Nýtt grill, stuðari, LED-ljós og merkið í miðjunni eru á meðal nýjunga í Renault Megane III sem fékk andlitslyftingu fyrir skemmstu.
Nýtt grill, stuðari, LED-ljós og merkið í miðjunni eru á meðal nýjunga í Renault Megane III sem fékk andlitslyftingu fyrir skemmstu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 1995 hóf franski bílaframleiðandinn Renault framleiðslu á Megane. Íslendingar tóku bílnum fagnandi og hefur hann alla tíð selst vel hér á landi. Önnur kynslóð Megane kom á markað árið 2002 og var framleidd í sex ár.

Árið 1995 hóf franski bílaframleiðandinn Renault framleiðslu á Megane. Íslendingar tóku bílnum fagnandi og hefur hann alla tíð selst vel hér á landi. Önnur kynslóð Megane kom á markað árið 2002 og var framleidd í sex ár. Þriðja kynslóðin kom á markað 2008 og fyrir skömmu síðan fékk sú kynslóð andlitslyftingu. Á meðal nýjunga eru LED dagljós, endurhannað grill með meira krómi en áður og framhluti bílsins er í raun allur nýr.

Bílinn er hægt að fá í sérstakri BOSE útgáfu og þá eru töluverðar breytingar á bílnum að innan og utan. Sá bíll sem prófaður var er Megane III EDC dísil með sex þrepa sjálfskiptingu. Hann kostar 3.5590.000 kr. en ódýrastur er beinskipti bíllinn á 3.290.000 kr. BOSE bíllinn kostar 3.990.000 kr. og að mínu mati er þeim viðbótaraurum vel varið því hann er vel búinn. Aukabúnaðurinn er BOSE hljóðkerfi með 8 hátölurum og Subwoofer og magnara frá BOSE, leður á slitflotum í sætum, skyggðar rúður, fjarlægðarvari að framan og aftan, 17" álfelgur og krómlistar. Auk þess er sá bíll 130 hestöfl í stað 110.

Ekki má gleyma í þessari upptalningu að hægt er að sérpanta R.S. bílinn sem ég held, eftir að hafa prófað „litla bróður“ hans, Clio R.S. að sé hrikalega skemmtilegt tæki!

Góð andlitslyfting

Það er ekkert hægt að kvarta yfir andlitslyftingunni því hönnunin á bílnum er falleg. Að innan er bíllinn dálítið sérstakur en alls ekki illa hannaður. Þvert á móti er hann vel skipulagður og minimalískur ef svo má segja. Það er engu ofaukið og ekkert sem vantar þar sárlega. Það sem er sérstakt er til dæmis staðsetningin á sætishiturunum. Þeir eru á þeirri hlið sætanna sem snýr að hurðinni þannig að þeir sjást ekki. Hægt er að velja hversu heitt sætið verður (fjögur stig) en ómögulegt að sjá hvað maður hefur stillt á nema auðvitað með því að opna dyrnar. Annað sem er óvenjulegt er staðsetningin á skriðstillinum. Hann er í stokknum á milli bílstjóra og farþega, við hliðina á handbremsunni. Þetta er ekki óþægilegt en hvers vegna þetta er þarna á milli er ekki ljóst því farþeginn á ekkert að vasast í þessu. Hljómburðurinn í bílnum er ekki góður og þeim mun ríkari ástæða til að kaupa BOSE bílinn.

Sparneytni og stór tankur

Stærsti kostur þessa bíls er án efa hversu sparneytinn hann er. Og það er ekki lítið atriði – þvert á móti er það í augum margra lykilatriði og ekki spillir fyrir ef bíllinn er fagurlega hannaður. Í innanbæjarakstri á þessum bíl, sjálfskiptum, var hann í 4,5-4,6 l. á hundraðið. Það þykir mér gott. Það sem kom mér enn meira á óvart var þegar ég ók til Keflavíkur. Í fyrsta lagi kom á óvart að það skyldi vera logn en í öðru lagi að eyðslumælirinn stóð í 3,9 l. á hundraðið innan úr vesturbæ Reykjavíkur og til Keflavíkur. Á brautinni stillti ég skriðstillinn á 92 km hraða og þetta fór hann á tæpum tveimur lítrum af olíu. Það er annar góður kostur við alla Renault-línuna að í henni er mælir sem sýnir útreikning á lítrafjölda eldsneytis sem hann brennir í hverri ferð. Eldsneytistankurinn er stór, eða 60 lítra sem er ljómandi gott og gerir ferðirnar á stöðina færri.

Síðast en ekki síst ber að nefna að þetta er „grænn“ bíll. CO2 gildið er 109 g sem gerir hann að vistvænum bíl hjá Reykjavíkurborg og því má leggja honum gjaldfrjálst í stæði í allt að 90 mínútur. Þeir bílar sem menga minna en 120 g koldíoxíð á kílómetra geta nýtt „visthæfar skífur“ Bílastæðasjóðs.

malin@mbl.is