Lexus NX 200t kom sannarlega á óvart í fannferginu.
Lexus NX 200t kom sannarlega á óvart í fannferginu. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í október síðastliðnum var sportjeppinn Lexus NX 300h kynntur hjá Lexus-umboðinu hér á landi. Fyrr í haust fór blaðamaður og prófaði þann bíl í Austurríki. NX 300h.

Í október síðastliðnum var sportjeppinn Lexus NX 300h kynntur hjá Lexus-umboðinu hér á landi. Fyrr í haust fór blaðamaður og prófaði þann bíl í Austurríki. NX 300h. Sá bíll sem prófaður var ytra var með 2,5 l vél auk 650 V rafmótors og saman skila þeir 197 hestöflum. Sá bíll er einkar skemmtilegur í akstri, með lágt CO 2 útblástursgildi og lágum eyðslutölum. Nú er NX 200t kominn til landsins og er hann dálítið frábrugðinn hinum hvað nokkra þætti varðar. Hann er með tveggja lítra VVTi-W vél sem skilar 238 hestöflum. Hann er 7,1 sekúndu frá 0 upp í 100 km/klst. og er alveg hrikalega skemmtilegur í akstri!

Aksturseiginleikarnir góðu

NX200t er ekki eins vistvænn og 300h en eyðslutölurnar eru eftir sem áður vel ásættanlegar eða 7,9 l í blönduðum akstri. CO 2 gildið er 183g/km sem er töluvert hærra en í NX 300h en þó ekkert afbrigðilegt fyrir bensínbíl í þessum stærðarflokki. Síður en svo.

Það er óskaplega gaman að stilla bílinn í Sport-viðmótið og finna hvað hann skiptir sér skemmtilega og steinliggur á malbikinu auk þess sem fjöðrunin er sportleg og alveg hreint prýðileg til slíks bílaleiks. Hröðunin er góð og maður finnur að hann á nóg eftir þegar skynsemin segir manni að slá af og vera til fyrirmyndar. Einnig er hægt að hafa hann í Eco-viðmóti og svo hefðbundnu. Þannig að ökumenn eru ekki fastir í sportinu þó að þetta sé túrbó-bíll.

Sportið í snjónum

Nú, eins og sést á nokkrum meðfylgjandi myndum var vetur konungur í ham þegar NX 200t var prófaður. Þess vegna læt ég nokkrar myndir af bíl með sama útlit fylgja sem teknar voru ytra í haust. Til þess að lesendur þurfi ekki að ímynda sér hvernig bíllinn er undir snjónum. En er eitthvert vit í að vera á svona bíl í ægilegu fannfergi? Já, það var nefnilega punkturinn yfir i-ið í þessum reynsluakstri að finna hvað NX er öflugur og góður í snjó. Þetta var dálítið eins og að vera á sportbíl í snjó án þess að sitja fastur! Og það er nú gaman.

Engan skyldi undra að í vetrarríkinu, í miðjum reynsluakstri, var Hellisheiðin lokuð, en yfir hana fer blaðamaður á leið til og frá vinnu. Raunar var einnig lokað um Þrengsli, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði þetta sama kvöld en fyrst var Mosfellsheiðin opnuð og var ekið um hana á þessum skemmtilega bíl. Það var sérlega skemmtilegt að aka um í trylltri færð og njóta þess að láta NX 200t líða í rólegheitum eftir heiðina og skila ökumanni heim í kotið í heilu lagi (sem er að sjálfsögðu ökumanni að þakka að hluta til!). Það var líka fínt að geta læst millikassanum við krefjandi aðstæður.

Búnaður og verð

Rétt eins og aðrir bílar í Lexus-fjölskyldunni er NX vel búinn. NX 300h kostar frá 8.560.000 kr. og er þá framhjóladrifinn. Ódýrastur er hann fjórhjóladrififnn í Comfort-útfærslu á 8.960.000 kr. NX 200t sem hér er til umfjöllunar fæst í tveimur útfærslum og er það F Sport eins og hér var til reynslu og svo Luxury-útfærslan. F Sport kostar 13.620.000 kr. og Luxury er á 15.860.000 kr.

Staðalbúnaðurinn í F Sport er t.d. 18" F Sport álfelgur, bakkmyndavél og 7" skjár, þjófavarnarkerfi, rafdrifinn afturhleri, skyggðar rúður, F Sport fjöðrun og margt fleira. En hann kostar sitt og þeir sem geta fjárfest í svona bíl ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum því skemmtilegur er hann!

malin@mbl.is