Mercedes-Benz C 220 Exclusive er glæsilegur bíll að sjá og ber þess glöggt vitni hversu vel hönnuðir framleiðandan standa sig þessi misserin. Draumabíll í alla staði.
Mercedes-Benz C 220 Exclusive er glæsilegur bíll að sjá og ber þess glöggt vitni hversu vel hönnuðir framleiðandan standa sig þessi misserin. Draumabíll í alla staði. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það verður ekki af Benz tekið að fyrirtækið upplifir góða daga þessi misserin.

Það verður ekki af Benz tekið að fyrirtækið upplifir góða daga þessi misserin. Hönnuðir hafa dottið niður á straumlínulögun sem tekist hefur að heimfæra með stæl á nærfellt allar línur framleiðandans og heildarsvipur bílanna er augljós án þess að sérkenni glatist. Allt frá hinni smágerðu A-línu og upp í flaggskipið S-Class er ættarsvipurinn greinilegur og það sem meira er, hann er þrælfallegur í ofanálag. Framangreint má sömuleiðis herma upp á C-línuna sem nýverið var tekin til kostanna. Sá bíll er í flesta staði öndvegiskostur í sínum flokki.

Stærri en í fyrstu sýnist

Það fyrsta sem slær mann þegar nýi C-Class blasir við er að hann virðist allur stærri að sjá en málin segja til um. Yfir bílnum er bæði fágun og reisn og það er ekki út í bláinn að hann hefur verið kallaður „Litli S-Class“ því það er það sem hann er, alltént Exclusive-útgáfan. Aðrar gerðir línunnar hafa öðruvísi og sportlegra framgrill en Exclusive-bíllinn hefur á sér viðhafnarblæ, að því marki að væru myndir skoðaðar af honum og S-Class hlið við hlið þyrfti meðaljóninn að gá tvisvar til að fullvissa sig um hvor er hvað.

Virðuleikinn er þó síst á kostnað snerpunnar því C-Class rýkur af stað þegar slegið er í og upptakið kom verulega á óvart. Togið er einfaldlega til fyrirmyndar og gerir aksturinn virkilega ánægjulegan.

Þá er gaman að geta þess að ekki einasta virðist bíllinn stærri að utan séð heldur hefur ráðstöfun rýmis að innan tekist svo vel að hann er nánast ómögulega rúmgóður; þó ökumaður og farþegi í framsæti séu með sætin mátulega aftarlega þá væsir ekki um farþegana aftur í nema síður sé. Þar er dæmalaust plássgott og ekki laust við að minni á limósínu. Þýskir verkfræðingar láta ekki að sér hæða!

Afbragð innandyra – og þó...

Aðstaða ökumanns er í aðalatriðum eins og best verður á kosið og á þessum síðum hefur áður verið reifað hversu vel hönnuðum Daimler AG hefur tekist að samþætta stjórntækin í nýrri gerðum Benz. Það sama er hér uppi á teningnum; allt er innan seilingar og snerillinn í miðjustokknum sem stýrir útvarpi, loftflæði og öðru sem fram fer á aðalskjánum svo ótrúlega þægilegur í notkun. Meðan hægri olnboginn hvílir á stokkpúðanum leika fingurnir um stjórntækin eins konsertpíanisti á flygilinn.

Talandi um flygil, þá er miðjustokkurinn klæddur með kolsvörtu plasti með svokallaðri píanóáferð sem hljómar svosem nógu grand en er ekki skemmtilegt við að eiga þegar fingraförin taka að safnast þar fyrir. Væri ekki frekar við hæfi að hafa þarna viðarklæðningu, alltént í Exclusive-útfærslunni? Þá saknaði undirritaður þess sárlega að hafa glasahaldara í miðjustokki. Slíkt má einfaldlega ekki vanta. Loks þótti mér sérstakt að skýringarmyndin af bílnum sem birtist bæði í miðju skjásins, á milli hraðamælis og snúningshraðamælis, er af hefðbundnum C-Class en hann hefur allt annan framenda eins og framar greindi frá. Slagorð Mercedes-Benz er „The Best or Nothing“ og í þeim sporum ber manni skylda til að hugsa út í svona lagað. Benz má vita að almættið býr í smáatriðunum.

Þögull virðuleiki í hvívetna

C-Class-bíllinn er það sem kallast „aluminum hybrid“ eða álbræðingur sem þýðir að hluti yfirbyggingarinnar er úr áli og því um 70 kílóum léttari en sambærilegur bíll. Það þýðir vitaskuld minni eldsneytiseyðslu og tölurnar voru vel ásættanlegar hvað það varðaði. Það er með ólíkindum hvað bíllinn er hljóðlátur á vegi! Það heyrist varla hljóð þegar hann er á ferð, hvorki frá vegi né vindi, og það þarf raunverulega að leggja við hlustir þegar sjálfvirki kveikibúnaðurinn drepur á og ræsir bílinn, svo hljóðlátur er hann. Þetta styður einfaldlega enn frekar við þá tilfinningu að hér sé um S-Class bíl að ræða í C-Class sauðargæru, ef svo má að orði komast. Fjöðrunin er að sama skapi fyrirtak og heldur bílnum marflötum, líka þegar beygt er á hraustlegri ferð inn í hringtorg og út úr því aftur. Þessi bíll glatar einfaldlega ekki fáguninni jafnvel þótt tekið sé á honum. Þetta er framúrskarandi sýnishorn af því sem Mercedes-Benz er fær um.

jonagnar@mbl.is