Hefur þú heyrt um formjólkurkveisu?

Það er fátt jafnvont og að geta ekki hjálpað oggulitlu …
Það er fátt jafnvont og að geta ekki hjálpað oggulitlu ungbarni í vanlíðan. Þessi mynd er úr myndabanka og tengist eingöngu umfjölluninni, ekki Maríu Gomez og syni hennar. mbl.is/thinkstockphotos

Fjölskyldan á mbl.is er í samstarfi við Maríu Gomez sem heldur úti lífstílsbloggvefnum Paz.is. Hér deilir hún einlægri færslu um formjólkurkveisu og fræðir okkur um muninn á þeirri kveisu og ungbarnakveisu samkvæmt hennar reynslu. Fjölskyldan áréttar að hér er um persónulega reynslu að ræða sem mögulega getur opnað augu einhverra sem eru í kveisuvandræðum með krílið sitt. Hins vegar ætti fólk alltaf að leita læknis í svipuðum vanda því eitt einkenni getur átt sér margar ástæður

___________________________________

Þegar ég eignaðist fyrsta barnið mitt fyrir rétt tæpum 18 árum síðan var það eins og draumur einn. Hún svaf allar nætur og var hin fullkomna uppskrift að draumabarni. Það var auðvelt að koma á hana svefnreglu bæði á daginn og nóttunni og gengu fyrstu mánuðirnir það vel að ég hefði aldrei trúað því að það væri svona auðvelt að eiga lítið barn. Kannski sem betur fer, þar sem ég var nýskriðin í 21 árs aldurinn og einstæð móðir. Ég veit ekki hvernig maður hefði höndlað það að eiga lítið kveisubarn undir þeim kringumstæðum.

Reynir litli Leo var afskaplega rólegur fyrstu dagana en svo …
Reynir litli Leo var afskaplega rólegur fyrstu dagana en svo fór að halla undan fæti hjá þeim mæðginum. mbl.is/einkaafn

Þrettán árum seinna fæðist svo litli gormurinn minn hann Reynir Leo. Yndislegur í alla staði og algjört draumabarn fyrstu tvær vikurnar. Svo fór að halla undan fæti. Hann byrjaði að gráta stöðugt dag og nótt og undi sér aldrei, hvort sem var í svefni eða vöku. Þegar hann lá í rúminu sínu sofandi var hann stöðugt að herpa sig og bretta og rembast þar til kom eitt stórt prump. Þá leið honum kannski ögn betur í smá tíma þar til næsta grátkast tók við. Ekki bara það heldur var hann síkúkandi grængulum froðukenndum kúk, ekki bara í bleyjuna, heldur langt upp að herðablöðum og það mörgum sinnum á dag. Ég skildi ekkert hvað væri í gangi og eftir hvert grátkastið á eftir öðru var ég farin að grenja með honum. Þetta tók heldur betur á og reyndi maður allt sem maður gat. Eitt sem ég gerði var að róa barnið stöðugt við brjóstið og gefa því að drekka sí og æ. Maður var bara algjörlega ráðþrota, búin að prufa að rugga honum, bíltúra, white noise-hljóð og Cloud B-bangsana, skrúfa frá krana, kveikja á ryksugu, Moby Wrap og bara allt sem nefnt er í bókinni.

Ég talaði um þetta í ungbarnaskoðun og var ráðlagt að prófa Miniform-dropa, prumpustauka, dropa úr jurtaapótekinu og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta prufaði ég allt og ekkert virkaði. Einnig var mér ráðlagt að taka út allan fisk og mjólkurvörur úr fæðunni hjá mér og sjá hvað gerðist. Ekkert….sama hvað ég gerði ekkert virkaði.

Hér er María með litla angann í Moby Wrapi-vafningi en …
Hér er María með litla angann í Moby Wrapi-vafningi en þegar hann var sem þjáðastur virkaði það best af öllu að sögn hennar. mbl.is/einkasafn

Grátköstin hjá honum byrjuðu oft seinni hluta dags og stóðu yfir allt kvöldið og stundum á nóttunni líka, þó ekki alltaf. Þetta var engin venjulegur grátur. Gráturinn var meira líkur öskri og var langur og sársaukafullur. Eitt kvöldið þegar við erum að borða kvöldmat tók hann svo svakalegt grátkast að hann missti andann og var við það að blána. Við rukum með hann upp á bráðamóttöku barna.

