„Við vorum víst bæði í bráðri lífshættu“

Erla Tryggvadóttir er á því að börnin hennar séu óskabörn. …
Erla Tryggvadóttir er á því að börnin hennar séu óskabörn. Hún segir mikilvægt að muna að vera glaður og að njóta barnanna. Ljósmynd/Aðsend

Erla Tryggvadóttir er mamma með meiru. Hún er gift Finni Sigurðssyni og saman eiga þau fjögur börn. „Finnur átti tvo stráka fyrir; Kristin og Kára, og svo eigum við tvo stráka saman, Tryggva Hrafn og Ara Kristófer.“

Hún segir yndislegt að vera móðir og nýtur þess í botn, en eiginmanninn ennþá í smá áfalli yfir atburðarás í fæðingu yngsta sonarins. Hún segir börnin sín óskabörn, eitt þeirra varð til í upphafi glasameðferðar. 

- Hvenær fæddirðu börnin?

„Eldri strákurinn okkar, Tryggvi Hrafn, fæddist 2014 og Ari Kristófer fæddist 2017.“

- Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega, hvernig gekk hjá þér?

„Þetta eru mjög ólíkar meðgöngur. Fyrri meðgangan gekk mjög vel en það fór að blæða hjá mér í lok meðgöngunnar þannig að ég þurfti snarlega að hætta að vinna á 32. viku og taka það rólega. Ég man að mér fannst það áskorun að hætta að vinna og skipta um takt.

Meðgangan með yngri strákinn var önnur saga. Ég var sárkvalin alla meðgönguna. Ég var með grindargliðnun sem gerði það að verkum að öll hreyfing var sársaukafull. En þegar ég lít til baka þá fannst mér þetta allt saman ganga vel. Mér leið vel andlega og var glöð - og það er það sem skiptir máli.“

- Hvernig gengu fæðingarnar?

„Fæðingin hjá eldri stráknum mínum gekk vel. Ég vaknaði um miðja nótt við smá „óþægindi” en var þá víst komin með fimm í útvíkkun og við rétt náðum að fara upp á fæðingardeild. Við vorum komin með prinsinn í fangið rúmum tveimur tímum síðar. Dálítið skondið að ég skuli hafa sofið af mér fyrri hluta fæðingarinnar!

Hjá yngri stráknum var það önnur saga. Hann var tekinn með bráðakeisara og litlu mátti muna hjá okkur báðum. Við vorum víst bæði í bráðri lífshættu. Það byrjaði að blæða hjá mér því ég var með lágsæta fylgju. Ég fór því með sjúkrabíl upp á fæðingardeild en það þurfti að kalla til björgunarsveit að koma mér út í bíl þar sem það var hrikalegt aftakaveður. Lukkan var með mér því björgunarsveit var í nágrenninu að bjarga trampólíni þannig að þeir voru einungis nokkrar mínútur á leiðinni. Átta galvaskir björgunarsveitarmenn voru komnir í stofuna til mín eftir nokkrar mínútur. Það var eins gott að þeir hjálpuðust að, því ég hélt að ég myndi fjúka af börunum. Takk strákar! En svo var brunað með mig í sjúkrabílnum upp á fæðingardeild þar sem her manns tók á móti mér. Það var farið með mig beint inn á skurðstofu í bráðakeisara. Finnur, maðurinn minn, var kominn með strákinn okkar í fangið innan við klukkustund eftir að hann hringdi á sjúkrabílinn. Þetta gekk sem betur fer vel og gekk hratt og vel. Allt er gott sem endar vel og ég minnist fæðingarinnar með mikilli hlýju og hef ekki þurft að vinna úr neinu áfalli. Maðurinn minn er hins vegar á öðru máli, hann brosir ekki einu sinni þegar ég grínast með að skella í fimmta barnið!“

- Hvað hefur komið þér mest á óvart við móðuhlutverkið?

„Hvað ég nýt þess í botn. Þetta er hrikalega gaman. Ég vildi stundum að ég hefði orðið mamma fyrr en ég var orðin 35 ára þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn. En góðir hlutir gerast hægt og ég elska að vera mamma.“

Synir Erlu og Finns eru þeir Ari Kristófer og Tryggvi …
Synir Erlu og Finns eru þeir Ari Kristófer og Tryggvi Hrafn. Erla elskar að vera móðir þessara drengja. Ljósmynd/Aðsend

- Skiptir kyn barnsins máli þegar uppeldið er annars vegar?

„Ég hef engan samanburð en það er frábært að vera strákamamma! Það á mjög vel við mig. Aldrei lognmolla á heimilinu. Aldrei vesen. Alltaf stuð og stemning.“

- Hvernig hefur það breytt þér að vera foreldri?

„Það hefur heldur betur breytt mér! Ég veit að það er klisja, og ég hefði ranghvolft augunum ef ég hefði lesið þetta áður en ég eignaðist börn, en þetta hefur gefið mér tilgang. Þetta gefur öllu í lífinu svo miklu meiri dýpt og tilgang.“

- Áttu ráð fyrir þá sem eru í þínum sporum?

„Að anda djúpt og telja upp að fimm. Njóta hvers einasta tímabils og samverustundanna. Vera vel tengdur og sleppa símanum. Horfa í augun á þeim, gefa þeim tíma og veita þeim athygli. Spjalla við þau, elska þau og gleyma öllum heimsins áhyggjum. Njóta og vera í núinu.“

- Hvernig er að vera mamma?

„Vá, það er svo gaman en það getur verið heilmikil áskorun að sameina vinnu, nám og fjölskyldulíf. Það skiptir miklu máli að vera vel giftur og það er ég svo sannarlega. Stuðningur skiptir öllu máli.“

- Eitthvað sem hefur komið á óvart?

„Já, aftur er þetta klisja, en fjölskyldulífið er dásamlegt. Ég hlakka til að vakna og takast á við lífið hvern einasta dag. Ég er mjög þakklát og mér finnst ég mjög lánsöm.“

- Hefurðu lesið bækur fyrir mæður sem þú mælir með?

„Því miður hef ég haft lítinn tíma í lestur. Ég er á haus í MBA-námi með vinnu og í fæðingarorlofinu hafði ég hvorki orku né tíma í lestur. Ég sakna þess mikið að gefa mér tíma í yndislestur, en sá tími mun koma.“

- Hver eru bestu ráðin sem þú átt fyrir nýbakaðar eða verðandi mæður?

„Að plana ekki of mikið. Ef maður býr til einhverja mynd í hausnum á sér um hvernig hlutirnir eiga að vera er hætt við að maður verði fyrir vonbrigðum ef hlutirnir þróast í aðra átt. Best er að vera móttækilegur og opinn. Leyfa lífinu að hafa sinn gang og finna sér sinn farveg. Það er engin rétt leið í foreldrahlutverkinu, best er að treysta sér og innsæinu. Og ekki gleyma að hafa gaman af þessu. Ekki gleyma gleðinni!“

- Hefur þú þurft að skipuleggja þig og forgangsraða öðruvísi eftir að þú varðst móðir?

„Já, en það er bara frábært. Það besta við að verða foreldri svona seint er að þú ert svo tilbúinn í nýtt hlutverk. Þú ert ekki að fórna neinu.“

- Eitthvað annað sem gaman er að hafa með í viðtalinu?

„Já, þetta eru alger óskabörn því ég átti ekki að geta eignast börn. Sá eldri, Tryggvi Hrafn, kom mjög óvænt undir (í upphafi glasameðferðar komst ég að því að ég væri ófrísk) og svo er Ari Kristófer glasabarn. Þetta eru sannkölluð óskabörn mömmu sinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda