— Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Munurinn sem getur falist í einum bókstaf... Í hinni þrískiptu sedan-línu Lexus á hver bíll sína hillu. IS er sá litli og snarpi, LS sá stóri og virðulegi (sbr. viðhafnarbíl embættis forseta Íslands) og svo er GS mitt á milli.

Munurinn sem getur falist í einum bókstaf...

Í hinni þrískiptu sedan-línu Lexus á hver bíll sína hillu. IS er sá litli og snarpi, LS sá stóri og virðulegi (sbr. viðhafnarbíl embættis forseta Íslands) og svo er GS mitt á milli. Eins og verða vill með barnið í miðjunni getur hann ef til vill gleymst þarna á milli enda lætur hann ekki ýkja mikið yfir sér og útlitið er allt lágstemmt og fágað. Það breytir því ekki að GS bíllinn er urrandi skemmtilegur í akstri, aflmikill og togar eins og enginn sé morgundagurinn. En hafi bíllinn þurft á svolítilli upplyftingu að halda útlitslega þá þarf ekki að leita lengra. Lexus GS450h F-Sport er hreint löðrandi í sjálfsöryggi á alla kanta og allar sjálfsmyndarkrísur foknar í veður og vind. Hér er kominn bíll sem mun ekki liggja í láginni. Þessi er þrælflottur og veit af því.

Lengi getur gott batnað

Sem fyrr segir hafa aksturseiginleikar ekki verið vandamál hjá GS bílnum hingað til og hrein unun að slá í klárinn og hendast af stað. F-Sport gerðin tekur þessa ánægju stóru skrefi lengra og sem akstursbíll er hann framúrskarandi. Til að ráða sem best við aukið aflið hefur Lexus gert grindina stífari og bætt fjöðrunina. Eins og í öðrum bílum má fyrirvaralaust skipta milli hefðbundinnar uppsetningar, umhverfisvænnar og svo sport; það þarf víst ekki að koma á óvart að þegar sportstillingin er komin á og birtan í mælaborðinu rauð, þá er þessi bíll algerlega í sínu elementi. Hann steinliggur á vegi, beygir sem á brautarteinum væri og hljóðið þegar inngjöfin er botnuð hreinn unaður. 345 hestöfl skila sér vel til hjólanna og áreynslulaust togið er firnagott. Þetta er bíll sem segir „ókeibæ“ á umferðarljósum, sé þess óskað.

Næstum eins – bara flottari

Útlitslega er F-Sport bíllinn í meginatriðum eins og hefðbundinn GS, en þó kryddaður sjónrænum uppfærslum sem setja mikinn svip á hann. Svuntan undir framljósunum er vígalegri, afturljósin lítillega öðruvísi, innviðirnir kolefnissvartir og svo mætti lengi telja. Engin útlitsbylting út af fyrir sig en einkar skynsamlega betrumbætt í takt við prófíl F-Sport bílanna. Í stuttu máli sagt er þetta einn fallegasti Lexusinn sem undirritaður hefur mátað og akstursánægjan í takt við það.

Hvað vill maður meira – ef til vill LS460 F-Sport? Jón Gnarr, ertu að punkta þetta hjá þér fyrir næstu uppfærslu á bílakosti embættisins?

Praktísku atriðin

Það ætti að blasa við að þennan bíl kaupir enginn vegna stærðar farangursrýmis en því skal samt haldið til haga að það er glettilega gott. Fótarýmið fyrir farþega í aftursæti er fyrirtak og óþarfi er að fjölyrða frekar um aðbúnaðinn í framsætunum, þar er allt eins og best verður á kosið. Það eina sem truflaði aðeins við aksturinn var „takkinn“ sem notaður er til að skipta um útvarpsstöðvar og sinna öðru tilfallandi á aðalskjá mælaborðsins. Um er að ræða ferningslagaðan kubb sem þarf að hnika til og frá, í allar áttir, og það tekur stundum óþarfa athygli frá ökumanni að átta sig á hvar hann er staddur hverju sinni. Að öðru leyti er ekki hægt annað en að hrósa Lexus fyrir fantavel heppnaðan GS450h F-Sport.

jonagnar@mbl.is