Toyota Hilux árgerð 2014 er verklegur og laglegur að sjá, snarpur í akstri og skemmtilegur að meðhöndla á allan máta. Hilux hefðin er sterk og nýja kynslóðin er henni til sóma.
Toyota Hilux árgerð 2014 er verklegur og laglegur að sjá, snarpur í akstri og skemmtilegur að meðhöndla á allan máta. Hilux hefðin er sterk og nýja kynslóðin er henni til sóma. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga Toyota Hilux er orðin býsna myndarleg og nær allt aftur til ársins 1968 þegar módelið var fyrst kynnt fyrir umheiminum.

Saga Toyota Hilux er orðin býsna myndarleg og nær allt aftur til ársins 1968 þegar módelið var fyrst kynnt fyrir umheiminum. Bíllinn skóp sér snemma nafn fyrir að vera harðgerður vinnuþjarkur og varð að stöðutákni með eftirminnilegum hætti þegar hann kom fyrir í metaðsóknamyndinni Aftur til framtíðar (Back To The Future) árið 1985, kolsvartur og upphækkaður. Verðugur draumabíll Marty McFly. Bíllinn sem hér er kynntur er af áttundu kynslóðinni og verður að segjast eins og er að Hilux eldist bráðvel.

Hilux er samur við sig

Þegar vinsæl módel eru uppfærð - og það á ekki síst við um bíla sem hafa verið framleiddir undir sama nafninu í rúmlega 45 ár - skiptir öllu að betrumbæta án þess að tefla erfðaefninu í tvísýnu. Það verður að segjast að hér er kominn þvottekta Hilux, og það sem meira er, andlitslyftingin er virkilega vel heppnuð. Framendinn er hinn myndarlegasti að sjá og staðfestist það þegar 11 ára sonur undirritaðs leit prófunarbílinn fyrst augum. Strákurinn virti bílinn fyrir sér um stund, leit svo á pabba sinn og kinkaði kolli til marks um samþykki.

"Næs," var allt sem segja þurfti. Frekari vitna þarf vart við. Loftinntakið á húddinu hefur þar klárlega sitt að segja.Hilux er bíll sem þarf að komast yfir vegleysur og vota jörð og það gerir hann með glans. Bíllinn var mátaður á holóttum malarvegi og stóð sig með mikilli prýði. Þeir sem festa kaup á pallbíl af þessu tagi ætla sér líkast til að nota hann víðar en á straujuðu malbiki og það þarf ekki að hafa áhyggjur af honum þessum; veghæðin er slíkt að töluverðar fyrirstöður þarf að varna honum því að komast leiðar sinnar. Áhyggjuleysi við slíkar aðstæður er eitt af því sem verðmiði bíls af þessu tagi á að fela í sér og það gerir hann skammlaust.

Einfaldur að allir gerð

Bíllinn sem prófaður var er af grunngerðinni Hilux DLX D/C 4WD Túrbó Dísel og það þýðir út af fyrir sig lítið að kvarta yfir því að eitt og annað vanti sem fólk tekur sem sjálfsögðum staðalbúnaði í dag.

Hann er einfaldlega seldur á berstrípuðum forsendum fyrir þá sem kjósa "no-frills" pallbíl með brýnustu nauðsynjum og ökumaður skynjar hann líka sem slíkan. Í honum er að finna loftpúða fyrir framsætin tvö, fjarstýrða samlæsingu, rafdrifnar rúður og læsingu á afturdrifi, en þá er það upptalið. Vitaskuld kæmi bakkmyndavél sér afskaplega vel, en efri kantur afturhlerans á pallinum sést úr baksýnisspeglinum svo það má bjarga sér upp á gamla mátann þegar bakkað er. Þá má hrósa fyrir USB-tengi sem er að finna í útvarpseiningunni og það er fínasta viðbót enda alltaf þakklátt að geta stungið eigin músík í samband. Það eina sem tilfinnanlega vantar er eyðslumælir í mælaborðið. Hann ætti eiginlega að vera skyldubúnaður núorðið.

Eyðslan fyrir bílinn er gefin upp sem 7.3 L / 100 km í blönduðum akstri og sýndist undirrituðum það ríma nokkurn veginn við sigið á bensínmælinum miðað við ekna kílómetra. Þá fer vel um farþega enda sætis- og fótarými sallagott, um leið og hátt er til lofts. Útsýni er líka prýðilegt enda sitja farþegar hátt. Í aftursæti er fínt sætispláss yfir þrjá fullorðna og fótarými vel þokkalegt.

Snar í snúningum

Hvað sem einföldum aðbúnaði og útbúnaði líður má þó segja Hilux til hróss að aksturseiginleikar jeppans koma talsvert á óvart. 2.5 lítra túrbó-dísilvélin skilar hreint skínandi vinnslu og togið gerir ökumanni kleift að hleypa Hiluxinum á skeið.

Fyrsti gírinn er reyndar frekar máttlaus en um leið og komið er í annan gír er að sönnu stokkið af stað. Þaðan í frá kveður við svipaðan tón þegar bíllinn er gíraður upp, það virðist alltaf vera hægt að stíga hann aðeins meira. Í miðri Ártúnsbrekkunni, á uppleiðinni í fimmta gír, var hægt að slá í án þess að skipta niður. Fáum dettur í hug að fara í spyrnu á Hilux en það má leyfa honum að eiga það að svifaseinn er hann ekki.

Þá gefur stýrið kost á að beygja töluvert skarpar en ætla mætti, sem er afskaplega þakklátt í jafn voldugum bíl.

Allt veitir þetta ökumanni þá tilfinningu að hann sé að stjórna léttum og liprum bíl en ekki stirðbusalegum þjarki. Þá verður að geta þess að hurðaskellurinn er til fyrirmyndar í Hilux, hann er hnausþykkur og sannfærandi, líkast til fenginn að láni frá frænda sínum, LandCruiser 150.

Toyota Hilux kostar í hinni spartönsku DLX-útgáfu 5.860.000 krónur og telst þetta vel ásættanlegt verð fyrir jeppa á borð við Hilux. Hæglega er hægt að bæta við ýmis konar aukahlutum með tilheyrandi tilkostnaði en eins og hann kemur af bandinu er Hilux einfaldlega góður kostur fyrir þá sem vilja áreiðanlegan pallbíl sem skilar þeim vel og örugglega yfir vonda vegi um leið og akstur innanbæjar er hinn fínasti.

jonagnar@mbl.is