Skoda Superb Wagon stendur undir nafni því stórskemmtilegt er að aka þessum bíl. Bíllinn fékk fínustu andlitslyftingu á síðasta ári og gerir það hann kraftalegan í útliti.
Skoda Superb Wagon stendur undir nafni því stórskemmtilegt er að aka þessum bíl. Bíllinn fékk fínustu andlitslyftingu á síðasta ári og gerir það hann kraftalegan í útliti. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er óhætt að segja að Skoda komi sífellt á óvart með fjölbreyttum flota. Skoda Superb Wagon virðist í fyrstu afar hefðbundinn fjölskyldubíll en í rauninni er þetta algjör þjarkur. Hann skilar nefnilega töluverðu afli og togar vel.

Það er óhætt að segja að Skoda komi sífellt á óvart með fjölbreyttum flota. Skoda Superb Wagon virðist í fyrstu afar hefðbundinn fjölskyldubíll en í rauninni er þetta algjör þjarkur. Hann skilar nefnilega töluverðu afli og togar vel. Bíllinn sem var prófaður er 2,0 lítra með dísilvél. Hún skilar 170 hestöflum (125 KW) og er togið 350 Nm. Það er ekki slæmt! Reyndar er stórskemmtilegt að aka þessum bíl fyrir vikið. Akstursánægja er orð sem má nota í þessu samhengi þó að mér þyki það hálfgert orðskrípi. Skoda Superb fékk fínustu andlitslyftingu á síðasta ári og gerir það hann kraftalegan í útliti.

Ótrúlegt rými

Það er hátt til lofts í Skoda Superb. Það er ekki það eina því fótarýmið aftur í bílnum er ef eitthvað er, meira en fram í. Ekki svo að skilja að það sé ekki nóg pláss fram í, síður en svo. Því er ekki að undra að leigubílstjórar kaupi þennan bíl gjarnan. Hann er ótrúlega rúmgóður, líka þegar framsætin eru í öftustu stöðu. Þrír langintesar rúmast vel aftur í.

Með því að fella aftursætin niður er Skoda Superb orðinn að eins konar „gámi“ ef svo má segja. Þá er rýmið orðið 1.865 l sem er ekkert til að kvarta yfir.

Íburður á kostnað annars?

Hann er vel búinn bíllinn. Það verður ekki frá honum tekið. Leðursætin og rafdrifna farþegasætið er aukabúnaður sem var í þessum bíl Annars er hann ákaflega vel búinn í grunninn. Fjarlægðarskynjarar að aftan eru á meðal staðalbúnaðar og sömu sögu er að segja um kælinguna í hanskahólfi, hita í speglum, hornlýsingu í þokuljósunum, leðurklætt stýri og tölvustýrðu miðstöðina. Þetta er á meðal þess sem er harla gott. Það sem var öllu verra er að ekki tókst mér með nokkru móti að hemja miðstöðina sem annaðhvort vildi frysta mig eða sjóða. Það er ekki gott og vonandi er eitthvert trix við miðstöðina sem fær hana til að hegða sér eins og almennileg miðstöð!

Í rafstýrða bílstjórasætinu er minni, svo hægt er að festa þrjár stillingar í minni bílsins. Ekki vildi betur til en svo að Skoda Superb sem ég var farin að kunna svo vel við reyndi að keyra mig fram í stýrið og vonandi á það sér sína eðlilegu skýringu – til dæmis liði mér betur að vita að rekja mætti þetta til klaufaskapar bílstjórans sjálfs.

Veghljóð er nokkurt og skiptir þar undirlagið að sjálfsögðu miklu. Verulega dró úr veghljóði á þokkalegum vegi en þeir eru því miður í minnihluta hér á landi. Annað sem gæti skipt máli væru dekkin en ekki verður farið nánar út í það hér.

Útlit og verð

Að framanverðu og á hlið er bíllinn verulega fallegur. Þakbogarnir gera hann reffilegan og krómað grillið gefur honum fágað yfirbragð. Þegar afturhlutinn á bílnum var tekinn til endurskoðunar virðast menn hafa sammælst um að hafa sig hæga og er ekkert þar sem gleður augað sérstaklega. Þó má segja að ljósin beri af en Skoda Superb skartar þar nýjum LED-afturljósum sem eru áberandi en falleg.

Verðið á bílnum sem prófaður var fer yfir sex milljónir króna. Ódýrastur fæst hann á 5.490.000 kr. en fjórhjóladrifinn kostar hann 6.350.000 kr.

Eyðslan er tiltölulega lítil miðað við stærð bílsins og aflið sem hann býr yfir. Í heildina litið verður verðið að teljast þokkalegt þó að gaman hefði verið að sjá það aðeins lægra. Á móti kemur að hann er einstaklega vel búinn. malin@mbl.is