Jólamatur sem óléttar konur þurfa að varast

Óléttar konur þurfa að passa sig þegar kemur að jólamatnum.
Óléttar konur þurfa að passa sig þegar kemur að jólamatnum. mbl.is/Colourbox.dk

Óléttar konur geta ekki borðað hvað sem er í jólaboðum eins og ljósmóðir fór yfir á Instagram-síðu Ljósmæðrafélags Íslands. Barnshafandi konur þurfa að hafa varann á þegar kemur að forréttum í jólaboðum og mega ekki endilega borða heimagerða jólaísinn. 

Forréttir sem óléttar konur ættu að forðast eru meðal annars: Grafinn lax. Reyktur fiskur. Maríneruð síld. Harðfiskur. Hráar baunaspírur. Ógerilsneyddir ostar og mjólkurvörur. Hrátt kjöt eða kaldreykt óeldað kjöt. 

Þegar kemur að aðalréttum mega óléttar konur borða reykt kjöt eins og hangikjöt og hamborgarhrygg svo lengi sem kjötið er eldað. Kjötið er hins vegar afar salt og er mælt með því að konur með háan blóðþrýsting borði frekar meira af meðlætinu en kjötinu sjálfu. 

Þegar eftirréttir á jólum eru annars vegar er heimagerður jólaís vinsæll. Oft eru hrá egg í þessum uppskriftum og þarf að varast að borða slíka ísa. Hrá egg þurfa ekki að koma í veg fyrir að óléttar konur geti borðað heimagerðan jólaís þar sem hægt er að notast við gerilsneiddar eggjahvítur og eggjarauður. Ljósmóðirin minnir einnig á að stundum eru hrá egg í kremum á kökum. 

Svona ættu óléttar konur að komast í gegnum jólaboðin án vandræða. Þær konur sem vilja hætta sér í skötuveislu geta verið áhyggjulausar svo lengi sem skatan er elduð og hreinlæti gætt við matseld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert