Tvöfalda færni sína á einni viku

Guðríður Adda Ragnarsdóttir.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Læs í vor er námsefni til að kenna lestur frá grunni og fylgir efnið með í verklegum lestrarkennslunámskeiðum fyrir kennara sem Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur og kennari hefur haldið síðustu ár. 

Guðríður Adda hefur þróað efnið í starfi og var gerð þess á sínum tíma styrkt af Hagþenki og Þróunarsjóði námsgagna eftir góða umsögn fagfélaga. Kennarar sem nota Læs í vor og kenna með bandarísku aðferðunum „direct instruction“ og „precision teaching“, stefna að því að nemendur tvöfaldi færni sína á einni viku eða sjö skiptum, upp að vissu marki, í því efnisatriði sem verið er að kenna. Stundum gengur það þó mun hraðar, og mörg dæmi eru um að afköstin þrefaldist í einum kennslutíma,“ segir Guðríður Adda. 

Aðferðirnar kallar hún „stýrð fyrirmæli“ og „hraðfærniþjálfun“.

„Brýnt er að fylgja nákvæmlega leiðbeiningum um framsetningu stýrðu fyrirmælanna sem fela í sér kennarastýrða innlögn nýrra þekkingaratriða. Kennsla með stýrðum fyrirmælum er einnig árangursrík fyrir hópa og heila bekki og er samofin góðri bekkjarstjórnun. Henni vindur fram með „sýna – leiða – prófa“ í föstum, hröðum takti þar sem nemendur svara í kór. Allir nemendur hafa því oft heyrt rétta svarið og tekið þátt í því þegar þeir snúa sér að hraðfærniþjálfuninni. Hún er nemendadrifin og felst í stuttum tímamældum æfingasprettum sem eru endurteknir þar til nemandinn nær fyrirfram ákveðnu markmiði og hefur nýja kunnáttu og færni á hraðbergi. Nemendur skrá jafnóðum hvað þeir bæta sig á svonefnt staðlað hröðunarkort (Standard Celeration Chart) sem er óaðskiljanlegur hluti „Precision Teaching“. Hröðunarkortið mælir árangur stýrðu kennslunnar og sýnir hvað nemandanum fer fram, hversu hátt hann nær og hversu hratt það gerist. Hröðunarkortið svarar kennslufræðilegum spurningum kennarans, eins og hvað eigi að kenna tiltekið atriði lengi, eða hvort nemandinn sé á réttum stað í námsefninu.“

Hröðunarkortið er ekki gagnageymsla heldur lifandi stýritæki kennarans, á því byggir hann ákvarðanir sínar.

„Með þessu fyrirkomulagi eru allir nemendur sívirkir í tímunum og lítið svigrúm gefst fyrir truflanir og aðra ótæka hegðun, þannig að tíminn nýtist vel og kennarinn er laus undan því álagi sem agavandamál skapa. Hann fær einnig ótal tækifæri í hverjum tíma til að hrósa nemendum sem svo aftur styrkir sjálfsmynd þeirra og vellíðan.

Aldrei hefði mér að óreyndu dottið í hug að ég ætti eftir að fá brennandi áhuga á lestrarkennslu. En í lok tíunda áratugarins starfaði ég við atferlis- og kennsluráðgjöf í skólum og var málum barna vegna ótækrar hegðunar vísað til mín. Ég hjó eftir að börnin voru nær öll á aldrinum 10 til 12 ára gömul. Við nánari skoðun kom í ljós að þau áttu í miklum erfiðleikum með námið, voru hvorki vel læs né skrifandi og réðu heldur ekki við stærðfræðina. Með öðrum orðum, þessi börn höfðu ekki vald á þeirri færni sem miðað er við að þau hafi eftir fjögur ár í grunnskóla og gátu þar af leiðandi ekki tekist á við nýjar áskoranir með þyngra námsefni og miklum texta.

Svo vildi til að á þessum árum þekkti ég þegar mæligögn um einstakan árangur kennsluaðferðanna „Direct Instruction“ og „Precision Teaching“ sem birst höfðu í tímaritinu The American Psychologist. Í framhaldinu dreif ég mig til Bandaríkjanna, í The Morningside Academy í Seattle, og lærði þar að beita þessum aðferðum saman í kennslu,“ segir hún.

Aðferðirnar sem hafa þróast síðastliðin 60 ár eru þaulreyndar og rannsakaðar, byggjast á haldbærum gögnum og hægt er að lesa sér nánar til um þær í alþjóðlegum ritrýndum fræðitímaritum.

