Peugeot 308 var valinn bíll ársins af evrópskum bílablaðamönnum fyrr í þessum mánuði. Hann hefur marga góða kosti og ber þar helst að nefna hversu sparneytinn hann er og lipur.
Peugeot 308 var valinn bíll ársins af evrópskum bílablaðamönnum fyrr í þessum mánuði. Hann hefur marga góða kosti og ber þar helst að nefna hversu sparneytinn hann er og lipur. — Ljósmyndir/Þórður Arnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær fréttir bárust í byrjun þessa mánaðar að evrópskir bílablaðamenn hefðu valið Peugeot 308 bíl ársins 2014. Þetta var niðurstaða 58 bílablaðamanna frá 22 löndum sem kynnt var á bílasýningunni í Genf.

Þær fréttir bárust í byrjun þessa mánaðar að evrópskir bílablaðamenn hefðu valið Peugeot 308 bíl ársins 2014. Þetta var niðurstaða 58 bílablaðamanna frá 22 löndum sem kynnt var á bílasýningunni í Genf. Franskur bíll var síðast valinn bíll ársins af evrópskum bílablaðamönnum árið 2006 en þá varð Renault Clio fyrir valinu.

Peugeot 308 kom fyrst á markað haustið 2007 og komið í ýmsum útfærslum. Síðastliðið haust kom önnur kynslóð bílsins á markað og hann hefur farið fram úr björtustu vonum á bílamarkaði í Evrópu. Á síðasta ári höfðu rúmlega 1,2 milljónir Peugeot 308 verið seldar.

Sparneytinn en sprækur

Bíllinn sem prófaður var er með 1,6 l. dísilvél sem skilar 116 hö. Mengunargildi þess bíls er 95g og þar með telst hann til visthæfra bíla samkvæmt skilgreiningu Reykjavíkurborgar. Bílum sem gefa frá sér minna en 120 g af koldíoxíði á km má leggja endurgjaldslaust í 90 mínútur í gjaldskyld bílastæði.

Undir þessa skilgreiningu falla flestar gerðir Peugeot 308, nema þær gerðir sem eru með stærstu bensínvélarnar. Þær fara rétt yfir kvarðann.

Framleiðandi gefur upp eyðslutölur sem sannarlega virðast ótrúlegar: 3,7 lítrar fyrir þennan tiltekna bíl í blönduðum akstri. Það er vel hægt að sannreyna þessar tölur en með mínu aksturslagi í dálitlu slabbi og tilheyrandi var hann í um 5,5 l í innanbæjarakstri.

Ekki má gleyma að Peugeot 308 státar af því að vera í heimsmetabók Guinness fyrir sparneytni. Þar segir að meðaleyðsla hafi verið 3,13 lítrar á hundraðið og var það mælt meðaltal af 14.580 kílómetrum. Það segir sitt og nú er búið að létta bílinn um tæp 150 kíló og verður áhugavert að sjá hvort hann verji heimsmetið.

308 er þokkalega sprækur en aðrir bílar eru þó betur til þess fallnir að bruna eftir kvartmílubrautinni.

Þægilegur innanbæjar

Það er ekki eins og maður hafi farið langt út fyrir borgarmörkin á bílnum en ljóst er að hann er æði lipur í innanbæjarsnatti. Þá er ekki verra að eyðslutölurnar séu eins lágar og raun ber vitni og svo er dísilvélin einkar hljóðlát í þokkabót. Eflaust er hann fínn í langkeyrslu líka en þó verður ekkert fullyrt um það hér.

308 er býsna rúmgóður og ættu fjórir fullorðnir að komast fyrir í honum án mikilla vandkvæða.

Farangursrýmið er rúmgott eða 501 lítra.

Hönnun og innviðir

Bíllinn er látlaus að innan og takkarnir eins fáir og hægt er að komast upp með. Það er góð ástæða fyrir því: 9,7" hátæknilegur snertiskjár er með þetta allt saman og takkarnir þess vegna ekki nauðsynlegir í þessum bíl frekar en á snjallsíma. Það er áhugavert að engar skífur eru fyrir miðstöðina því hún er, eins og annað í snertiskjánum. Maður gæti aðeins þurft að venjast því en þetta er sniðugt kerfi hjá Peugeot. Allt sem bílstjórinn þarf að gera gerir hann í gegnum snertiskjáinn. Ekkert kjaftæði þar.

Bíllinn kemur með LED-ljósum og segir á vef framleiðandans að framljósin séu mótuð til að líkjast kattaraugum og afturljósin hönnuð eins og þrjár kattarklær þannig að ljónið býr enn í Peugeot.

Verð og samanburður

Sem fyrr segir var Allure-útgáfan prófuð og er hún með leiðsögukerfi sem virkar prýðilega, byggt á kortum frá Navteq. Inni á kortinu er reyndar ekki að finna hámarkshraða gatna en það virkar fínt. Rafstýrð handbremsa fer sjálfvirkt á þegar drepið er á og speglarnir leggjast að. Allure útgáfan með þeim búnaði kostar 4.190.000 kr. Eftir sem áður er hægt að fá bílinn ódýrastan frá 3.360.000 kr. með 1,2 lítra bensínvél sem skilar 82 hestöflum.

Bílar sem segja má að séu í beinni samkeppni við Peugeot 308 eru VW Golf, Audi A3, Kia Cee'd, Toyota Auris og Hyundai i30.

Hyundai i30 með 1,4 bensínvél kostar frá 2.990.000 kr., Kia Cee'd með 1,4 dísilvél kostar frá 3.290.000 kr., Toyota Auris með 1,3 bensínvél kostar frá 3.370.000 kr., VW Golf með 1,4 bensínvél kostar frá 3.540.000 kr. og Audi A3 með 1,4 bensínvél kostar frá 4.640.000 kr.

Af þessari upptalningu má sjá að Peugeot 308 er hvorki sá dýrasti né heldur sá ódýrasti. Hann er í dýrari kantinum en vel samkeppnishæfur og í grunninn mjög vel búinn.

Helsta samkeppnin hlýtur að vera VW Golf sem evrópskir bílablaðamenn völdu bíl ársins á síðasta ári og hér hefur Golf eignast verðugan keppinaut.

malin@mbl.is