Nú þegar rúmlega 60% landsmanna eldri en 16 ára eru fullbólusett og tæplega 30% hálfbólusett og öllum innanlandstakmörkunum verið aflétt leitar hugur margra landsmanna út fyrir landsteinana. Ódýr flugfargjöld eru í boði til Evrópu og ekki margir ferðamenn á ferli og því kjöraðstæður fyrir einstakt sumarfrí erlendis.
Stærstur hluti Evrópu er í dag talinn „grænn“ sem þýðir að nýgengi smita er undir 4% síðustu 14 daga og því ekkert því til fyrirstöðu að ferðast fyrir fullbólusetta Íslendinga. Landlæknisembættið ræður óbólusettum Íslendingum frá því að ferðast að óþörfu frá Íslandi en það eru innan við 10% af landsmönnum eldri en 16 ára og svo börnin okkar.
Börn á aldrinum 12 til 15 ára eru velkomin í bólusetningu eftir sumarið ef foreldrar óska þess og er þeim bent á að hafa samband við sína heilsugæslu. Varðandi börn yngri en 12 ára þá er enn óljóst hvernig bólusetningum verður háttað. Rannsóknir á áhrifum bólefnisins á börn eru ekki komnar nógu langt til að hægt sé að bólusetja þau.
Nú er nýtt afbrigði veirunnar farið að vekja óhug í Portúgal en í maí var Portúgal vinsælasti áfangastaður ferðamanna í álfunni þar sem landið var á svokölluðum grænum lista Breta yfir lönd sem þeir máttu ferðast til og komast þá hjá sóttkví.
Langtímaáhrif Covid á börn eru óljós en þó eru taldar litlar líkur á að börn muni glíma við aukaverkanir til lengri tíma. Það er einfaldlega ákvörðun hvers og eins hvort það sé áhættunnar virði að fara með fjölskyldu sína utan í frí. Mælst er til þess að börn gangi með grímu á flugvöllum og í flugvélum og sumir veitingastaðir leyfa ekki óbólusettum að setjast inn, þar með talið börnum.