

Bíllinn er stór og sem fyrr segir má auðveldlega koma fyrir ógrynni af dóti fyrir aftur í honum. Þrátt fyrir stærðina eyðir hann ósköp litlu miðað við það sem maður skyldi ætla. Hæglega má ná eyðslunni niður fyrir 8 lítra á hundraðið í blönduðum akstri, jafnvel þó að gefið sé hraustlega í við rétt skilyrði og bíllinn með fullfermi. Það er ánægjulegt að svo stór bíll sýni svipaðar eyðslutölur og meðalstór fólksbíll.

Verð og samkeppni

Verðið er í meðallagi sé það miðað við aðra bíla af svipaðri stærðargráðu.

Helstu keppinautar eru Ford Transit Van sem er á mjög svipuð verði, Peugeot Expert sem er með sömu vél og sama útlit og Proace en kostar rúmri milljón minna, Renault Trafic Van sem kostar frá 4.690.000 kr. og Mercedes Benz Vito sem kostar í kringum fimm milljónir. Þá má segja að grunnverð á Proace, 4.990.000 kr. sé nokkurn veginn í takt við verð keppinautanna.

malin@mbl.is