Hollywood-leikararnir Eva Mendes og Ryan Gosling eru dugleg að sinna dætrum sínum tveimur. Nú mæðir enn meira á foreldrunum þar sem fjölskyldan þarf að halda sig mikið heima og dæturnar eru ekki með barnfóstrur. Á myndum sem Mendes birti á Instagram virðist hún hafa gefist upp á því að framfylgja reglum á heimilinu.
Mendes er ansi skrautlega máluð á mynd sem hún birti nýlega en hún gefur í skyn að dætur hennar hafi fengið að leika sér við að farða andlit hennar. „Þær unnu,“ skrifaði Mendes við mynd af sjálfri sér. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem dæturnar fengu útrás á andliti móður sinnar en fyrir tveimur vikum birti Mendes svipaða mynd og skrifaði að hún hefði misst alla þá stjórn sem hún hafði eitt sinn.
Dætur þeirra Mendes og Gosling eru fæddar árin 2014 og 2016. Ekki er vitað hvort dæturnar hafi einnig fengið að farða föður sinn en Mendes birtir ekki myndir af manni sínum og börnum á samfélagsmiðlum.
Í Hollywood þykir sjálfsagt að vera með barnfóstrur en Mendes og Gosling eru ekki með slíka hjálp. Heimildarmaður Us Weekly sagði á dögunum að hjónin sinntu börnum sínum sjálf. „Að vera lokuð inni á heimili sínu með tvö lítil börn er stundum þreytandi, sérstaklega án hjálpar.“