Útlitið fær Mercedes-Benz GLA að mestu leyti frá CLA Coupé enda er heildarsvipurinn nokkuð sportlegur.
Útlitið fær Mercedes-Benz GLA að mestu leyti frá CLA Coupé enda er heildarsvipurinn nokkuð sportlegur. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mercedes-Benz GLA er nýkominn til landsins þótt hann hafi verið frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra. Hann er settur til höfuðs bílum eins og BMW X1 og Audi Q3.

Mercedes-Benz GLA er nýkominn til landsins þótt hann hafi verið frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra. Hann er settur til höfuðs bílum eins og BMW X1 og Audi Q3. Þessi bíll er sá fyrsti frá Mercedes til að fá nýja 4MATIC-fjórhjóladrifið sem getur dreift átaki 100% á milli fram- og afturhjóla. Hann er byggður á sama undirvagni og A-línan enda er hann eins og örlítið þrýstnari útgáfa hans að sjá, með útlitseinkennum frá CLA Coupé. Bíllinn verður frumsýndur hjá Öskju í vikunni en Morgunblaðið hafði hann til reynslu í vikunni áður.

Eins og A-bíllinn að innan

Að innan er bíllinn að langmestu leyti eins og A-bíllinn litli bróðir hans fyrir utan nokkur stjórntæki er lúta að fjórhjóladrifi hans, sé hann búinn því eins og reynsluakstursbíllinn. Það er reyndar frekar erfitt að lesa á suma takka í bílnum fyrir hversu litlar merkingar á þeim eru. Útsýni er skárra en í A-bílnum en há axlalína gerir þeim smávöxnu erfitt fyrir að sjá út. Bíllinn er ekki eins hár og maður myndi ætla og ekki laust við að maður setjist ennþá niður í hann, enda eru aðeins 135 mm upp undir hann. Þótt innréttingin sé lagleg er efnisvalið frekar mikið í flokki plastefna sem maður á ekki að venjast í Mercedes-bílum að jafnaði. Frágangurinn er líka ekki alveg fyrsta flokks því að hvassar brúnir eru á samskeytum á miðjustokki. Allur samskiptabúnaður er hins vegar fyrsta flokks og auðvelt að tengja símann við kerfið, sem einnig er eldsnöggt að skynja hann. Hægt er að fá Siri-samtengingu fyrir þá sem eiga iPhone-síma. Plássið í GLA er meira en í A-bílnum og þá sérstaklega til höfuðsins. Vel fer um farþega í framsætum en aðeins tveir fullorðnir geta látið fara vel um sig aftur í ef þeir eru ekki miklu hærri en undirritaður. Það kemur skemmtilega á óvart að sjá hveru aðgengilegar festingar fyrir Isofix-barnabílastóla eru í þessum bíl og ekki bara það, heldur vel merktar líka. Það mættu aðrir bílaframleiðendur taka sér til fyrirmyndar. Farangursrými bílsins er gott og aðgengilegt og það er fengur að rafdrifnum afturhlera sem opnast vel upp.

Góður á malbikinu

Að keyra GLA er eins og að keyra fólksbíl, ekki jeppling, enda liggur hann sérlega vel og er laus við undirstýringu. Aðeins vottaði fyrir því að hann væri laus að aftan en það má alveg eins kenna blautu veðri og vetrardekkjum um það. Skiptingin er sjö þrepa með tvöfaldri kúplingu enda fljót að finna alltaf rétta gírinn og ef bíllinn kemur með DSR heldur hann sama gír niður brekku til að auka ekki hraðann um of. Vélin er þýðgeng nema kannski helst í hægagangi og í akstri er bíllinn mjög hljóðlátur. Aukabúnaður er upplýsingaskjár fyrir Off-Road-búnað sem sýnir hversu mikið er lagt á stýrið, hvernig drifið dreifir sér, áttavita, halla og hvað bíllinn hallast mikið sjálfur, auk hversu mikið að- og fráhorn hann hefur. Prófunarbíllinn var einmitt búinn svona búnaði og þótt hann hljómi ekki merkilegur er gott að hafa hann í bíl sem er ekki mikill torfærubíll eins og þessi. Þótt fjórhjóladrifið hjálpi honum eitthvað er það allt og sumt enda bíllinn ekkert hærri en venjulegur langbakur. Þess vegna er varla hægt að kalla þennan bíl jeppling og það þarf ekki heldur að vera ókostur enda bíllinn mjög góður á malbikinu. ECO-búnaður GLA-bílsins er helst til of afskiptasamur og mjög snöggur að slökkva á bílnum, svo mjög að það verður jafnvel pirrandi þegar bíllinn startar og slekkur á sér í tíma og ótíma ef verið er að mjaka sér áfram. Annað við búnaðinn truflar líka eins og hversu mikið hann hægir á upptaki bílsins til að spara eldsneyti. Ef bílnum er ekki einfaldlega gefið alveg inn er hann lengi að taka við sér svo að innskot milli bíla gæti reynst varasamt. Einfaldast var einfaldlega að slökkva á búnaðinum enda er það hægt sem betur fer.

Mitt á milli keppinauta í verði

Grunnverð Mercedes-Benz GLA er 6.750.000 kr. með aflminni 2,2 lítra dísilvélinni. Sambærileg útfærsla á BMW X1 væri 1,8d sem kostar frá 6.090.000 kr. Aðeins ein útfærsla er í boði fyrir Audi Q3 með aðeins öflugri tveggja lítra dísilvél, og kostar hann 7.590.000 kr. Með öflugri 2,2 lítra vélinni kostar GLA hins vegar 7.250.000 kr. sjálfskiptur en sú vél er svipuð að afli. Af þessu má ráða að GLA-bíllinn staðsetur sig mitt á milli keppinautanna í verði þótt hann nái ekki að skáka BMW-bílnum.

njall@mbl.is