Tónlistarkonan og barnabókahöfundurinn Birgitta Haukdal sendi nýlega frá sér tvær bækur um Láru og Ljónsa sem tilvaldar eru í jólapakkann til ungra lesenda. Fyrir jólin bætist svo við tónlistarbók um Láru og Ljónsa. Birgitta segir að það hafi ekki komið til greina að skrifa barnabók um veiruna því þetta sé vonandi tími sem börnin gleymi fljótt.
Bækurnar tvær sem komnar eru út eru Lára lærir að lesa og Lára fer í leikhús og eru skemmtilega ólíkar að mati Birgittu. Í fyrri bókinni fer Lára í fyrsta skipti í skólann en lendir í smá erfiðleikum með að læra að lesa. Þá kemur í ljós að hún þarf gleraugu og fær lesandinn að fylgjast með því.
Seinni bókin, Lára fer í leikhús, fjallar um spennandi leikhúsferð sem Lára fer í með besta vini sínum, Atla. Amma Snæfríður og Atli bjóða Láru og Ljónsa í leikhúsferð þar sem Lára verður hugfangin af búningunum, ljósunum og tónlistinni sem á heima í leikhúsinu.
Auk bókanna hefur Birgitta einnig hannað Láru og Ljónsa-náttfatalínu sem er fáanleg í Lín Design og er skemmtileg viðbót fyrir alla aðdáendur tvíeykisins.
Birgitta og eiginmaður hennar Benedikt Einarsson eiga tvö börn saman, þau Víking Brynjar sem er 11 ára og Sögu Júlíu fimm ára. Snemma í heimsfaraldrinum fann Birgitta fyrir miklum kvíða hjá börnunum sínum og ákváðu þau því að tala ekki um veiruna heima.
„Við reynum að hafa heimastundirnar notalegar, lesum og spilum saman, förum mikið út í göngutúra svo ég tali nú ekki um kleinusteikingarnar sem hafa verið mun fleiri á þessu ári en því síðasta. Hér í stofunni var tjaldað um stund og stofan undirlögð af dóti. Við breyttum stofunni í ævintýri og borðuðum kvöldmatinn í tjaldinu. Allir í fjölskyldunni kunna að meta tónlistarbrall og er því búið að vera mikið um píanó-, söng- og trommuæfingar hjá öllum aldri,“ segir Birgitta aðspurð hvernig fjölskyldan hafi haft það í faraldrinum.
En hvernig var að skrifa bækurnar á þessum skrítnu kórónutímum?
„Ég nýtti þessa daga sem við gátum ekki farið úr húsi vel í vinnu og þar sem tónlistarvinnan nánast hvarf átti ég aukatíma til að vinna í tónlistarbók með Láru og Ljónsa sem kemur í byrjun desember og er dásamlega falleg og skemmtileg. Þar er hægt að lesa, skoða myndir, hlusta á barnalög og syngja með.“
Ertu með einhver ráð til foreldra sem þurfa að vera með börnin lengi heima eða lenda í sóttkví?
„Við höfum lent í hvoru tveggja og ég veit að þetta er erfitt og það getur verið sérstaklega erfitt að halda þeim frá símum og tölvum. Við reyndum að taka upp borðspil, lásum fleiri bækur saman, kósíkvöldin urðu fleiri og börnin fengu að elda og baka oftar – auðvitað með hjálp. En ég finn að göngutúrar og útivera gera ofsalega mikið fyrir alla í fjölskyldunni.“
Í ljósi ástandsins, kom þá aldrei til greina að skrifa bókina Lára og Ljónsi í sóttkví eða eitthvað í þá áttina?
„Nei, það kom aldrei upp í hugann. Lárubækurnar eiga auðvitað að vera svolítið um líðandi stund og hversdag barnsins og þessi tími er vonandi tími sem börnin gleyma fljótt og við þurfum ekki að minna þau á.“
Á hverjum laugardegi fram að jólum verður Birgitta með lestrarstund fyrir börnin þar sem hún les eina Lárubók. Hægt er að fylgjast með því á facebook- og instagramsíðu Birgittu.