Sonur Þórunnar Lárusdóttur leikkonu og leikstjóra er tvíhandleggsbrotinn eftir að afturdekk á hjóli hans losnaði af. Þórunn segir að það sé algengur grikkur hjá unglingum að losa skrúfur við dekkin á hjólinu.
„Hann Kolbeinn Lárus minn var að hjóla með vinum sínum á fimmtudaginn þegar aftara dekkið dettur allt í einu af, með þeim afleiðingum að hann dettur og handleggurinn tvíbrotnar. Hann þurfti að fara í aðgerð til að hægt væri að setja pinna (ft) í höndina svo að þetta grói nú allt saman á réttan hátt. Við biðum dálítið lengi eftir aðgerð og þurfti því eðli málsins samkvæmt að dæla í hann morfíni og þess háttar til að sársaukinn bæri hann ekki ofurliði,“ segir Þórunn sem er slegin yfir þessu.
Hún segir að þeir sem losuðu skrúfurnar á dekkinu hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess.
„Því biðla ég til unglinga, foreldra, kennara og allra þeirra sem geta mögulega haft áhrif að ræða um og brýna fyrir krökkum að þetta sé hættulegt.
Kolla mínum líður mun betur núna, þó enn sé stuðst við einhver saklaus verkjalyf. Við erum komin heim, beinin komin aftur í réttar skorður og gróa vonandi fljótt,“ segir hún.