Þessar tvær myndavélar ljá bílnum sjón fyrir Eyesight-öryggiskerfið og gera bílnum kleift að meta aðstæður og umhverfið framundan.
Þessar tvær myndavélar ljá bílnum sjón fyrir Eyesight-öryggiskerfið og gera bílnum kleift að meta aðstæður og umhverfið framundan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinsældir Subaru hér á landi hafa um áratugaskeið verið ákveðinn fasti í bílamenningunni og skutbílarnir eiga þar tvímælalaust stærstan sess. Hinir fjórhjóladrifnu Subaru-þjarkar eiga líka alveg inni fyrir velvildinni enda harðduglegir og ólseigir.

Vinsældir Subaru hér á landi hafa um áratugaskeið verið ákveðinn fasti í bílamenningunni og skutbílarnir eiga þar tvímælalaust stærstan sess. Hinir fjórhjóladrifnu Subaru-þjarkar eiga líka alveg inni fyrir velvildinni enda harðduglegir og ólseigir. Þegar Outback-bíllinn var kynntur til sögunnar fyrir röskum 20 árum tók landinn honum höndum tveim og hefur vart litið um öxl síðan. Það má í framhaldinu minna á að Subaru Outback er frumherji á sínu sviði sem fyrsti bíllinn í flokknum „4WD crossover“ og var því til að mynda á undan Audi A6 Allroad og Volvo V70 XC, svo dæmi séu tekin af öðrum þekktum og vinsælum bílum í sama flokki. Sem fyrr segir er Subaru Outback bíll sem á sinn fasta og gallharða aðdáendahóp – það lætur nærri að kalla Outback „cult bíl“ hvað það varðar – og því er það sterkur leikur hjá framleiðandanum að bylta ekki útlitinu um of. Í reynd hefur það verið uppfært smekklega og er það afskaplega klók aðferðafræði hjá Subaru enda hefði það talist glapræði að hætta á að styggja hinn hundtrygga kaupendahóp með meiri háttar andlitslyftingu. Þess í stað er framgrillið orðið stærra og svipmeira um leið og framendinn er allur stílhreinni og rennilegri. Í stuttu máli sagt, mjög vel gert allt saman og bíllinn er sannarlega flottari en forverinn.

Allur hinn fínasti að innan

En þó Subaru hafi ekki gerbylt útlitinu á Outback er ekki þar með sagt að þeir hafi slegið slöku við á milli kynslóða bílsins – það er öðru nær. Þvert á móti hafa þeir greinilega haldið sér uppteknum við að uppfæra nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þetta blasir við um leið og sest er inn í bílinn. Búið er að endurhanna mælaborðið töluvert frá síðustu gerð um leið og efnisval er betra. Framsetningin er líka skínandi, stílhrein bæði og flott. Í gegnum stýrið sér ökumaður á tvo stóra og greinilega mæla og til hægri gefur svo að líta 6,2" snertiskjá fyrir aðgerðastýringar.

Subaru Outback er bíll með verulega fjölþættum og flottum öryggisbúnaði. Margt af honum er þesslegt að maður hefði helst búist við slíku í mun dýrari gerðum lúxusbifreiða. En þannig rúllar Subaru, og ekki síst Outback; hann kemur manni ávallt skemmtilega á óvart á sinn lágstemmda hátt án þess að þykjast vera neitt annað en hann er.

Meðal þess sem bíllinn býður upp á er skynjari sem dekkar blinda blettinn sem verður til á milli baksýnis- og hliðarspegla, árekstrarvörn sem stöðvar bílinn ef hreyfingarlaus fyrirstaða er framundan, nýstárleg hraðastýring (e. Adaptive Cruise Control) sem les traffíkina framundan og stýrir inngjöfinni í takt við það hvort bílarnir fyrir framan séu að hægja á sér eða halda hraðanum. Þessi tækni nefnist einu orði Eyesight og er það út af fyrir sig réttnefni því með tveimum myndavélum les bíllinn umhverfið framundan í þrívídd, ekki ósvipað því sem mannsaugað gerir, og auðveldar ökumanni talsvert aksturinn. Það reyndi undirritaður á eigin skinni þegar Outback var tekinn til kostanna fyrr á þessu ári í Ljubljana og nágrenni í Slóveníu.

Rúmgóður og fínn utan vega

Þó plássleysi hafi aldrei verið tiltakanlegt vandamál þegar Subaru Outback er annars vegar þá getur lengi gott batnað. Farangursrýmið er sérdeilis framúrskarandi og telur heila 1.005 lítra með aftursætin uppi en séu þau felld niður fæst gímald upp á 2.075 lítra! Geri aðrir skutbílar betur. Þetta eru að sönnu magnaðar tölur og bílnum mikil meðmæli.

Þegar kemur að vélunum eru Subaru-bílarnir samir við sig og það er jafnöruggt að finna boxer-vél undir húddinu eins og það má stóla á að bílarnir séu fjórhjóladrifnir. Bíllinn sem var prófaður var með línulega sjálfskiptum gírkassa eða CVT (Continuously Variable Transmission) og virkaði hann prýðilega. Það er gömul saga og ný að CVT-skipting vill á stundum festast í háhvínandi snúningi þegar gefið er inn eða ekið upp brekkur en því var ekki fyrir að fara hér. Það hefði þó verið gaman að hafa eilítið meira afl og þar kemur samanburðurinn við Audi A6 Allroad í óhag fyrir Outback-bílinn, því það vantar kannski svolítið fútt. En það er út af fyrir sig ekki svo stórt atriði í þessu samhengi.

Veghæðin á Subaru Outback er fyrirtak en hann liggur 22 sentimetra fyrir ofan veginn. Bíllinn var prófaður á töluvert holóttum malar- og moldavegum en hann rúllaði áreynslu- og árekstralaust yfir vegleysurnar, rétt eins og hann leið silkimjúkt yfir hraðbrautirnar.

Allt í allt er Subaru Outback hinn ákjósanlegasti valkostur við dýrari skutbíla sem gerðir eru til að fást við utanvegaakstur í bland við borgarferðir, sambanber þá tvo sem nefndir voru hér í upphafi og væntanlega er óþarfi að taka fram að hann er töluvert ódýrari. Outback er hinsvegar vel úr garði gerður, þéttur og þægilegur að aka og kemur ökumanni fyrir sjónir sem traustur í bak og fyrir.

jonagnar@mbl.is