Jafnstór sætin aftur í eru rúmgóð og það þarf enginn að kvarta yfir því að vera „miðjusætisfarþeginn“ í þessum Land Rover Discovery 4.
Jafnstór sætin aftur í eru rúmgóð og það þarf enginn að kvarta yfir því að vera „miðjusætisfarþeginn“ í þessum Land Rover Discovery 4.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er erfitt að trúa því en Discovery jeppinn frá Land Rover er búinn að vera til í aldarfjórðung á þessu ári. Hann hefur fengið minni háttar andlitslyftingu sem helst er sjáanleg á framsvip bílsins.

Það er erfitt að trúa því en Discovery jeppinn frá Land Rover er búinn að vera til í aldarfjórðung á þessu ári. Hann hefur fengið minni háttar andlitslyftingu sem helst er sjáanleg á framsvip bílsins. Komið er nýtt grill, stuðari og framljós en augljósasta breytingin er samt það sem maður les, því komið er Discovery framan á vélarhlífina í staðinn fyrir Land Rover. Eins er búið að taka fjóra úr Discovery-merkinu aftan á bílnum. Morgunblaðið prófaði Discovery 4 síðast þegar hann kom fyrst á markað árið 2011 og því kominn tími til að reyna gripinn aftur.

Betri búnaður og minni mengun

Að innanverðu eru ekki miklar breytingar sjáanlegar enda koma þær fram í búnaði frekar en í nýrri hönnun. Kominn er Stop&Go búnaður sem lækkar mengunargildi hans töluvert eða úr 230 g/km í 213 g/km sem lækkar hann um einn vörugjaldaflokk. Þar fyrir utan er kominn meiri hjálparbúnaður eins og akreinavari og árekstrarskynjari auk betri hljómtækja. Discovery 4 er rúmgóður bíll á alla kanta og breiður er hann líka. Fyrir vikið er nóg pláss fyrir þrjú jafnstór sæti aftur í og þrátt fyrir tvö aukasæti í farangursrými sem falla ofan í gólfið er pláss þar líka yfirdrifið. Eina plássleysið sem hægt er að tala um er þegar kemur að staðsetningum búnaðar eins og rafstýringum sæta, en olnbogabríkin á hurðinni er fyrirstaða svo að erfitt er að koma hendinni niður á takkana. Eins eru rúðuupphalarar á óvenjulegum stað efst á hurðarbrúninni rétt hjá hliðarspeglinum, en staðsetning þessara takka hefur alltaf einhvernvegin vafist fyrir hönnuðum Land Rover. Þar sem afturhleri er tvískiptur verður hönnun afturrúðu á þann veg að upphækkun kemur á hana vinstra megin. Auk þess skyggja stórir höfuðpúðar aftursætanna töluvert á útsýni á hana svo að erfitt er að sjá aftur fyrir bílinn. Það sem lagar málið er hins vegar stórir og góðir hliðarspeglar og alvöru bakkmyndavél.

Sannkallaður torfærujeppi

Discovery 4 er sannkallaður torfærujeppi því að aðfallshorn hans er 36,2°og fráfallshorn 29,6° sem er allgott, og ekki skemmir góð veghæð fyrir, en hæð undir lægsta punkt er 240 mm. Staðalbúnaður er loftpúðafjöðrun og vegyfirborðsbúnaður sem gerir ökumanni kleift að velja þá stillingu sem hentar hvaða vegyfirborði sem er. Stillir hann þá akstur og veghæð bílsins eftir því sem valið er. Einnig er hægt að velja lágt drif og læsa afturdrifi með því einu að setja bílinn í hlutlausan og ýta á einn takka. Með réttri stillingu er bíllinn eins og skriðdreki sem ræður nánast við hvaða aðstæður sem er. Að vísu reyndist drullusvað í einni brekkunni honum ofviða en kenna má breiðum og fínmunstruðum hraðbrautardekkjum þar um. Tvöföld klafafjöðrun og loftpúðar á hvert horn ráða sérlega vel við grófa vegi en þegar kemur að akstri á malbiki verður mikill þungi hans honum erfiðari. Að keyra stíft í beygjum er ekki hans tebolli því að fjarkinn leggur mikið á hornin og ef tekið er snöggt á honum á hann það til að missa gripið á afturhorninu á móti. Sem betur fer er hann búinn skrikvörn sem hjálpar honum frá að lenda í einhverjum ógöngum gerist þess þörf að taka skyndilega á honum.

Viðmiðið í flokknum

Helsti keppinautur Discovery gegnum tíðina hefur alltaf verið Land Cruiser 150 jeppinn frá Toyota en til þess að fá raunhæfan samanburð á þeim bílum þarf eiginlega að fara í VX útgáfu hans til að búnaðurinn verði því sem næst sambærilegur. Í þeirri útfærslu kostar sá japanski 13.330.000 kr. sjálfskiptur og er þar að auki aðeins með 190 hestafla vél með fimm þrepa sjálfskiptingu í stað átta þrepa í breska landbúnaðarjeppanum. Annar hugsanlegur keppinautur er Mitsubishi Pajero sem kostar 10.190.000 í dýrari útfærslu sinni. Sá bíll er þó einnig langt frá Discovery í búnaði og þar að auki orðinn gömul hönnun. Land Rover Discovery 4 stendur því uppi sem viðmiðið í þessum flokki vel búinna torfærujeppa.

njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Höf.: Njáll Gunnlaugsson