Álfelgur eru meðalstaðalbúnaðar á RAV4.
Álfelgur eru meðalstaðalbúnaðar á RAV4.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Toyota RAV4 er nú fáanlegur í sex gíra beinskiptri dísilútfærslu. Bíllinn er með 2,0 lítra vél og er vel búinn á ágætu verði. Þetta er góð viðbót við þær útfærslur sem fyrir voru í boði af þessum vinsæla jepplingi.

Toyota RAV4 er nú fáanlegur í sex gíra beinskiptri dísilútfærslu. Bíllinn er með 2,0 lítra vél og er vel búinn á ágætu verði. Þetta er góð viðbót við þær útfærslur sem fyrir voru í boði af þessum vinsæla jepplingi. Þessi er langsamlega ódýrastur og kostar 5.440.000 kr. Aðrar kosta frá 5.985.000 kr. til 7.390.000 kr.

Fjórða kynslóð RAV4 kom á markað í Evrópu á síðasta ári en fyrsta kynslóð árið 1994 og hefur notið mikilla vinsælda frá upphafi, m.a. hér á landi. Nýjasta kynslóðin er verulega breytt og er töluvert stærri og rúmbetri.

Góðar tölur fyrir áhugasama

Sá bíll sem prófaður var er sem fyrr segir sá ódýrasti og verður að segjast eins og er að búnaðurinn er með prýðilegasta móti þrátt fyrir það. Það sem undirritaðri þótti einna ánægjulegast að sjá í þessum prófunum var hversu lágar eyðslutölur sáust, bæði í langkeyrslu sem og í innanbæjarakstri. Hann fór niður í 5,8 lítra í utanbæjarakstri og hékk í 6,7 lítrum innanbæjar. Samkvæmt framleiðanda má ná þessum tölum enn neðar og er eflaust hægur vandi við góð skilyrði.

Rúsínan í pylsuendanum er mengunargildið. Það er 136 g af CO2 á kílómetra í blönduðum akstri en fer niður í 121 g í utanbæjarakstri. Hér er gott að hafa í huga að til að bílar teljist visthæfir þarf mengunargildið að vera innan við 120 g og er gaman að sjá þetta stóran jeppling svo nálægt því marki. Í það minnsta þykir mér það skipta miklu.

Þessi 2,0 lítra common rail-dísilvél skilar 124 hestöflum og togar vel (hámarkstog er 310/1600-2400), þannig að yfir vélinni er ekki hægt að kvarta og sex gíra skiptingin er prýðileg.

Staðalbúnaður

Almennt erum við vön því hér á íslenskum bílamarkaði að bílar séu vel búnir. Hér þekkist það til að mynda ekki að nýr bíll sé seldur án hljómtækja eða án gúmmímotta. Þar sem við erum vön því að bílar séu vel tækjum búnir viljum við helst fá þá með hita í sætum, skrikvörn, þakbogum og helst bassaboxi og bílaumboðin verða við þeim óskum. Þessi bíll er með alls kyns búnaði sem maður gæti vel sætt sig við að væri aukabúnaður en getur glaðst yfir að sé staðalbúnaður. Má þar einna helst nefna rafdrifinn afturhlera, sem er stórskemmtileg uppfinning og kemur sér einkar vel, til dæmis þegar maður ætlar að opna skottið með fullar hendur eða fyrir þá sem eru með viðkvæmt bak.

Álfelgurnar sem sjást á meðfylgjandi myndum fylgja bílnum. LED-dagljós, LED-bremsuljós, upphitaðir og aðfellanlegir hliðarspeglar, þakbogar, skyggðar rúður, vindskeið, bakkmyndavél, leðurklætt stýri og hraðastillir eru á meðal þess helsta sem má nefna sem tilheyrir þessari útfærslu og er það býsna gott.

Verðsamanburður

Þessi upphæð, 5.440.000 kr. kann að hljóma há þegar miðað er við meðallaun í landinu en ef hún er skoðuð í samhengi, þ.e. hvað aðrir bílar í svipuðum stærðarflokki kosta, er hún ekki svo galin. Ef við tökum aðra fjórhjóladrifsjepplinga og berum saman verð mætti byrja á Nissan Qashqai sem kostar frá 4.990.000 kr., KIA Sportage frá 5.990.777 kr., Volkswagen Tiguan kostar frá 5.590.000 kr., Mitsubishi Outlander frá 4.990.000 kr., Audi Q3 frá 7.590.000 kr., Hyundai Santa Fe frá 7.450.000 kr., BMW X3 frá 6.990.000 kr., Subaru Forester frá 5.690.000 kr., Honda CRV frá 5.490.000 kr. og Suzuki Grand Vitara frá 5.590.000 kr.

Af þessu góða úrvali fjórhjóladrifinna jepplinga má sjá að verðið á beinskiptum RAV4 með dísilvél er alls ekki út í hött.

malin@mbl.is