Andlitslyfting Peugeot 3008 er mest sjáanleg að framan þar sem breytt grill og meira króm setur talsvert meiri svip á bílinn auk þess sem díóðuljósin gera hann nýtískulegri. Sama er uppi á teningnum innandyra en innréttingin í 3308 er bráðvel heppnuð og farangursrými gott.
Andlitslyfting Peugeot 3008 er mest sjáanleg að framan þar sem breytt grill og meira króm setur talsvert meiri svip á bílinn auk þess sem díóðuljósin gera hann nýtískulegri. Sama er uppi á teningnum innandyra en innréttingin í 3308 er bráðvel heppnuð og farangursrými gott.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Peugeot 3008 er einn af mörgum borgarjepplingum sem fást nú skyndilega hérlendis. Margir bílar hafa bæst í þennan flokk sem Nissan Qashqai bjó til árið 2006. Peugeot 3008 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2009 og var valinn bíll ársins hjá What Car?

Peugeot 3008 er einn af mörgum borgarjepplingum sem fást nú skyndilega hérlendis. Margir bílar hafa bæst í þennan flokk sem Nissan Qashqai bjó til árið 2006. Peugeot 3008 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2009 og var valinn bíll ársins hjá What Car?-tímaritinu ári síðar. Fyrir íslenska kaupendur eru slíkir bílar mjög skynsamlegur kostur því hann sameinar í einum bíl kosti jepplings í veghæðinni, langbaks í notagildinu, fjölnotabíls í þægindunum og hefðbundins fólksbíls í kostnaði. Það þótti því tilvalið að grípa einn slíkan til reynsluaksturs í sumarbústaðarferð með alla fjölskylduna um helgina.

Vel hönnuð innrétting

Ný útgáfa Peugeot 3008 var frumsýnd í Frankfurt siðastliðið haust en eins og gengur og gerist eru margir bílar sem þar eru sýndir ekki komnir hingað til lands fyrr en eftir áramót. Helstu sjáanlegu breytingarnar eru grillið og krómið í framhluta hans, þokuljósin og díóðudagljósabúnaður. Litlar breytingar eru þó sjáanlegar innandyra þótt hann sé nú boðinn með talsvert meiri búnaði. Kominn er símbúnaður, regnskynjari og fjarlægðarskynjari að aftan í Active-útfærslunni svo eitthvað sé nefnt. Það er helst innréttingin sem vekur athygli í þessum bíl en hún er vel hönnuð og með góðum lausnum í farangursrými, sem er mjög rúmgott. Maður situr frekar hátt í bílnum og útsýni er mjög gott sem er lúxus í bílum í dag. Mjög þægilegt er að ganga um hann fyrir alla farþega hans gegnum stórar dyrnar. Sætin eru mátulega stór og gefa góðan stuðning þótt þau mættu vera eilítið mýkri. Nóg er af hólfum og hirslum og er stokkurinn milli framsæta sérlega rúmgóður sem bætir upp fyrir hanskahólf sem er það minnsta sem undirritaður hefur séð áður. Það sem mætti vera betra í innréttingu að mati undirritaðs er staðsetning rofa fyrir Stop&Go, fjarlægðarskynjara og ESP en þeir eru í felum undir mælaborðinu vinstra megin svo leita þarf að þeim í hvert skipti sem maður vill slökkva á búnaðinum. Eins er kraðakið af pinnum kringum stýrið slíkt að það þarf þjálfaðar hendur til að taka fumlaust á þeim. Taldi undirritaður sjö pinna í kringum stýrið þegar lykillinn er meðtalinn.

Góðir aksturseiginleikar í beygjum

Bíllinn er byggður á sama undirvagni og Peugeot 308 sem nýlega hlaut titilinn „Bíll ársins í Evrópu“ en 5008-jepplingurinn er einnig byggður á sama undirvagni. Hefðbundin stangarfjöðrun er á bílnum að aftan en sem viðbót er komið fjöðrunarkerfi sem byggist á miðjudempara sem tengdur er báðum dempurum bílsins að aftan. Hún gerir bílinn stífari í beygjum þótt hann haldi þægindum sínum í hefðbundnum akstri, einfalt kerfi sem virkar mjög vel í bíl eins og þessum. Stýrið er snöggt að bregðast við hreyfingum ökumanns en leitar örlítið til baka og er stöðugt í akstri beint áfram. Vindstuðull bílsins er aðeins 0,296 sem er lítið fyrir bíl í þessum stærðarflokki. Það finnst líka vel í akstri hversu bíllinn er hljóðlátur og laus við vindhljóð. Auk þess er vélin þýð og hljóðlát en samt vinnusöm um leið og hún er sparneytin. Bíllinn sem við höfðum til reynslu var útbúinn STT-hálfsjálfskiptingu með rafstýrðri kúplingu. Hún er nokkuð fullkomin í 3008-bílnum þótt slíkur búnaður sé aldrei skemmtilegur í notkun. Maður er fljótur að venjast því að nota gírskiptinguna gegnum flipana við stýrið eða í stönginni sjálfri, frekar en að láta bílinn sjá algerlega um skiptingarnar. Það er þó dálítið skrýtið að hafa ekki „P“-stillingu í stönginni og þurfa að stóla einungis á frekar illa þokkaða rafmagnshandbremsu þegar bílnum er lagt.

Samkeppnishæfur í verði

Ódýrasta útfærsla Peugeot 3008 er Access-útgáfan með 1,6 lítra bensínvélinni en hún byrjar í 3.990.000 kr. Líklega myndu þó flestir vilja fá hann í Active-útfærslunni eins og við reyndum sem kostar 4.290.000 beinskiptur og 4.490.000 kr. með STT-skiptingunni. Helstu keppinautar 3008 væru án efa Nissan Qashqai og Suzuki S-Cross sem reyndar er aðeins fáanlegur með bensínvél í framdrifsútgáfu sinni. Þannig er hann svipaður í verði og búnaði og bensínútgáfa S-Cross. Nýr Qashqai með 1,6 lítra dísilvél og framdrifi kostar 4.590.000 kr. svo segja má að Peugeot 3008 sé á vel samkeppnishæfu verði.