Í ljósi nýrra laga sem sett voru í Alabama-ríki og Georgíu-ríki í Bandaríkjunum í vikunni hafa konur notast við myllumerkið #youknowme eða #þúþekkirmig til að deila reynslu sinni af þungunarrofi.
Leikkonan og þáttastjórnandinn Busy Philipps er upphafskona myllumerkisins en hún hefur sjálf talað opinberlega um þungunarrof sem hún fór í þegar hún var aðeins 15 ára gömul. Hún vill opna umræðuna um reynslu kvenna af þungunarrofi. Þráðurinn hefur fengið mikla athygli á Twitter og hefur fjöldi kvenna deilt reynslu sinni undir myllumerkinu á samfélagsmiðlum.
Philipps opnaði sig einnig í spjallþætti sínum, Busy Tonight, þar sem hún talaði nánar um reynslu sína.
Leikkonan Jameela Jamil hefur einnig tjáð sig um reynslu sína af þungunarrofi á Twitter. Hún segist hafa verið mjög ung þegar hún varð ólétt og sér ekki eftir ákvörðun sinni.