Pláss í aftursætum er gott og það jafnvel fyrir þrjá fullorðna en aðeins vantar þó uppá fótapláss fyrir miðjufarþegann.
Pláss í aftursætum er gott og það jafnvel fyrir þrjá fullorðna en aðeins vantar þó uppá fótapláss fyrir miðjufarþegann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volkswagen frumsýndi nýjan Passat í Potsdan í Þýskalandi í fyrrasumar og brátt styttist í það að nýi bíllinn verði frumsýndur hér á landi í marsmánuði á vori komanda.

Volkswagen frumsýndi nýjan Passat í Potsdan í Þýskalandi í fyrrasumar og brátt styttist í það að nýi bíllinn verði frumsýndur hér á landi í marsmánuði á vori komanda. Íslenskir bílabaðamenn voru á faraldsfæti fyrir jól þegar bíllinn var kynntur fyrir þeim á eyjunni Sardiníu í Miðjarðarhafi. Nýja kynslóðin er sú áttunda í röðinni en VW Passat hefur verið framleiddur óslitið síðan 1973 í alls 22 milljónum eintaka. Það er ekki sjálfsagt að ná slíkri sölu, en Passat selst í 1,1 milljón eintaka árlega sem er meira en öll árleg sala BMW eða Audi. Til að setja þær tölu í betra samhengi eru það tveir bílar á mínútu eða 3.000 bílar á dag. Bæði Ameríka og Kína fá sínar eigin útgáfur af Passat og í Kína heitir hann Magotan en þar er B2-útgáfan frá 1980 enn vinsæl meðal leigubílstjóra.

Byggist á sömu MQBtækni og Golf

Nýr Passat er örlítið styttri og lægri en fyrri kynslóð en bíllinn er breiðari og allt í útliti hans undirstrikar það, eins og breið díóðuljósin að framan og aftan. Mest munar þó um að hjólhaf bílsins er 79 mm lengra en áður og fer í 2.791 mm. Passat setur ný viðmið í flokknum þegar kemur að eiginþyngd en hún hefur minnað um 85 kíló. Undirvagninn byggist á sömu MQB-tækni og í nýjum Golf og einnig bílum eins og Skoda Octavia og Audi TT reyndar. Að innan er nýr Passat mun rúmbetri en fyrirrennarinn og hjálpast margt þar að. Búið er að endurhanna mælaborð frá grunni og það er eins og hönnuðir VW hafi skipt út gráðuboganum fyrir reglustriku, svo beinar og flatar eru línurnar í mælaborði bílsins. Komið er stafrænt mælaborð með hraðamæli og öllum öðrum mælum stafrænum, og á milli þeirra birtist leiðsögukortið þegar það er virkjað. Meira hjólhaf hefur líka sitt að segja og fótarými er með besta móti fyrir þrjá fullorðna farþega í aftursætum. Eini ókosturinn er að miðjustokkurinn tekur fótapláss frá miðjufarþeganum. Sæti eru rúmgóð og styðja vel við farþegana þótt segja megi að þau séu í harðara lagi. Farangursrými í skutbílnum er langt og rúmgott og 650 lítrar er meira en hjá helstu keppinautum. Það er kostur að hafa rafmagnsopnun, svo ekki sé talað um hreyfiskynjara undir stuðara ef maður er með fullar hendur. Þá er nóg að dangla öðrum fætinum aðeins og opnar hann þá skottlokið enda búinn að skynja lykilinn í vasa eigandans.

Kraftmikill og góður akstursbíll

Þótt að dísilvélar VW séu góðar hafa þær stundum þótt í háværara lagi en í nýjum Passat er eins og þetta umkvörtunarefni sé horfið. Lítið sem ekkert vélarhljóð heyrist í hægagangi og það er ekki fyrr en á hásnúningi sem það fer að heyrast eitthvað frá BiTDI-vélinni. Þar sem vinnslan er best við 2-3.000 snúninga gerist það ekki oft að þörf sé á slíku. Við prófuðum bílinn mest með þessari 240 hestafla vél sem er hreint út sagt frábær þótt miður sé að hún sé ekki komin á verðlista frá Heklu ennþá. Með 4Motion-fjórhjóladrifinu er veggripið það gott að hann er aðeins 6,3 sekúndur að komast í 100 km á klst. Prófunarbíllinn var með DCC-stöðugleikabúnaði (Dynamic Chassis Control) en hann er staðalbúnaður í GT-útfærslunni. Þar er hægt að skipta á milli Comfort-, Normal- og Sport-stillinga, sem breytir ekki aðeins eiginleikum fjöðrunarinnar heldur einnig viðbragði í stýri og inngjöf og líka gírskiptingum í DSG-skiptingunni. Bíllinn virkar klettstöðugur í beygjum og er alveg laus við undirstýringu. Stutt frá hótelinu var ansi sérstakt og stórt hringtorg sem lá utan í brattri brekku og var hrein unun að finna hvað bíllinn var stöðugur í gegnum það þótt hratt væri farið.

VW Passat er vel búinn bíll í grunninn og hægt er að bæta við sérstökum aukabúnaði eins og kerruaðstoð og búnaði sem keyrir bílinn sjálfvirkt í umferðarhnútum stórborganna. Kerruaðstoðin er sniðugt dæmi fyrir þá sem treysta sér illa til að bakka með kerru en þá tekur bíllinn yfir stýri bílsins og sér um að bakka rétt með aðstoð myndavéla aftan á bílnum. Einnig er hægt að fá hann með skjávarpa á framrúðu fyrir helstu upplýsingar og öryggisbúnaði sem skynjar fótgangandi vegfarendur. Þegar bílar í þessum flokki eru farnir að vera fáanlegir með slíkum búnaðarlista er stutt í að þeir séu farnir að keppa við lúxusmerkin í stærðarflokknum. Óhætt er að segja að nýr Passat gerir meira en að narta í hælana á merkjum eins og BMW, Audi og Benz. Um leið er hann enn á verði bíla eins og Ford Mondeo, Honda Accord og Mazda 6. Grunnverð nýs Passat er 4.110.000 kr. í fernra dyra útfærslu og 4.290.000 kr. sem skutbíll. Dýrasta útfærslan í bili er Passat Highline 4Motion með 192 hestafla dísilvélinni en sá bíll kostar 6.844.444 sem skutbíll.

njall@mbl.is