Clio R.S. er vel búinn sportbíll á góðu verði. Hann er býsna sprækur og afköstin góð. Það má segja að bíllinn sé skemmtilegt tromp frá Renault.
Clio R.S. er vel búinn sportbíll á góðu verði. Hann er býsna sprækur og afköstin góð. Það má segja að bíllinn sé skemmtilegt tromp frá Renault.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er óhætt að segja að endurkoma smærri sportbílanna sé í fullum gangi og því fagna eflaust allir þeir sem minnast Renault 5 GT og Peugeot 205e GTi og þeirra líka með söknuði.

Það er óhætt að segja að endurkoma smærri sportbílanna sé í fullum gangi og því fagna eflaust allir þeir sem minnast Renault 5 GT og Peugeot 205e GTi og þeirra líka með söknuði. Fá eintök af þessum eðalgripum hafa varðveist hér á landi en minning þeirra lifir – enda var töluvert til af alls kyns GTi-smábílum fyrir um tuttugu árum.

Nú eru bílar á borð við Renault Clio R.S., Peugeot 208 GTi, Ford Fiesta S.T., KIA Cee´d GT og fleiri í svipuðum stærðarflokki orðnir sýnilegir á götunum og vekja verðskuldaða athygli. Bílarnir eru auðvitað ekki eins laufléttir og þeir voru áður, enda allur sá öryggisbúnaður sem nauðsynlegur er allþungur en án hans vill maður sannarlega ekki vera, sé skynsemin höfð að leiðarljósi.

Rúsínan í pylsuendanum

Franski bílaframleiðandinn Renault hefur boðað og kynnt nýjar áherslur og öll framleiðslulínan tekið stakkaskiptum á síðustu árum, bæði hvað hönnun og tæknibúnað varðar. Enn verður maður þó var við orðalagið: „Já, en þetta er franskt,“ þegar rætt er um þá frönsku. Þetta viðhorf held ég að óhætt sé að leggja af eða í það minnsta endurskoða því bílarnir hafa sýnt og sannað að þeir eru margir hverjir prýðilega vel heppnaðir og ekki að ástæðulausu að t.d. Peugeot 308 var á dögunum valinn bíll ársins í Evrópu.

Blaðamaður varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að reynsluaka Renault Clio R.S. sem er undursamlegt leiktæki sem sannarlega kemur á óvart. Þetta er 1.200 kílóa bíll, 1.618 rúmsentimetra 4 cylindra bensínmótor með túrbínu og skilar hann 200 hestöflum. Hann er búinn öllu því helsta sem gerir bíl að sportbíl og má þar nefna „launch control“ eða spyrnustýringu sem á stóran þátt í því að hægt er að koma þessum framhjóladrifna bíl upp í 100 kílómetra hraða á innan við sjö sekúndum eða 6,7 sekúndum til að hafa það nákvæmt. Fjöðrunin er stíf og góð, eins og maður vill hafa hana í svona tæki og skiptingin er tvöföld, það er að segja sjálfskipting annars vegar og skipting í stýrinu hins vegar. Persónulega fékk ég mest út úr því að skipta sjálf í stýrinu og spyrna á honum þannig. Reyndar hafa margir unnendur Clio R.S. kvartað á spjallborðum netsins yfir því að ekki sé hægt að fá þann nýjasta með beinskiptingu eins og fyrirrennara hans. Hann er einfaldlega ekki framleiddur þannig og því til lítils að fella tár yfir því. Eftir sem áður skil ég vel hvað átt er við en maður getur án efa náð töluverðri leikni í því að skipta með vængunum í stýrinu.

Clio R.S. er sannarlega sportlegur í útliti og ætti sportinnréttingin ekki að svíkja neinn. Sætin pakka bílstjóra og farþega vel inn og utan um mann eru rauð belti sem tóna við innréttinguna og gírstöngina. Hljómflutningstækin eru fjandi góð og eru ýmsum góðum kostum prýdd. Til dæmis er hægt að laga hljómburðinn býsna vel að ökumanni, sé hann einn í bílnum eða þeim sem sitja aftur í ef rólegra á að vera fram í.

