Skemmtikrafturinn Margrét Erla Maack hefur hrundið af stað söfnun á Karolina Fund til að eiga fyrir fæðingarorlofinu. Hún býður upp ýmsa afþreyingu sem hægt verður að njóta á næsta ári gegn greiðslu núna. Þar á meðal eru danstímar, veislustjóranámskeið, miðar á burlesque-sýninguna Búkalú og veislustjórn.
Tilgangur söfnunarinnar er tvíþættur að sögn Margrétar; að safna fyrir fæðingarorlofinu og vekja athygli á hversu flókið fæðingarorlofskerfið er fyrir þá sem kjósa að vinna sjálfstætt.
Margrét Erla á von á sínu fyrsta barni ásamt kærasta sínum Tómasi Steindórssyni um mánaðamótin. Hún er sjálfstætt starfandi fjöllistadís, sprellikerling og danskennari að eigin sögn.
Hún hyggst safna um 500 þúsund krónum, sem gerir um 100 þúsund á mánuði þá mánuði sem hún ætlar sér að vera í fæðingarorlofi. Að því loknu mun Tómas taka við fæðingarorlofskeflinu.
„Í febrúar komst ég að því að ég væri ófrísk og hef síðan þá staðið í því að reyna að átta mig á fæðingarorlofskerfinu á Íslandi. Dóttir mín fæðist að öllum líkindum um mánaðamótin september/október og síðustu samskipti við fæðingarorlofssjóð benda til að ég hafi afskaplega takmarkaðan rétt á fæðingarorlofi þar sem þeir mánuðir sem þau líta á til viðmiðunar teljast ekki vera full innkoma að þeirra mati,“ segir Margrét Erla. Henni finnst þetta ósanngjarnt þar sem eðli vinnu hennar er fljótandi; stundum er mikið að gera hjá henni og stundum ekki.
Hún segist þó vera í ákveðinni forréttindastöðu og betur sett en margir aðrir. „Í fyrsta lagi get ég komið af stað svona söfnun, ég er ekki einstæð og ég tala íslensku (og samt er erfitt fyrir mig að skilja upplýsingar sem ég fæ frá fæðingarorlofssjóði). Eftir að ég fór að tjá mig um þetta og leita ráða hjá fólki í svipuðum sporum komst ég að því að kerfið gerir einfaldlega ekki ráð fyrir fólki eins og mér – sem sveiflast á milli verkefna, stundum sem launamanneskja en stundum sem frílans,“ segir Margrét Erla.