Að beygja, sveigja og bremsa á hálkubrautinni reyndi vel á.
Að beygja, sveigja og bremsa á hálkubrautinni reyndi vel á.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þriðja kynslóð stærsta jeppans frá BMW, X5, var kynnt fyrir skemmstu.

Þriðja kynslóð stærsta jeppans frá BMW, X5, var kynnt fyrir skemmstu. Fyrirrennarar X5 voru býsna skemmtilegir og hafa reynst vel en ljóst er að síðan fyrsta kynslóð leit dagsins ljós hafa sérfræðingarnir hjá BMW brotið heilann um hvernig gera mætti bílinn enn betri. Þriðja kynslóðin sýnir hversu vel þeir hafa unnið vinnuna sína því útkoman er hreint út sagt mögnuð.

Þrjár gerðir X5 (M50d, 30d og 50i) voru prófaðar við bestu aðstæður í austurrísku Ölpunum. Þegar aðstæður voru of góðar voru einfaldlega skapaðar þær aðstæður sem þurfti til að reyna fyllilega á aksturseiginleika jeppans. Það var gert á 80.000 fermetra akstursæfingasvæði BMW í Saalfelden.

Vel læs jeppi

Með hverju ári fer öryggi í bílum stigvaxandi og sú tækni sem við sjáum í dag er hreint út sagt ótrúleg. Ekki hefði mann órað fyrir því fyrir áratug að bíllinn gæti ekið sjálfur og verið læs á umhverfi sitt.

Þegar talað er um að bíll sé læs er átt við að hann lesi merkingar veganna af skiltum og gefi ökumanni þær upplýsingar sem hann þarf á að halda. Upplýsingarnar eru þá annaðhvort sýnilegar í leiðsögukerfinu sem er á flennistórum ílöngum skjá í X5 eða í framrúðu bílsins. Allir bílarnir sem prófaðir voru sýndu hvort tveggja en upplýsingarnar í framrúðunni eru aukabúnaður sem hiklaust má mæla með. Myndavélar bílsins nema skiltin á vegunum (t.d. um hámarkshraða og hvort taka megi fram úr eður ei) og við hliðina á þeim upplýsingum blasir hraði bílsins við þannig að maður þarf annaðhvort að hafa einbeittan brotavilja eða slæma athygli til að fara langt yfir uppgefinn hámarkshraða vegarins. Í framrúðuna koma að sama skapi upplýsingarnar úr leiðsögubúnaði bílsins, þegar hann er virkur.

Á hraðbrautunum ytra er þetta mjög gagnlegt því á 130 kílómetra hraða er best að þurfa sem minnst að líta af veginum. Þetta er í sjónlínunni og því þurfa augun hvergi að hvika frá veginum.

Annað sem virkar frábærlega er veglínulesarinn eða akreinavarinn eins og umboðin kalla hann frekar. Í Þýskalandi og Austurríki virkar þetta fullkomlega. Þá víbrar stýrið þegar ökumaður er farinn að aka á miðlínu eða kantlínu vegarins. Því miður virkar akreinavarinn takmarkað í öllum bílum með þessum búnaði hér á landi, eins og greint var frá í bílablaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu. Það er einfaldlega af því að merkingum er ábótavant á íslenskum vegum.

Þolmörkin könnuð

Óhætt er að fullyrða að X5 hentar prýðilega við íslenskar aðstæður. Akstur við erfiðar aðstæður á malarvegum eða í snjó og hálku er það sem þessi bíll er hannaður til að gera. Í prófuninni í Austurríki reyndi mjög á hversu auðvelt reyndist að nauðhemla á honum í fljúgandi hálku (á blautri braut). ABS-ið og stöðugleikastýringin virkuðu fullkomlega. Svo vel að maður skyldi ætla að viðbrögð heimsins verstu ökumanna ættu ekki að skipta svo miklu máli, svo framarlega sem hann hefði vit á að halda bremsunni í botni þar til bíllinn stöðvaðist og reyndi ekki að stýra um of – bíllinn sér um restina.

Brekkubremsan var prófuð, bæði upp mikinn bratta og niður 50° halla. Það er mögnuð tilfinning að geta treyst á svo snjallan búnað. Ökumaður kveikir á brekkubremsunni, lætur bílinn gossa niður brekku sem manni finnst vera lóðrétt strik, og snertir hvorki bremsurnar né eldsneytisgjöfina (sem fólki dettur vonandi ekki í hug við slíkar aðstæður!) og bíllinn tekur stjórnina og lullar í hægðum sínum niður á 5-8 km hraða, eftir því hvernig ökumaður hefur stillt hann. Hún virkar líka mjög vel þegar maður hefur komið sér í klandur á leið upp of bratta brekku. Brekkubremsan er staðalbúnaður í öllum gerðum X5.

Verð og búnaður

Í grunninn eru allar gerðir ríkulega búnar. Staðalbúnaðurinn er eins góður og hann gerist og má þar til dæmis nefna yfirstýringarvörn, DTC (Dynamic Traction Control), hemlaorkurafal, fantafín hljómflutningstæki með 6 hátölurum, hitaeinangrandi gler og rafopnun og lokun á afturhlera svo fátt eitt sé nefnt. Ódýrasta gerð X5 sem mest hefur verið selt af hér á landi er 25d sem er 218 hestöfl. Hann kostar 10.490.000 kr. og er því á svipuðu verði og keppinautar hans.

Audi Q7, Porsche Cayenne og Land Rover Discovery 4 eru allir töluvert dýrari en ódýrasta gerðin af Toyota Land Cruiser 150 er hálfri milljón króna ódýrari.

X5 er verðugur keppinautur fyrir ofantalda bíla og ekki spillir fyrir að verðið er ívið lægra en á þeim flestum. malin@mbl.is