Pláss í aftursætum er vel viðunandi nema kannski helst fyrir miðjufarþegann sem þarf að koma fótum fyrir sitt hvoru megin við stóran miðjustokkinn.
Pláss í aftursætum er vel viðunandi nema kannski helst fyrir miðjufarþegann sem þarf að koma fótum fyrir sitt hvoru megin við stóran miðjustokkinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Porsche Macan er nýjasta afurð þýska sportbílaframleiðandans og með honum er Porsche-merkið farið að framleiða fleiri fjórhjóladrifsbíla en einsdrifsbíla. Porsche Cayenne var umdeildur fyrir rúmum áratug en sannaði sig svo um munaði.

Porsche Macan er nýjasta afurð þýska sportbílaframleiðandans og með honum er Porsche-merkið farið að framleiða fleiri fjórhjóladrifsbíla en einsdrifsbíla. Porsche Cayenne var umdeildur fyrir rúmum áratug en sannaði sig svo um munaði. Þess þarf Macan þó ekki því að það eru langir biðlistar eftir þessum bíl og þrátt fyrir 50.000 eintök framleidd strax á þessu ári er hann upppantaður meira en ár fram í tímann. Bíllinn verður kynntur á Íslandi á sumardaginn fyrsta en íslenskir bílablaðamenn brugðu þó undir sig betri bensínfætinum í síðustu viku til að prófa bílinn í Þýskalandi. Tækifæri gafst til prófunar á kappakstursbraut Porsche í Leipzig, sérhannaðri torfærubraut, sem og í hefðbundnum götuakstri. Búast má við að dísilbíllinn verði aðalsölubíllinn á Íslandi og þess vegna völdum við að reynsluaka honum mest. Það gafst þó einnig tækifæri til að prófa bæði Turbo og S og munum við eflaust segja meira frá þeim seinna.

Sportbíll á ofvöxnum hjólum

Það sem maður tekur fyrst eftir í útliti Macan eru sportbílalegar línur hans. Þakið hallar mikið aftur og vélarhlíf og framendi minnir mikið á 911-bílinn. Afturendinn minnir þó einna helst á VW Golf enda er stutt í þá arfleifð hjá Porsche. Til dæmis er Macan á sama undirvagni og Audi Q5 en að sögn verkfræðinga Porsche eru meira en tveir þriðju bílsins hönnun Porsche. Það sem gerir bílinn þó hvað verklegastan eru stórar hjólaskálarnar og þegar búið er að setja 21 tommu álfelgur undir bílinn minnir hann einna helst á rissteikningu af nýjum tilraunabíl, en venjulega ná stórar felgur og hjólaskálar ekki svona langt fram á teikniborðið. Að innan er bíllinn líka hreinræktaður Porsche. Lykillinn er á sínum stað vinstra megin og áferðin og gæðin eru fyrsta flokks. Stýrið kemur úr 918-sportbílnum og megnið af stjórntökkum bílsins er í kringum gírstöngina. Maður finnur að maður situr frekar lágt í Macan og sætisstaðan er meira eins og í 911-bílnum en í sportjeppa. Útsýn aftur er af skornum skammti enda sjá sportlegar línur hans til þess að C- og D-bitar taki sitt pláss. Snúningshraðamælirinn er í miðjunni samkvæmt venju og litaskjár hægra megin, auk stærri litaskjás í miðjustokki. Eflaust hefur fjöldi takka í kringum gírstöng verið ástæða þess að nokkrir takkar eins og fyrir bakkskynjara eru staðsettir við baksýnisspegilinn, en það er skrýtinn staður fyrir slíkan búnað. Að innan er nóg pláss fyrir alla farþega enda bíllinn með þeim stærstu í sínum flokki. Eina sem finna má að honum er hversu breiður hliðarsílsinn er og þess vegna er útstig þannig að teygja þarf fótinn töluvert langt út, sérstaklega ef bíllinn er orðinn skítugur og maður vill ekki óhreinka fötin. Farangursrými er sléttir 500 lítrar og nógu djúpt til að rýma stærri hluti. Afturhleri er rafdrifinn og takkinn fyrir opnun hans á óvenjulegum stað, undir rúðuþurrkunni.

Skiptir um ham

Macan er indónesíska og þýðir tígrisdýr og það er Porsche Macan svo sannarlega. Hægt er að keyra hann eins og hefðbundinn fólksbíl kjósi maður svo en þegar bíllinn er kominn í Sport-stillingu, svo ekki sé talað um Sport Plus, er eins og hann skipti algerlega um ham. Upptakið í dísilvélinni er þrælgott og það sem vekur athygli er hversu hljóðlát og þýð hún er og svo hvað hljóðið úr henni er líkt bensínvélinni, sérstaklega þegar hún skiptir sér á botngjöf. Með sjö þrepa PDK-sjálfskiptingunni eru skiptingar aldrei vandamál, eldsnöggar en samt átakslausar og hrein unun með þessari togmiklu vél sem skilar 580 Newton-metrum af togi, strax við 1.750 snúninga. Með PSM-kerfinu er átaki til hjólanna stjórnað af mikilli nákvæmni svo að átakið er alltaf þar sem gripið er. Með því að stilla á Sport Plus verður bíllinn stífari og sendir meira af átakinu til afturhjólanna þegar gefið er inn, svo að yfirstýring er í boði kjósi menn svo. Þegar bíllinn var prófaður á kappakstursbrautinni fannst þetta vel og þótt hann liggi kannski ekki alveg eins og sportbíll gegnum beygjurnar er gaman að finna hvernig með inngjöfinni einni saman má láta hann yfirstýra sem er venjulega ekki eitthvað sem maður býst við í sportjeppa. Við hliðina á kappakstursbraut Porsche í Leipzig er torfærubraut sem búin hefur verið til á gömlu hergagnasvæði austur-þýska hersins. Þar gafst tækifæri til að prófa dísilbílinn við margs konar aðstæður ofan á gömlum sprengiefnageymslum, eins og í 45° hliðarhalla, upp og niður brattar brekkur og yfir gróft undirlag. Var í raun og veru ótrúlegt hvað hægt var að láta þennan ofvaxna sportbíl gera á því svæði en þó má segja að á sumum köflum hennar virkaði bíllinn frekar hastur, eins og kannski búast mátti við. Með dísilvélinni er Porsche Macan aðeins 6,3 sekúndur í hundraðið sem skemmtilegt nokk er sama tala og hann er gefinn upp fyrir að eyða á hundraðið. Það eru ekki margir fjórhjóladrifsjeppar sem geta státað af slíkum tölum. Við skulum heldur ekki gleyma að Porsche gefur ekki upp tölur sem fyrirtækið getur ekki staðið við og fer frekar þá leið að gefa jafnvel upp aðeins lægri tölur. Til dæmis á dísilbíllinn ekki að ná meiri hámarkshraða en 230 km á klst. Undirritaður var þó ekki lengi að setja bílinn í 245 á rennisléttri hraðbrautinni rétt fyrir utan Leipzig sem segir sitt.

Dýrastur í flokknum

Helstu keppendur Porsche Macan eru án efa Range Rover Evoque, Audi Q5 og væntanlegur BMW X4. Til að samanburður við Range Rover Evoque verði raunhæfur þarf eiginlega að bera hann saman við Si4-bílinn sem með bensínvélinni skilar 240 hestöflum. Sá bíll byrjar í 11.840.000 kr. sem er ekki langt undir verði Porsche Macan dísil. Þótt búnaðurinn sé góður er það langt frá því sem Macan getur og þá einnig í dísilvélinni, sem er öflugust 190 hestöfl í Evoque. Sama er uppi á teningnum í Audi Q5 þar sem þriggja lítra TDI-vélin er sú eina sem er samanburðarhæf. Sá bíll byrjar í 10.970.000 kr., ágætlega búinn og er því talsvert ódýrari. Hvað nýjan BMW X4 áhrærir er of snemmt að fullyrða um hann, en bíllinn er væntanlegur fljótlega til landsins svo að gaman verður að bera þá saman. Þótt Porsche Macan sé sá dýrasti í flokknum er spurningin hvernig samanburðurinn komi út ef hestöflunum er deilt á krónutöluna. Sannarlega yrði sá samanburður Porsche í hag, sérstaklega í bensínvélunum. njall@mbl.is