Velina Apostolova segir blak vera allra meina bót. Hún eignaðist barn fyrir sjö mánuðum en lét það ekki stoppa sig í að keppa í blaki nýverið. Velina býr í Helgafells-landinu í Mosfellsbæ ásamt unnusta sínum og dóttur. Hún er sérfræðingur í notendaþjónustu hjá Icelandair en er í fæðingarorlofi í dag.
„Ég æfi blak með Aftureldingu og kem úr mikilli blakfjölskyldu þannig að íþróttir og heilsa hafa ávallt verið stór partur af lífi mínu.
Ég er í fæðingarorlofi í dag með litlu stelpunni minni sem er nýorðin sjö mánaða. Þetta er allt annar veruleiki en ég hef áður kynnst en ótrúlega skemmtilegur tími og dásamlegt að fá að fylgjast með henni þroskast og dafna.“
Hvað getur þú sagt mér um áhuga þinn á blaki?
„Strandblak er frábær sumaríþrótt og mjög góð hreyfing fyrir mig þar sem ég er nýbyrjuð að æfa aftur eftir barneignir. Sandurinn er mjúkur og því er minna álag á liðamót heldur en á hörðu gólfi í inniblaki svo þetta er góð byrjun. Auk þess er æðislegt að stunda hreyfingu úti í góðu veðri með góðum vinum. Ég spilaði með systur minni um síðustu helgi þar sem við unnum bronsverðlaunin á Íslandsmótinu í blaki. Það var spilað í rjómablíðu og við skemmtum okkur konunglega.
Ég hef annars spilað blak frá því ég var unglingur en foreldrar mínir voru bæði atvinnumenn í blaki svo ég hef ekki langt að sækja áhugann. Blak hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og er meðal annars ástæðan fyrir því við fjölskyldan fluttum til Íslands frá Búlgaríu þegar ég var sex ára þar sem pabbi fékk þjálfarastarf í Neskaupstað. Við erum því mikil blakfjölskylda en ég, mamma og systir mín höfum allar spilað með íslenska landsliðinu í blaki og eigum einnig að baki marga titla með félagsliðunum okkar hér heima í gegnum tíðina.“
Skiptir heilsan þig miklu máli?
„Já, ég hef alltaf verið frekar heilsuhraust og reyni að taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Heilsan er svona hlutur sem maður hugsar kannski ekki mikið um ef hún er góð en það tekur virkilega á ef hún er slæm. Ef maður ætlar að ná árangri í íþróttum þá er ekki annað hægt en að vera meðvitaður um heilsuna og huga að því að halda sér hraustum svo ég hef alltaf haft það í huga án þess þó að fara út í öfgar.“
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Á veturna er ég yfirleitt á blakæfingum með liðinu mínu. Við æfum blak fimm til sex sinnum í viku og auk þess eru tvær til þrjár styrktaræfingar í viku svo það gefst ekki tími fyrir margt annað. Á sumrin finnst mér mjög gaman að fá að ráða mér aðeins meira sjálf og er dugleg að spila strandblak, fara í fjallgöngur og svo elska ég að fara í sund.“
Hvað er góð heilsa að þínu mati?
„Mér finnst mikilvægt að finna jafnvægi og reyna að fara meðalveginn þegar kemur að heilsunni. Að stunda mikla hreyfingu en ganga ekki fram af mér. Að borða hollan mat en neita mér ekki um kræsingar þegar það á við. Að kveikja undir keppnisskapinu en láta það ekki hlaupa með mig í gönur. Síðustu nokkur árin hef ég hugsað meira um andlegu hliðina og hvernig ég get verið sterkur persónuleiki og leiðtogi innan blakliðsins. Sjálfstraustið og markmiðasetningin þarf að vera til staðar áður en það er hægt að byggja upp líkamann.“
Hugar þú að mataræði þínu?
„Ég get ekki sagt að ég hugsi mikið um það. Mér finnst mataræði snúast um venjur og sem betur fer hef ég þróað með mér nokkuð heilbrigðar venjur í tengslum við mat án þess að hafa lagt mikla hugsun í það. Ég er alin upp við að borða mikið grænmeti en Búlgarar elda mikið grænmeti og það er nánast undantekningarlaust salat með matnum. Mér þykja ávextir líka mjög góðir og hef verið dugleg að borða þá sem snarl eða millimáltíðir. Mér finnst ég líka finna það strax ef ég borða ekki næringarríkan mat því þá hef ég ekki næga orku á æfingum. Eini tíminn þar sem ég hugsaði virkilega um hvað ég setti ofan í mig var á meðgöngunni því lystarleysi og ógleði settu strik í reikninginn. Sem betur fer breyttist það fljótt í aukna matarlyst og sterka löngun í alls konar gotterí; bæði hollt og óhollt.“
Að hverju ertu að stefna í íþróttum um þessar mundir?
„Ég er að vinna í því að byggja líkamann hægt og rólega upp eftir barneignir og styrkja mig fyrir komandi blaktímabil. Ég reyni að vera með raunhæfar væntingar og fara hægt í sakirnar til að lenda ekki í meiðslum. Markmiðið er að komast í byrjunarliðið á nýjan leik og vonandi vinna einhverja titla með liðinu mínu í vetur.“
Þótt sund heilli þá fer hún ekki í laugina til að synda.
„Já, ég elska að fara í sund en ég verð að viðurkenna að ég er ekki dugleg að synda. Ég nota sundlaugarnar mikið fyrir slökun og endurheimt eftir erfiðar æfingar eða leiki. Mér finnst endurnærandi að fara í kalda pottinn og nýt þess einnig að slaka á í heita pottinum. Kærastanum mínum þykir líka mjög gott að fara í sund og það lítur út fyrir að litla stelpan okkar sé hrifin af vatni þannig að við getum notið þess að fara öll saman í sund í framtíðinni.“
Hvað er besta heilsuráðið sem þú hefur fengið?
„Að eltast ekki við alls konar megrunarkúra eða gylliboð um fæðubótarefni, orkudrykki og svo framvegis. Skyndilausnir eru ekki framtíðarlausnir. Maður á að njóta þess að hreyfa sig og borða góðan mat sem lætur manni líða vel. Stundum er það eitthvað bráðhollt en stundum bara kókómjólk og snúður.“