Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens eignaðist lítinn afastrák hinn 11. desember. Barnabarnið er sonur Grétu Morthens, dóttur Bubba, og Viktors Jóns Helgasonar. Fyrsta barnabarn Bubba kom í heiminn árið 2018.
Bubbi greindi montinn frá afastráknum á Facebook. Þar sagði hann foreldrana vera alsæla en þau eiga einnig dótturina Veru sem er tveggja ára. „Lífið er ekkert annað en undur,“ skrifaði Bubbi meðal annars.
Bubbi er stoltur faðir og er meðal annars með nöfn barna sinna flúruð á bakið. Bubbi á sex börn með tveimur konum. Úr fyrra hjónabandi sínu á hann þau Hörð, Grétu og Brynjar. Hann er nú giftur Hrafnhildi Hafsteinsdóttur og eiga þau dæturnar Aþenu Lind og Dögun París saman. Hrafnhildur á svo Ísabellu úr fyrra sambandi.