„Til að gera langa sögu stutta, þá hef ég nú í hartnær tvo áratugi kennt börnum og fullorðnum bæði að lesa og skrifa og einnig að reikna, með þessari samsettu kennslutækni. Kennslan skilar sér vel og sambærilega við það sem sýnt hefur verið fram á í öðrum löndum.

Sem dæmi um það má sjá hér á myndinni, annars vegar framfarir 11 ára stúlku sem greind var með lesblindu – dyslexíu, og hins vegar 8 ára drengs með dæmigerða einhverfu.“

„Áður en kennsla hófst las stúlkan 37 rétt atkvæði á mínútu af samfelldum texta á lestrarprófi. Hún bað þá um að mega lesa prófið aftur og hafa gleraugu með lituðu gleri sem áttu að auðvelda henni lesturinn. Með þeim las hún sama textann strax aftur. Lituðu gleraugun juku ekki lestrarhraðann. Eftir 60 skipti af kennslu, gleraugnalaust, með stýrðum fyrirmælum og hraðfærniþjálfun las hún 132 rétt atkvæði á sama prófi. Afkastaaukningin er hátt í fjórföld og var lesturinn flæðandi og áheyrilegur með gjörbreyttri hrynjandi frá því sem verið hafði.“

Sama lestrarpróf var lagt fyrir drenginn áður en kennslan hófst.

„Hann sat í fangi mömmu sinnar og las í tvær mínútur. Rétt atkvæði mældust vera þrjú, orðin ‚og‘, ‚í{lsquo} og ‚á{lsquo}. Lestrarhraði hans mældist því 1,5 rétt atkvæði á mínútu. Eftir 146 skipti af kennslu með stýrðum fyrirmælum og hraðfærniþjálfun las hann 151 rétt atkvæði á mínútu á sama prófi. Afköstin höfðu eitthundraðfaldast og lesturinn var flæðandi og áheyrilegur með góðri hrynjandi. Hann var orðinn tæknilega læs og las sér til ánægju.“

Hún segir að margir kennarar sem hafa lokið Læs í vor lestrarkennslunámskeiðum eigi áhugaverð gögn um árangur kennslu sinnar.

„Það er ekki að undra að þeir sem hafa tekið upp aðferðir stýrðra fyrirmæla og hraðfærniþjálfunar telji það algjör tímamót sem hafi gjörbreytt lífi þeirra sem kennara til hins betra.

Í byrjun hélt ég að nemendur sem til mín kæmu hefðu breytilegar þarfir og mundu þar af leiðandi byrja á ólíkum stöðum í námsefninu. Það kom þó fljótt í ljós að svo var ekki. Óháð lestrarhraða, kyni, aldri eða greiningum, hafa allir mínir nemendur átt eitt sameiginlegt. Nefnilega, að þekkja ekki málhljóðin.“

Hún segir að þau viti ekki hvað stafirnir segja og geta því ekki umritað hratt og örugglega úr tákni í hljóð og úr hljóði í tákn, þ.e. lesið og skrifað.

„Þetta hefur reynst algilt og án undantekninga þau 19 ár sem ég hef kennt lestur í einkakennslu. Allir mínir nemendur hefja því lestrarnámið á sama stað, á einu málhljóði. Það gerðu þau einnig stúlkan og drengurinn sem lásu samfelldan texta og nefnd voru hér áðan. Unnið var með samtengjandi hljóðaaðferð (synthetic phonics) upp frá smæstu einingu – málhljóðinu, í gegnum stefnumiðað og þrepaskipt Læs í vor prógrammið, og endað á samfelldum texta. Allt kennt með stýrðum fyrirmælum og hraðfærniþjálfun.

Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar er löngu vel þekkt og tími nemandans er dýrmætur. Því er brýnt að bíða ekki eftir að ólæsið lagist af sjálfu sér og valdi ómældum skaða sem að lokum þrýstir ungu fólki út í heilbrigðis- og félagskerfið, heldur byrja strax að kenna.“

Guðríður Adda segir að á síðustu árum hafi skólarnir bent foreldrum á lestrarkennslu hennar.

„Það er svo sárt að nemendur sem þurfa á slíkri lestrarkennslu að halda núna, þurfi að fara langar leiðir og jafnvel bíða í heilt ár á biðlista, í stað þess að fá þessa sömu kennslu og þjálfun strax í skólanum sínum. Þess vegna býð ég kennurum verklegt Læs í vor lestrarkennslunámskeið með ráðgjöf og eftirfylgd.“ Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á adda@ismennt.is

Guðríður Adda Ragnarsdóttir.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda