1,4 lítra bensínvélin er fín og eyðir aðeins rúmum 5L/100km að sögn, þótt tölur blaðamanns væru reyndar talsvert hærri.
1,4 lítra bensínvélin er fín og eyðir aðeins rúmum 5L/100km að sögn, þótt tölur blaðamanns væru reyndar talsvert hærri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig bíll er Volkswagen Golf Variant eiginlega? Eins og nafnið bendir til byggist hann á sama grunni og hinn vinsæli Golf en er nokkurs konar sportleg útgáfa langbaks.

Hvernig bíll er Volkswagen Golf Variant eiginlega? Eins og nafnið bendir til byggist hann á sama grunni og hinn vinsæli Golf en er nokkurs konar sportleg útgáfa langbaks. Farangursrýmið er mikið miðað við bíl í þessum flokki og hann heldur í sportlega eiginleika Golfsins og útlit. Bíllinn var kynntur á Íslandi 10. janúar síðastliðinn og blaðamaður Morgunblaðsins tók hann til kosta og galla í síðustu viku við vægast sagt fjölbreyttar aðstæður eins og oft vill verða í febrúarmánuði.

Stærðar farangursrými

Þótt að útlit Golf Variant sé nánast það sama og Golf að framan minnir afturendi hans meira á stóra bróður, Passat, enda teygir bíllinn sig aðeins í átt að þeim flokki með mikilli flutningsgetu. Óhætt er að segja að bíllinn er bæði rúmgóður og þægilegur og sætin eru nægilega stór til að það geti farið vel um mann. Golf Variant er 30 sm lengri en hefðbundinn Golf og fer mestur hluti þess í að stækka bílinn fyrir aftan aftursæti. Það er aðeins meira fótarými í aftursætum Variant en miðjustokkur tekur talsvert pláss frá fótum þess sem þarf að sitja í miðju bílsins. Farangursrýmið er stórt og aðgengilegt og tekur hvorki meira né minna en 605 lítra sem er ansi gott í þessum flokki bíla. Þetta er nánast sama flutningsrými og í Skoda Octavia Scout sem við prófuðum nýlega en sá bíll er í næsta stærðarflokki fyrir ofan og þykir ekki slæmt. Með því að leggja niður aftursæti verður svo til 180 sm langt rými sem verður alls 1.620 lítrar. Stærðin er þó ekki allt en Variant er með hagkvæmar lausnir á mörgum hlutum afturí eins og fellingu á aftursætum og sérhólfi fyrir yfirbreiðslu og farangursnet.

Afskiptasöm spólvörn

Eins og búast má við er Volkswagen Golf Variant góður akstursbíll og prófunarbíllinn með sinni 1,4 lítra bensínvél skilaði vel sínu. Með þeirri vél og sjö þrepa DSG sjálfskiptingu kemur hann vel út enda er hann með fullkomnari fjöðrun að aftan ólíkt ódýrustu útgáfunum sem eru á bita. Bíllinn er líka lipur í stýri og leggur óvenju vel á miðað við þetta stóran bíl sem gerir hann hentugan í innanbæjarakstri. Það eina sem truflaði annars góðan akstur var hikið sem kemur í upptaki, sérstaklega þegar bílnum er gefið snöggt inn. Eflaust er spólvörnin að hafa sín áhrif gegnum rafstýrða bensíngjöfina en þar sem ekki er hægt að slökkva á henni verður að telja það sem smávegis galla á annars góðum bíl. Í sköflunum sem komu um helgina fannst vel að spólvörnin er ansi afskiptasöm og maður veltir því fyrir sér hversu mikil áhrif hún hefur á minni vélarnar. Einn af aðalkostum bílsins í akstri er þó hversu hljóðlátur hann er og laus við vind- og veghljóð.

Aðeins litlu dýrari en Golf

Bílar eins og VW Golf Variant eru því miður ekki algengir hérlendis en ef benda skal á helstu keppinauta hans eru það bílar eins og Ford Focus Station og Opel Astra Station. Grunnverð Opelsins með 1,6 lítra dísilvél er 3.745.000 kr en Ford Focus Station byrjar í 3.450.000 kr, þá með eins lítra EcoBoost bensínvél. Með 1,5 lítra dísilvél er hann kominn í 3.590.000 kr sem er á pari við grunnverð Golf Variant. Kannski er aðalkosturinn við verðið sú staðreynd að grunngerð hefðbundins VW Golf kostar bara 220.000 kr minna svo að miðað við það sem fæst aukalega í Variant ætti það eitt og sér að mæla með kaupunum.

njall@mbl.is

Kostir: Hljóðlátur, farangursrými

Gallar: Spólvörn, hik í upptaki