Oft þykir mér hjákátlegt að kalla ökutæki leiktæki því sú skírskotun er stundum misnotuð. En hér á hún vel við. Ökuleikni á svona tæki er hrein unun og hægt að leika sér daginn út og inn á réttum svæðum því ekki er við hæfi að leika sér mikið úti í umferðinni. Að fá sér nokkrar mjúkar keilur, raða þeim upp af natni og leika sér svo að því að skutlast á milli þeirra á blússandi fart er hrein unun á bíl sem þessum. Það er viss gjörhygli í því fólgin að einbeita sér að upplifuninni: finna hvernig aflið dreifist og bíllinn liggur eins og hann er hannaður til.

Til að krydda upplifunina eilítið hefur framleiðandinn sprellað dálítið og hægt er að stilla á R-Sound Effects og velja hjóð í hinum ýmsu tækjum sem hljóma í fullkomnum takti við vinnslu vélarinnar: Renault Sport Clio Cup árgerð 2012, Alpine A110 1600 S frá 1969 eða Nissan GTR frá 2012, svo fáein dæmi séu nefnd. Þetta er auðvitað bara til gamans gert og bara fyrir þá allra hörðustu. Og skemmtilegt er það!

Það má kannski segja að Clio R.S. sé rúsínan í pylsuendanum frá Renault en þeir hafa samt fleiri tromp á hendi og eitt þeirra er Mégane R.S. sem verður mögulega fluttur inn. Hann skilar um 265 hestöflum og er 700 þúsund krónum dýrari en Clio R.S.

Einn Clio R.S. hefur verið skráður hér á landi og var bíllinn sérpantaður fyrir Arnar nokkurn Guðmundsson og hitti blaðamaður hann að máli og fékk með sér í myndatöku. Aðspurður hvers vegna hann hefði valið þennan sportbíl sagði hann það hafa verið gert að vel ígrunduðu máli. Frændi Arnars vinnur nefnilega hjá Reunault-verksmiðjunum í Frakklandi og er bílasmiður. Hann gat hiklaust mælt með þessu leiktæki og segist Arnar alls ekki sjá eftir að hafa farið að ráðum frænda og fékk sér bílinn í þeim lit sem einkennir R.S.-bíla Renault, þ.e. gula litnum. Hann vekur mikla athygli á götum borgarinnar og hefur Arnar ekki tölu á því hversu margir hafa rennt upp að honum og viljað reyna snerpu bílsins.

Vel mælum búinn

Á svona tæki vill bílstjórinn gjarnan geta séð nákvæmlega hvað er að gerast undir vélarhlífinni. Það er svo miklu fleira en hraða- og snúningsmælirinn sem er áhugavert. Framleiðandinn býður upp á óþrjótandi möguleika sem gleðja áhugasama ökumenn. Í kröppum beygjum getur verið gott að fylgjast með þeim G-kröftum sem eru að verki og hárnákvæmir mælar taka tímann á hröðuninni og er hægt að halda góða skrá yfir sameiginleg afrek ökutækis og bílstjóra í fullkominni aksturstölvu.

Annar mælir sýnir nákvæm afköst vélarinnar: Tog, olíuhita, þrýstinginn á túrbínunni, hitann á inntakinu og allt sem mann fýsir að vita. Rauntímagraf af togi og vélarafli sýnir nákvæmlega hvað er að gerast í höfuðstöðvum bílsins þannig að engan þarf að gruna að einhver tilviljun ráði því hvernig þessi bíll vinnur.

Verð og samkeppni

Þá er það stóra spurningin: Hvað kostar þessi bíll? Verðið er 4.990.000 kr. Þeir bílar sem segja má að séu í samkeppni við hann eru KIA Cee´d GT sem kostar 5.490.000, Golf GTi sem kostar frá 5.590.000, Škoda Octavia RS frá 5.680.000 krónum og síðast en ekki síst ber að nefna Ford Fiesta ST sem er ódýrastur af þeim og kostar 4.090.000 krónur. Það er því óhætt að segja að Clio RS sé á sanngjörnu verði þegar hann er borinn saman við þá kagga sem eru í þessum flokki.

malin@mbl.is