Mælaborðið er einfalt og stílhreint í Kia Soul og kostur í kuldanum að hafa upphitað stýri.
Mælaborðið er einfalt og stílhreint í Kia Soul og kostur í kuldanum að hafa upphitað stýri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kia Soul kom á markaði í annarri kynslóð sinni snemma á síðasta ári en kom þó ekki hingað til lands fyrr en seint sama ár. Blaðamaður Morgunblaðsins hefur þegar ekið EV-rafbílnum en bauðst um daginn að prófa hann með hefðbundnari aflrás.

Kia Soul kom á markaði í annarri kynslóð sinni snemma á síðasta ári en kom þó ekki hingað til lands fyrr en seint sama ár. Blaðamaður Morgunblaðsins hefur þegar ekið EV-rafbílnum en bauðst um daginn að prófa hann með hefðbundnari aflrás. Reyndar er í boði bæði bensín- og dísilbíll með sömu stærð af vél en dísilvélin með sínu togi verður að teljast eftirsóknarverðari kostur.

Keppir á víðum grundvelli

Hvar staðsetur maður bíl eins og Kia Soul, gæti maður spurt? Hann keppir í sama flokki og algengir bílar eins og Ford Focus, Mazda 3 og VW Golf en þegar flett er í gegnum umfjallanir á bílnum á veraldarvefnum má sjá að hann er einnig settur til jafns við smájepplinga eins og Skoda Yeti, Renault Captur, Peugeot 2008 og jafnvel Nissan Juke. Undirritaður vill þó ekki ganga svo langt að bera hann saman við fjórhjóladrifsbíla en óhætt er að setja hann í samkeppni við þá frönsku í seinni upptalningunni. Sálin er með jepplingslaga útliti sínu rúmgóður bíll og hann hefur stækkað talsvert frá fyrri kynslóð. Hann er 20mm lengri og 15 mm breiðari en áður og hjólhafið hefur einnig verið aukið um 20 mm. Með nýrri framleiðsluaðferðum er hann einnig 28% stífari en fyrri kynslóð sem gerir hann betri sem akstursbíl. Þegar maður mátar sætin finnur maður fljótt að hér er rúmgóður bíll á ferðinni og sætin eru líka nógu stór til að maður geti látið fara vel um sig í þeim. Flatt gólf við aftursætaröðina eykur líka á þægindin og hurðir opnast vel svo að innstig er með besta móti. Kia heldur því fram að fóta- og axlarými afturí sé það besta miðað við samkeppnisaðilana og við erum ekkert að rengja það. Farangursrýmið er 354 lítrar sem er líka með því besta í flokknum.

Að mestu góður akstursbíll

Kia Soul er byggður á sömu botnplötu og Kia Cee'd og þess vegna virkar hann stærri en hann þótt Soul sé í raun og veru næsti stærðarflokkur fyrir neðan. Með 1,6 lítra dísilvélinni er upptakið allgott enda hefur hún 260 Newtonmetra tog sem er ástæðan fyrir því að hann er aðeins 11,2 sekúndur í hundraðið. Þrátt fyrir að prófunarbíllinn hafi verið með sjálfskiptingunni virkaði hann nokkuð sprækur og sjálfskiptingin hnökralaus, þótt hún hafi verið sekúndu lengur að koma honum í ólöglegan aksturshraða. Þó að dísilvélin sé í háværari kantinum í lausagangi þegar staðið er fyrir utan bílinn er bíllinn vel hljóðeinangraður frá vélarrými svo að maður verður ekki var við mikið vélarhljóð í akstri. Veghljóð er aftur á móti í hærri kantinum enda kannski við því að búast í bíl í þessum verðflokki. Að keyra bílinn virkar vel á ökumann þar sem hann er mátulega stífur til að virka stöðugur þegar reynt er á hann. Það er kannski að svörunin er ekki nógu góð í stýri þrátt fyrir hinar ýmsu stillingar sem hægt er að velja gegnum Flex Steer-búnaðinn. Þar er hægt að velja mismunandi mikið hjálparátak, bæði léttara og þyngra eftir aðstæðum.

Verðið mætti vera betra

Í grunninn er óhætt að segja að Kia Soul er vel búinn bíll og má þar telja búnað eins og upphitað stýri, bakkmyndavél með nálægðarskynjurum og blátannartengingu fyrir snjallsíma. Einnig er hægt að fá leiðsögukerfi og átta tommu litaskjá sem aukabúnað, sem væri ekki vitlaust því að 4,3 tommu skjárinn sem kemur sem staðalbúnaður er frekar lítill og hentar illa fyrir bakkmyndavél til að mynda. Grunnverð bílsins er 3.890.777 kr. en eins og við prófuðum bílinn með dísilvél og sjálfskiptingu er bíllinn kominn í 4.190.777 kr. Svona til að skoða samanburðarbílana og grunnverð þeirra miðað við svipaða dísilvél, þá kostar Ford Focus 3.830.000 kr með 120 hestafla dísilvélinni og sjálfskiptur, VW Golf kostar 3.960.000 kr með 1,6 lítra dísilvél, einnig sjálfskiptur en aðeins kraftminni. Peugeot 2008 1,6 dísil kostar aðeins 3.770.000 kr sjálfskiptur enda með lægsta mengunargildið og Renault Captur 1,5 dísil kostar frá 3.840.000 kr sjálfskiptur. Þess vegna er ekki hægt að hrósa Soul fyrir lægsta verðið í flokknum líkt og í nágrannalöndunum sem er dapurt fyrir bíl sem kemur jafn vel út og hann gerir í öðrum atriðum.