Uppi á barnaspítala er hann greindur með ungbarnakveisu og ekki bara það heldur líka formjólkurkveisu. Hafið þið heyrt um það ? Ég hafði aldrei nokkurn tímann heyrt þetta orð og hvað þá vissi hvað þetta var. Það eina sem ég vissi var að ég mjólkaði eins og heilt fjós af beljum og hefði getað fætt marga svanga munna með allri mjólkinni sem ég hafði. Hélt samt að það væri gott og að barnið ætti því að fá nóg að drekka og vera satt og sælt. En aldeilis ekki, of mikil mjólkurframleiðsla getur valdið formjólkurkveisu í ungbörnum en hér ætla ég aðeins að fara yfir það hvað formjólkurkveisa er.

Fyrst vil ég undirstrika að formjólkurkveisa og ungbarnakveisa er ekki það sama og getur barn glímt við annaðhvort eða bæði. Ef um bæði er að ræða þarf fyrst að koma í veg fyrir formjólkukveisuna áður en farið er í frekari aðgerðir með ungbarnakveisu því þá er einn þáttur útilokaður áður en farið er að vinna með annan.

Þessi mynd er úr myndabanka og tengist eingöngu umfjölluninni, ekki …
Þessi mynd er úr myndabanka og tengist eingöngu umfjölluninni, ekki Maríu Gomez og syni hennar. mbl.is/thinkstockphotos

Formjólkurkveisa, helstu einkenni:

Gleypir í sig mjólkina og berst oft við brjóstið.

Gubbar oft eftir gjafir.

Loft í maganum, kveisueinkenni.

Oft grænar froðukenndar hægðir, kúkasprengjur upp á bak.

Annaðhvort mjög mikil eða mjög lítil þyngdaraukning.

Einkenni hjá móður:

- Yfirfull brjóst sem lekur úr milli gjafa og sprautast hratt úr við gjöf.

- Stíflur í mjólkurgöngum eða brjóstum (ekki samt hjá öllum)

- Sáramyndun á geirvörtum þar sem barn breytir sogtækninni og klemmir fyrir geirvörtuna, eða þrýstir tungunni á móti til að minnka flæðið.

- Þegar móðir framleiðir of mikla mjólk getur barn átt í erfiðleikum með bæði að taka brjóstið og klára mjólkina. Þess vegna nær barnið aldrei að klára brjóstið almennilega og fara niður í feitu mjólkina, sem er næringarríkasta og mest mettandi mjólkin. Mjólkin sem barnið fær fyrst kallast formjólk og er hún bæði þunn og sæt og mjög kolvetnarík, auðmelt og loftmyndandi. Þegar mjólkurframleiðsla er í fullkomnu jafnvægi fær barnið yfirleitt þau næringarefni sem það þarf á að halda í réttum hlutföllum. Eftir því sem líður á gjöfina verður mjólkin feitari og næringarríkari. Þegar um er að ræða ofmjólkurframleiðslu fyllist magi barnsins áður en það drekkur feitu mjólkina sem það þarf svo nauðsynlega á að halda og fær það því alltaf bara formjólkina sem rennur svo bara beint í gegnum meltingarveginn með tilheyrandi lofti og kúkasprengjum.

Í mínu tilfelli var um það mikla mjólkurframleiðslu að ræða að Reynir Leo var stundum við það að drukkna á brjóstinu og barðist um þar sem mjólkin fór svo hratt upp í hann og hann hafði því ekki undan. Þegar hann sleppti svo brjóstinu sprautaðist úr því, eins og enginn væri morgundagurinn, yfir andlitið á honum og var þetta mjög hvimleitt. Einnig sprautaðist og lak úr hinu brjóstinu sem ég var ekki að gefa af, stöðugt meðan gefið var af hinu.

Þar sem um svona mikla mjólkurframleiðslu er að ræða verða börn nánast södd strax af formjólkinni sem dugar skammt og veldur miklum vindgangi og þessum miklu kúkasprengjum eins og Reynir Leo glímdi við. Þar sem formjólkin er mjög þunn og mettar lítið verður barnið fljótt svangt aftur og úr verður vítahringur þar sem barn er stöðugt á brjósti og við það eykst enn frekar mjólkuframleiðslan hjá móður og barn nær aldrei feitu mjólkinni.

Það sem mikilvægt er að gera þegar um formjólkurkveisu er að ræða er að minnka mjólkurframleiðsluna svo barn nái að fá rétt samsetta mjólk og enda á þeirri feitu. Þetta getur verið ferli sem tekur á og þarf maður alveg að gefa sig að því og hafa hugann 100% við það. Það fer hins vegar fljótt að bera árangur og verður svo þess virði fyrir móður og barn, og er í raun alveg nauðsynlegt ef halda á brjóstagjöf áfram farsællega.

Aðferð til að minnka mjólkurframleiðslu þegar um formjólkurkveisu er að ræða:

Í byrjun þarf að tæma bæði brjóstin vel með mjaltavél eða handmjólkun. Ég notaðist við mjaltavél. Þetta er gert aðeins í þetta eina skipti og vélin ekki notuð meir í þessu ferli.

Gott er að frysta mjólkina til seinni tíma.

Þegar brjóstin eru orðin eins tóm og hægt er, er barnið lagt á brjóst og gefið eins og það vill úr báðum brjóstum.

Eftir þessa gjöf má bara eitt brjóst vera í gangi í einu það sem eftir er af deginum í 3-4 tíma í senn.

Þegar eingöngu er búið að gefa af öðru brjóstinu í þessa 3-4 tíma má hitt brjóstið fara í gang næstu 3-4 tímana.

Athugið að það má eingöngu gefa annað brjóstið í þessa 3-4 tíma og eins oft og það þarf. Ekki hafa áhyggjur af neinu öðru en því að hafa bara eitt brjóstið gangandi þessa 3-4 tíma og skipta svo yfir í hitt að þeim tíma liðnum.

Gerið þetta í nokkra daga eða þar til þið finnið að mjólkin hefur minnkað en það er einstaklingsbundið hversu langan tíma þarf. Þá er byrjað að gefa eitt brjóst í einu þar til í næstu gjöf en þá er hitt brjóstið gefið (þ.e annað hvort brjóstið í hverri gjöf).

Til að taka af allan vafa, þá á þessi aðferð eingöngu við þá daga sem er verið að reyna að minnka mjólkurframleiðsluna, svo tekur hefðbundin brjóstagjöf við þar sem brjóstin eru gefin til skiptis við hverja gjöf.

Að lokum er rétt að benda á það að fyrstu 3-5 vikurnar í lífi barnsins er brjóstagjöf ekki komin í eðlilegt horf og því á ekki að notast við þessa aðferð fyrr en sá tími er liðinn að mínu mati. Fyrst er að ná brjóstagjöfinni í eðlilegt horf og ef stefnir í formjólkurkveisu þegar barn er á aldrinum 4-5 vikna, eða eldra, þá er farið í þessa aðgerð.

Ef þið viljið lesa ykkur meira til um formjólkurkveisu bendi ég á þessa grein af foreldrahandbókinni eftir Ingibjörgu Baldursdóttur. 

Ef barn ykkar glímir ekki við þessi einkenni formjólkurkveisu þá gæti verið um ungbarnakveisu að ræða. Ungbarnakveisa getur verið rosalega erfið fyrir bæði foreldra og barn. Í okkar tilviki var um hvort tveggja að ræða og þegar við höfðum unnið á einkennum formjólkurkveisunnar voru enn einkenni ungabarnakveisu til staðar. En hér eru nokkur einkenni ungbarnakveisu.

Ungbarnakveisa

Til að barn geti talist með ungbarnakveisu þurfa eftirfarandi einkenni að vera til staðar:

Barnið þarf að vera innan við 4 mánaða gamalt og dafna vel að öðru leyti.

Börn þurfa að gráta meira en 3 klukkustundir á dag, 3 eða fleiri daga í viku og lengur en eina viku.

Dæmigerður grátur barns með ungbarnakveisu byrjar oft snögglega og gráturinn er hærri og sárari. Meira í líkingu við öskur en venjulegan ungbarnagrát.

Eins og ég sagði hér að ofan var ég búin að prófa gjörsamlega allt fyrir litla drenginn minn og ekkert dugði. Þið sem eigið barn sem sýnir þessi einkenni ungbarnakveisu megið eiga von á því að fá ráð til að byrja með eins og að passa upp á að barnið fái hvorki of mikið né of lítið að drekka og að það ropi reglulega. Leita til mjólkurráðgjafa, fara í bíltúr, setja barnið í bað eða finna einhver hljóð sem gætu haft róandi áhrif eins og hljóðin í þvottavél, ryksugu eða rennandi krana. Einnig verður ykkur pottþétt bent á Miniform-dropa og dropana úr jurtaapótekinu. Jafnvel verðið þið mæður látnar prufa að taka út vissar fæðutegundir úr fæðunni ykkar til að sjá hvort barnið gæti verið með fæðuóþol. Þið gætuð þurft að taka út allar tegundir sem innihalda mjólk eða mjólkurafurðir.

Ég reyndi þetta allt þar til kom að því að læknir ákvað að skrifa upp á lyf fyrir barnið. Ég er ekki mjög lyfjaglöð manneskja að eðlisfari og reyni að forðast lyf eins og mögulega hægt er. Hins vegar þarf að vega og meta það hvort maður eigi að leggja það á barnið sitt að líða svona ömurlega eða prófa lyfjagjöf til að hjálpa því að líða betur. Hvað myndi maður gera sjálfur? Þjást og sleppa því að taka lyf sem gæti hjálpað? Eða prófa lyfið og lina þar með þjáningar sínar? Ég kaus að taka við lyfinu, og guði sé lof fyrir það því það algjörlega bjargaði barninu mínu.

Lyfið sem um ræðir kallast Dicycloverine hydrochloride og er mixtúra sem er notuð við óþægindum í maga og þörmum. Lyfið minnkar samdrátt og krampa í sléttum vöðvum í meltingarvegi, en læknirinn okkar sagði að ef lyfið virkar væri það vegna þess að  ungbarnakveisan hafi stafað af óþægindum í smáþörmum, sem oft er talið valda ungbarnakveisu. Ástæður fyrir ungbarnakveisu eru oft ekki ljósar. Skýringar sem nefndar hafa verið í tengslum við ungbarnakveisu eru t.d. auknar þarmahreyfingar, ofnæmi fyrir kúamjólkurpróteinum, mjólkursykuróþol, aukin loftmyndun í þörmum vegna minnkaðs frásogs kolvetna og að barnið gleypi loft við gjafir sem valdi því óþægindum í neðri meltingarvegi.

Í okkar tilviki var augljóslega um að ræða óþægindi í smáþörmum því lyfið byrjaði strax að virka og barnið varð allt annað. Bæði varð hann rólegri og glaðari og leið augljóslega mun betur. Reynir Leo var á þessu lyfi til 4 mánaða, en það er oft aldurinn sem ungbarnakveisa líður hjá.

Fyrir ykkur sem grunið að barnið ykkar sé haldið ungbarna- eða formjólkurkveisu vona ég svo innilega að þið leitið að öllum tiltækum ráðum til að hjálpa barninu ykkar og sjálfum ykkur um leið. Óhuggandi barn, svefnleysi og streita getur reynt mjög á og er meiri hætta á að móðir geti þróað með sér fæðingarþunglyndi ef ekkert er að gert.

Því er það mín ráðlegging til ykkar að hika ekki við að leita hjálpar. Ungbarnakveisa er ekki bara eitthvað sem á að líða hjá með hækkandi aldri barnsins. Ekki hika við að gefa barni ykkar lyf sem gæti hjálpað því ef svo illa er fyrir því komið. Þið foreldrar,  ekki heldur hika við að fá þá hjálp sem þið þurfið til að komast í gegnum þetta erfiða tímabil, hvort sem er hjá fjölskyldu, vinum eða fagaðilum. Maður á aldrei að skammast sín fyrir að leita hjálpar og sýnir það frekar styrk en veikleikamerki.

Maríu finnst erfitt að hugsa til þess að þessi litli …
Maríu finnst erfitt að hugsa til þess að þessi litli drengur með englaásjónuna hefði nokkrum mánuðum áður öskrað og gargað af sársauka. mbl.is/einkasafn

Fyrir ykkur nýbakaða foreldra óska ég ykkur alls hins besta með litlu krílin ykkar og munið að fyrstu mánuðirnir er ekki alltaf endilega sífelld rómantík, gleði og hamingja hjá nýbökuðum foreldrum. Það er eitthvað sem allir upplifa þrátt fyrir að elska barn sitt meir en orð fá lýst og ekkert til að skammast sín fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda