Porsche 911 Targa árgerð 2014 er gullfallegur sportbíll þar sem nýjustu línur 911-týpunnar og skemmtileg einkenni frá árinu 1968 eru fléttuð saman í óviðjafnanlega heild. Aksturseiginleikarnir eru svo í stíl við glæsilegt útlitið.
Porsche 911 Targa árgerð 2014 er gullfallegur sportbíll þar sem nýjustu línur 911-týpunnar og skemmtileg einkenni frá árinu 1968 eru fléttuð saman í óviðjafnanlega heild. Aksturseiginleikarnir eru svo í stíl við glæsilegt útlitið. — Manuel Hollenbach/Porsche
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki ofsögum sagt að Porsche 911 er með allra nafntoguðustu og fallegustu sportbílum sögunnar enda varð hann klassískur nánast um leið og hann kom fram á sjónarsviðið fyrir rétt rösklega hálfri öld.

Það er ekki ofsögum sagt að Porsche 911 er með allra nafntoguðustu og fallegustu sportbílum sögunnar enda varð hann klassískur nánast um leið og hann kom fram á sjónarsviðið fyrir rétt rösklega hálfri öld. Einstakt sköpulagið, sem er hugarfóstur sjálfs frumherjans Ferdinands Porsche, telst sígild hönnun og hefur framleiðandinn borið gæfu til að standa vörð um grunnþætti 911 allt fram á þennan dag. Targa er eitt afbrigðið af „Neunelf“ eins og heimamenn kalla 911 bílinn og felst í honum valkostur sem er í senn grípandi fyrir augað og geggjaður að keyra. Porsche frumsýndi bílinn og kynnti fyrir blaðamönnum í byrjun apríl í Púglíu-héraði (sem er hællinn á Ítalíu) og undirritaður fékk þar að taka téðan bíl til kostanna.

Hönnun komin í hring

Porsche kynnti 911 bílinn fyrst árið 1963 og fjórum árum síðar kom Targa-afbrigðið fram á sjónarsviðið. Porsche höfðu áhyggjur af því að hefðbundin blæjuútgáfa af 911 fengist ekki seld til frambúðar á hinum mikilvæga Bandaríkjamarkaði af öryggisástæðum og því var sett fram týpa af blæjubíl með veltigrind – hinum auðþekkjanlega stállitaða Targa-boga sem er alltaf á sínum stað, hvort heldur þakið er uppi eða niðri. Nýi 911 Targa-bíllinn felur einmitt í sér ríka tilvísun í 1968-gerðina; fyrir utan þaktoppinn og Targa-bogann er húsið allt úr gleri og gefur það óvenjugott útsýni, jafnvel þó boginn (sem er í raun samtengdir b-póstar og nokkuð breiðir sem slíkir) feli í sér nokkuð fyrirferðarmikinn blindan blett. En maður lifandi hvað þessi bíll lúkkar! Það var mikil snilld að dusta rykið af stállitum boga – hann var lengst af samlitur bílnum – og góð hugmynd sömuleiðis að setja á hann tálknin sem voru á honum forðum. Targa hefur að jafnaði haft um 10% markaðshlutdeild af heildarsölu 911 bíla og sérstakt útlit 2014-árgerðarinnar ljær honum nógu mikla sérstöðu til að búast megi við sterkri hlutdeild í seldum bílum áfram. Það á ekki síst við þegar hann er borinn saman við aðra sportbíla frá Porsche með niðurfellanlegu þaki. Targa er einfaldlega svipsterkari en hefðbundinn 911 Cabriolet-blæjubíll, þökk sé stálboganum, og mun laglegri en Boxsterinn sem hefur löngum liðið fyrir kauðalega teiknuð afturljósin.

19 sekúndna þaksýning

Ýmsar leiðir hafa verið farnar gegnum tíðina til að koma þakinu á 911 Targa niður. Sú sem kynnt er ný til sögunnar á 2014 árgerðinni er býsna tilkomumikil. Með hnappi í miðjustokknum er þakið fellt niður eða sett á aftur. Tekur hvor færsla 19 sekúndur og ökumaður þarf ekki að hreyfa nema litlafingur. Fyrst lyfta sterkir armar afturrúðunni upp til að opna geymsluhólfið fyrir þakið; því næst gengur þakið aftur á öðru pari af örmum og leggst niður undir afturrúðuna sem leggst svo niður á sinn stað. Þessi seremónía er sjón að sjá og stóðst undirritaður ekki að renna bílnum inn á bílaplan við bensínstöð í strandbænum Savelletri til að færa þakið niður. Óhætt er að segja að tíminn hafi staðið í stað í þessar 19 sekúndur því gersamlega öll augu í nágrenninu voru á bílnum meðan mekanisminn framdi galdur sinn og lét þakið hverfa. 911 Targa er ekki fyrir þá sem vilja aka án athygli annarra – það mun verða horft á þennan bíl hvar sem hann kemur. Reyndar verður að segjast eins og er að það er skrýtið að þurfa að halda takkanum uppi eða niðri meðan færslan á sér stað, rétt eins og er með rúðurnar. Öfugt við rúðurnar, sem réttilega er hægt að renna mishátt upp og niður, eru bara tvær stillingar á þakinu; uppi eða niðri. Það ætti því í raun að vera nóg að styðja á takkann og sleppa svo í stað þess að þurfa að styðja á hann í allar 19 sekúndurnar.

Ómengaður draumur í akstri

Að innan er Porsche 911 Targa nánast óaðfinnanlegur sportbíll enda hafa Porsche AG verið að fullkomna formúluna í 50 ár. Hægt er að stilla sæti og stýri á svo fjölbreytta vegu að nánast ómögulegt er að láta ekki fara vel um sig. Stuðningurinn í sætunum er frábær og maður fær fljótt á tilfinninguna að hér sé verið að hugsa fyrst og fremst um ökumann og að hann skemmti sér. Það gerir hann líka refjalaust. Það er ómenguð unun að aka þessu tæki, flóknara er það nú ekki. Undirritaður prófaði sjálfskiptan Targa 4S og beinskiptan Targa 4. Sá sjálfskipti er búinn PDK-skiptingu (Porsche Doppel-Kupplungsgetriebe) þar sem ökumaður getur gripið inn í framvinduna með handvirkri skiptingu í stýri. Er það vel út af fyrir sig en sjálfskiptingin er svo frábærlega úr garði gerð að mannshugurinn bætir vart neinu við og þarf því lítið að skipta sér af. Viðbragðið og mýktin í sjálfskiptingunni er eins og allra best gerist og það er nánast eins og aksturstölvan sé beintengd huga ökumanns. Handvirka skiptingin í Targa 4-bílnum er ekkert slor heldur, silkimjúk og tengslaflöturinn slíkur að það þarf einbeittan klaufaskap ætli maður sér að láta bílinn hiksta í skiptingu, og hvað þá að drepa á bílnum. Það er beinlínis óhugsandi. Það var draumur að taka snúning á þeim báðum og erfitt að gera upp á milli. Togið er fáránlega flott og þegar einstakt urrið í vélinni fer saman við upptakið fær maður gæsahúð í framhandleggina og titring í mjóhrygginn sem situr eftir í minningunni. Stýringin er draumi líkust og tölvustýrð fjöðrunin sér til þess að jafnvel í kröppustu beygjum á þokkalegri siglingu nær miðflóttaaflið ekki að halla bílnum að ráði; stöðugleikinn er alger. Verði ég hinsvegar að gera upp á milli þeirra þá vel ég þann sjálfskipta, Targa 4S, því hann er með Launch Control sem gerir bílinn að hreinustu rakettu og hann flýgur í hundraðið á 4,2 sekúndum. Það er talsverð upplifun, á minn sann. Targa-bílarnir eru fjórhjóladrifnir og valdið yfir veginum er algert.

Leikfang fyrir kröfuharða

Fyrir hverja er svo Porsche 911 Targa? Eins og framar greindi hefur bíllinn útlitslega sérstöðu í Targa-boganum sem ljær honum einstakan svip og það er ástæða fyrir kaupunum út af fyrir sig. Þegar þetta er ritað er alls óvíst hvort bíllinn verður fluttur til landsins, að því er innanbúðarmenn í umboðinu segja mér, svo verðið liggur ekki fyrir. Bíllinn gæti þó vel átt sér kaupendur hér á landi því hann er aðeins ódýrari en hefðbundinn 911. Aftur á móti gerir vélbúnaðurinn í felliþakinu og stóra afturrúðan hann þyngri og hann er ekki alveg sami ofursportarinn og 911 Carrera. Það gerir hins vegar ekki neitt til.

Ég hef á tilfinningunni að Targa sé miðaður að þeim sem hafa ekki þörfina fyrir eintóman hraðbrautarakstur heldur vilja líka krúsa með þakið niðri og finna ilminn af rósunum milli þess sem þeir líða áreynslulaust eftir hraðbrautinni á 190 km/klst eins og á skýi. Því það gerði hann. Samskeytin á þakinu skópu lítið sem ekkert vindgnauð og með þakið niðri þurfti ég ekki að hækka í útvarpinu fyrr en hraðamælirinn sagði 110 km/klst. Farþegi í framsæti hefði eflaust gaman af líka en aftursætin tvö eru með naumindum fyrir fullorðna, alltént ekki í lengri keyrslur, þó að börnin myndu pluma sig þar. En þetta er náttúrlega ekki bíll sem fólk kaupir undir stóra fjölskyldu eða mikinn farangur. Þetta er leikfang fyrir kröfuharða sem vilja ómengaða ánægju í akstri og um leið einn fallegasta Porsche 911 sem komið hefur fram hin seinni ár.