„Þetta er erfiðasta en skemmtilegasta hlutverkið. Það er nokkuð ljóst. Ég bara dýrka hann,“ sagði Auðunn Blöndal eða Auddi eins og hann er stundum kallaður um föðurhlutverkið en hann eignaðist sitt fyrsta barn í lok síðasta árs. Auðunn mætti í dagskrárliðinn „20 ógeðslega mikilvægar spurningar“ í Síðdegisþættinum og ræddi þar um lífið, starf sitt í fjölmiðlum og nýja hlutverkið.
„Mér finnst svo skrítið að hann sé orðinn sjö mánaða og mér finnst svo skrítið að ég hafi einhvern tímann ekki átt hann. Þótt hann sé svona ungur. Það er svo mikið og svo stórt og ég dýrka þetta!“ sagði Auðunn um soninn Theódór Sverri Blöndal. Segir hann soninn hafa komið á hárréttum tíma þrátt fyrir að hann telji sig hafa átt hann fremur seint á lífsleiðinni miðað við marga en Auðunn á fertugsafmæli 8. júlí næstkomandi.
„Þó að ég hafi verið seinn í þessu finnst mér eins og þetta hafi komið á réttum tíma því ég er ekki að segja að ég hafi verið búinn með allt, en mér finnst svo gott að ég hélt ég myndi bara aldrei þroskast upp úr því að vilja fara út á djammið,“ sagði Auðunn.
„Ég var bara 33 ára á B5, ég er ekki einu sinni að grínast með þetta. Ég var farinn að hugsa: Mun ég bara aldrei fá leið á þessu? Svo finnst mér svo gott að eignast barn og hugsa bara: Ég er ekki að missa af neinu. Mig langar bara ekki að gera neitt annað en að vera heima með honum. Þannig að hann kom á góðum tíma,“ sagði hann og bætti við kíminn að hann hefði getað miðað sig við marga vini sína sem hefði tekist að vera með börn sem hefði gefið honum kjark.
„Ég vissi að fyrst þeir gátu þetta þá gæti ég þetta. Ég var orðinn tilbúinn,“ sagði hann og játaði því að ef bæði Sveppi og Pétur Jóhann gætu átt börn hlyti hann að geta það líka.
Logi Bergmann kvaddi Auðun að lokum í takt við samtalið og sagðist vonast til að hann myndi ekki „klúðra barninu“.
„Ég get lofað þér því að það fer svona tíu sinnum meiri metnaður í það en fjölmiðlana. Fyrst það entist í 20 ár hljótum við að geta haldið krakkanum góðum í 40 ár,“ svaraði Auðunn.
Hlustaðu á allt spjallið við Auðunn í Síðdegisþættinum í spilaranum hér að neðan.