„Á ekki að fara að koma með eitt lítið?“

Hörður Þór Jóhannsson og Ása Hulda Oddsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.
Hörður Þór Jóhannsson og Ása Hulda Oddsdóttir á brúðkaupsdaginn sinn.

„„Langar ykkur ekkert að fara að eignast barn?“ Þetta eru spurningar sem ég og Hörður Þór höfum fengið að heyra mjög oft á þessum 9 árum sem við höfum verið saman. Svarið er frekar einfalt: „Jú, auðvitað langar okkur í barn, við bara getum það ekki eins og er“. Margir átta sig ekki á því að það er ekki eins auðvelt fyrir alla að eignast barn. Sumir þurfa að hafa mikið fyrir því en aðrir verða þungaðir mjög fljótt. Þessar spurningar geta auðveldlega sært, sérstaklega þegar pör eru búin að vera að reyna í langan tíma að eignast barn,“ segir Ása Hulda Oddsdóttir á bloggi sínu á Lady.is

„Jú, auðvitað langar okkur í barn, við bara getum það ekki eins og er.“

Þegar ég var 16 ára gömul fór mamma með mig til kvensjúkdómalæknis því ég fékk alltaf rosalega slæma túrverki. Þeir voru svo slæmir að ég gat ekki farið í skólann og þurfti oft að vera veik heima vegna verkja. Móðir mín kannaðist við þessa verki frá því hún var yngri og grunaði strax að ég væri með sama sjúkdóm og hún, endómetríósu. Þegar við komum til læknisins útskýrði móðir mín sína sögu og hvernig hún var greind, við útskýrðum síðan einkennin mín og móðir mín bað hana um að athuga hvort möguleiki væri á að ég væri með sama sjúkdóm. Læknirinn fussaði yfir þessum spurningum og fór í mikla vörn. Svörin sem við fengum voru „Það þarf bara ekkert að vera að hún sé með þetta sama og þú“. Hún setti mig á pilluna og ég átti að taka þrjú spjöld í röð og fara á blæðingar á þriggja mánaða fresti.

Farin að íhuga barneignir

Árið 2016 tókum ég og Hörður þá ákvörðun að ég skyldi hætta á pillunni. Þarna höfðum við verið saman í sex ár og vorum alveg tilbúin að fara að hugsa út í barneignir. Eftir að ég hætti á pillunni fór ég ekkert á blæðingar og þegar sex mánuðir voru liðnir fór ég að kíkja til kvensjúkdómalæknis. Þá fékk ég fyrstu fréttirnar eða fyrstu hindrunina. Ég var með sjúkdóm sem kallast fjölblöðruheilkenni (PCOS) sem veldur því að ég fer aldrei á blæðingar nema ég taki töflur sem koma þeim af stað. Við tóku margar meðferðir þar sem ég tók töflurnar til að koma blæðingum af stað en ekkert gerðist. 

Eftir að hafa reynt í einhverja mánuði ákváðum við að setja þetta ferli í smá bið og ég ákvað að keppa aftur í módel fitness. Í fitnessinu og undirbúningnum fyrir mótið mættu mér miklir fordómar en margir vildu trúa því að það væri ástæðan fyrir að ég færi ekki á blæðingar og gæti ekki eignast börn. Ég fékk reglulega að heyra setningar eins og „Það er svo óheilbrigt að hreyfa sig svona mikið og vera svona lág í fituprósentu“. Það var erfitt að þurfa að rökstyðja fyrir fólki að það væri ekki ástæðan, heldur væri það vegna þess að ég er með sjúkdóm sem kallast PCOS.

Endómetríósa og skrefin eftir greiningu

Í byrjun 2018 ákváðum við að skoða þetta aftur. Ég fann mér nýjan lækni sem er algjörlega yndislegur, Arnar Hauksson. Hann setti mig aftur á sömu pillu meðferðir og við höfðum prófað áður. Við prófuðum þetta í marga mánuði en ekkert gekk. Það var síðan í nóvember á síðasta ári sem ég upplifði mína allra verstu verki. Við höfðum aukið við skammtinn af töflunum og það kom af stað sársaukafullu egglosi. Ég var í vinnunni og fékk allt í einu hræðilega verki og svima. Ég hætti að geta gengið og byrjaði að kasta upp vegna verkja. Við leituðum strax á læknavaktina og læknirinn þar gaf mér sterk verkjalyf svo ég gæti sofið eitthvað um nóttina. Strax næsta dag fór ég og hitti Arnar Hauksson. Hann gerði ómskoðun á mér og sá þar mjög greinilega að það hafði blætt inn á kviðinn og sprungið blaðra. Þarna var komin staðfesting á því sem móður minni hafði grunað frá því ég var unglingur, ég er með sársaukafullan sjúkdóm sem kallast endómetríósa. Arnar hafði samband við lækni á Akranesi og óskaði eftir að ég yrði tekin strax í aðgerð. 

Ég þurfti að bíða í nokkra mánuði þar sem það er vanalega löng bið eftir þessari aðgerð en loksins 14. febrúar var kominn tími á aðgerðina mína. Aðgerðin gekk vel, það voru gerð fjögur göt á kviðinn og aðgerðin er framkvæmd í kviðarholsspeglun. Hrund, læknirinn minn, náði að skera í burtu helstu samgróningana vegna endómetríósunnar en brennt var fyrir nokkra. Við tekur smá bataferli hjá mér og 6 mánaða hormónameðferð en vonandi mun þetta hjálpa okkur í framtíðinni.

Einkenni endómetríósu

Endómetríósa er mjög sársaukafullur sjúkdómur en einkenni sjúkdómsins geta verið margvísleg. Algengustu einkennin eru mikill sársauki við blæðingar og fyrir blæðingar, miklar og óreglulegar blæðingar, sársauki við egglos, verkir í kviðarholi milli blæðinga, uppblásinn magi, ógleði, ófrjósemi, niðurgangur, síþreyta og fleira. Mörg af þessum einkennum finn ég nánast daglega en aðrar finn ég þegar komið er að tíma mánaðarins.

Ef þú kannast við eitthvað af þessum einkennum eða færð það slæma túrverki að þú getur varla farið fram úr rúminu, ekki hunsa það! Fáðu tíma hjá kvensjúkdómalækni og ræddu við hann, það er ekki eðlilegt að fá svona mikla verki. Það er einnig mjög mikilvægt að segja frá þessum sjúkdómi. Það hjálpaði mér mjög mikið þegar ég útskýrði sjúkdóminn fyrir yfirmanni mínum og samstarfsfólki. Ég ákvað einnig að segja opinberlega frá sjúkdómnum mínum á samfélagsmiðlum þar sem ég vildi opna meira á þessa umræðu. Það auðveldaði mér mikið að sleppa við þennan feluleik og segja hlutina eins og þeir eru. Viðbrögðin voru miklu betri en ég hafði búist við, bæði voru fleiri í sömu sporum og fólk sýndi þessu mikinn skilning. Ég fann að þetta væri ekki eitthvað til að skammast sín fyrir, þetta er ólæknandi sjúkdómur sem konur þurfa að kljást við alla ævi.

Sem betur fer er þekkingin orðin meiri en hún var áður fyrr. Eina leiðin til að fá staðfest að maður sé með endómetríósu er að fara í kviðarholsspeglun. Vanalega vilja læknar bíða með speglunina þangað til sjúklingurinn verður eldri og er farinn að huga að barneignum. Þetta er vegna þess að inngripið er mikið og það getur verið að það þurfi að framkvæma aðgerðina aftur seinna. Áður fyrr var inngripið mun meira en þá var aðgerðin ekki gerð í kviðarholsspeglun heldur var skurðurinn þvert yfir kviðinn og bataferlið því enn lengra.

Ég mæli með að kíkja á síðuna hjá Samtökum um endómetríósu en þar er hægt að finna nánari upplýsingar um sjúkdóminn og þær meðferðir sem eru í boði.

Vona að ég hafi hjálpað einhverjum sem er í sömu sporum og við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert