Þótt útlitið sé klassískt og með fjölskyldusvip Volkswagen-samstæðunnar er ekki laust við að efnisval í innréttingunni hefði alveg að ósekju mátt vera örlítið betra fyrir þennan annars vel búna bíl.
Þótt útlitið sé klassískt og með fjölskyldusvip Volkswagen-samstæðunnar er ekki laust við að efnisval í innréttingunni hefði alveg að ósekju mátt vera örlítið betra fyrir þennan annars vel búna bíl.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoda Ocatvia var kosinn bíll ársins á Íslandi 2015 síðastliðið haust og nú er kominn á markað útgáfa af þeim bíl sem henta ætti vel íslenskum aðstæðum. Skoda Octavia Scout er fjórhjóladrifinn með 171 mm veghæð og kemur aðeins sem langbakur.

Skoda Ocatvia var kosinn bíll ársins á Íslandi 2015 síðastliðið haust og nú er kominn á markað útgáfa af þeim bíl sem henta ætti vel íslenskum aðstæðum. Skoda Octavia Scout er fjórhjóladrifinn með 171 mm veghæð og kemur aðeins sem langbakur. Á Íslandi hefur tilkoma jepplinga í ýmsum stærðum minnkað talsvert sölu í bílum eins og þessum. Þeir hafa samt nokkra kosti framyfir jepplinginn eins og betri aksturseiginleika sem blaðamaður Morgunblaðsins komst að í reynsluakstri á bílnum í síðustu viku.

Sérstaklega rúmgóður

Að setjast inn í Octavia Scout er þægilegra en í fólksbíl en samt ekki eins aðgengilegt og þegar um hærri jepplinga er að ræða. Brík á sæti og hár síls flækist aðeins fyrir. Þegar búið er að koma sér fyrir gleymist það hins vegar fljótt enda bíllinn ekki aðeins þægilegur heldur líka einstaklega rúmgóður. Sætin eru stór og fara vel með mann og fótapláss er óvenjugott, sérstaklega í aftursætum. Þar getur farið vel um þrjá fullorðna sem er lúxus í fólksbílum í dag. Ekki versnar það þegar farangursrýmið er skoðað því að þar er pláss fyrir flest það sem fólki gæti dottið í hug að taka með sér. Með öll sæti á sínum stað er plássið 610 lítrar sem er óvenjugott. Með því að fella niður aftursæti fer það í 1.740 lítra og þar sem hægt er að fella niður farþegasæti frammi í líka, má flytja hluti sem eru næstum þrír metrar að lengd. Skátinn er einnig vel búinn bíll með flestu því sem prýða á bíl í þessum flokki eins og blátannarbúnað og fjarlægðarskynjara en undirritaður saknaði að sjá ekki rafstýrðan afturhlera líkt og í Octavia Combi. Á móti kemur að hann er með Xenon-ljós sem staðalbúnað sem beina geislanum inn í beygjurnar en sá búnaður er venjulega í dýrari bílum en þessum. Kannski er það bara tilfinning blaðamanns sem segir að það ætti að vera betra efnisval í innréttingu miðað við hversu mikill bíll er hér á ferðinni.

Gefur betri öryggistilfinningu

Að keyra langbak eins og Skátinn er ólíkt betri tilfinning en að keyra margan jepplinginn sem í boði er í dag. Þrátt fyrir minni veghæð er fjöðrunin slaglengri því að hærri bílar þurfa oft að vera stífari til að leggjast ekki út í beygjurnar. Skátinn er mátulega snöggur í stýri og liggur vel í gegnum beygjurnar svo að ökumaður fær meiri og betri öryggistilfinningu í akstri en þegar um jeppling er að ræða. Vélin í prófunarbílnum var öflugri dísilvélin sem skilar 189 hestöflum og togar þrusuvel eða 380 Newton-metra. Með þeirri vél kemur hann aðeins sjálfskiptur en samt er hann aðeins 7,8 sekúndur í hundraðið sem er meira en nóg. Upptakið finnst vel um leið og hann er búinn að taka við sér en samt er örlítið hik í byrjun þegar stigið er snöggt á eldsneytisgjöfina. Tækifæri gafst til að prófa bílinn á grófum og gömlum malarvegi sem reyndi vel á veghæð bílsins. Dugðu millimetrarnir 171 honum til að rekast ekki í grjótnibbur sem stóðu víða upp úr veginum. Þegar komið var á betri kafla fannst vel hvað fjórhjóladrifið er fljótt að taka við sér um leið og það skynjar minna grip að framan. Fimmtu kynslóðar Haldex-kúpling sér um að virkja afturdrifið þegar gripið að framan minnkar og gæta þarf að því að missa bílinn ekki í yfirstýringu þegar það gerist. Í raun og veru gerir það bílinn bara skemmtilegri í akstri ef eitthvað er og ESP-skrikvörnin sér að sjálfsögðu um að halda honum á sínum stað þegar hún er virk.

Undirbýður keppinautinn

Í raun og veru á Skoda Octavia Scout sér fáa beina keppinauta hér á landi sem er dálítið skrýtið, við búum jú einu sinni á Íslandi er það ekki? Helsti keppinautur hans verður að teljast Subaru Outback frekar en jepplingslegri Forester og kannski Volvo XC70. Aðrir keppinautar eru innan Volkswagen-fjölskyldunnar sjálfrar eins og Passat Alltrack og Audi A4 Allroad sem eru líkt og Volvoinn í næsta lúxusklassa fyrir ofan Skodann. Þegar dísilbílarnir Outback og Scout eru bornir saman er samanburðurinn Skoda í vil því að grunnverð Outback með tveggja lítra dísilvélinni er 6.690.000 kr. en 5.840.000 kr. fyrir Scout beinskiptan en 6.320.000 kr. sjálfskiptan. Rétt er þó að taka það fram að verðið á bensínknúnum Outback er töluvert betra en á dísilbílnum eða 6.090.000 kr. fyrir sjálfskiptan.

njall@mbl.is