Íris Tanja Flygenring hefur skotist hratt upp á sjónarsviðið á síðustu árum. Hún sló nú síðast í gegn fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Kötlu sem voru frumsýndir á streymisveitunni Netflix í sumar. Þessa dagana vinnur hún að eftirvinnslu við þriðju þáttaröð íslensku sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærðar.
Íris útskrifaðist frá leiklistarbraut Listaháskóla Íslands vorið 2016 og árið eftir eignast hún sitt annað barn, dótturina Kolbrá Sögu. Fyrir átti hún soninn Aron Þór en hún eignaðist hann aðeins tvítug, árið 2010.
Íris Tanja segir að allt hafi breyst þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. „Þetta er algjörlega lífið fyrir og eftir það. Annar einstaklingur sem er algjörlega háður þér og tekur öll fyrstu sætin í lífi þínu á augabragð. Það getur verið krefjandi en er alltaf þess virði, alla daga,“ segir Íris Tanja í viðtali við mbl.is.
Íris var sú fyrsta í vinahópnum til að eignast barn og upplifði sig frekar utanveltu í hópnum. Hún reyndi þó að snúa því við og upplifa sig frekar þannig að hún tilheyrði líka nýjum hópi.
„Þó ekki aðeins honum því það er svo mikilvægt að muna að þótt þú sért orðin móðir er það ekki það eina sem þú ert og mikilvægt að hlúa að sjálfri þér – bara smá tími með sjálfri þér eða vinum í öðru umhverfi getur gert svo ofboðslega mikið fyrir þig og mér finnst ég alltaf koma endurnærð til baka og betur búin í að takast á við móðurhlutverkið eftir það,“ segir Íris Tanja.
Að verða móðir svo ung er stór áskorun og segist Íris hafa sett óraunhæfar kröfur á sjálfa sig sem móðir. Fannst henni hún þurfa sanna sig mjög mikið sem slík.
Íris segist stundum verða óþolinmóð eins og allar mæður en í dag veit hún að það er engin fullkomin og allir eiga misjafna daga. Enda er það líka mikilvægt fyrir börnin okkar að þau sjái að enginn er fullkomin, ekki heldur mamma og pabbi.
„Ætli ég vilji ekki reyna að skila af mér heilbrigðum einstaklingum út í samfélagið sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Það sem ég reyni að minna mig á er setning sem ég heyrði einu sinni: „Við munum eftir augnablikum í lífinu en ekki heilu tímabilunum.“ Svo ég reyni að skapa eins mörg góð augnablik og ég get og reyni að láta börnunum líða eins og þau treysti mér og geti leitað til mín með tilfinningar sínar, sama hverjar þær eru þá stundina, og fái rými til þess. Mér finnst aðhald og rammi vera mikilvægur hluti af uppeldinu hjá mér og reyni að skapa rými fyrir flæði innan þess,“ segir Íris.
Íris átti mjög erfiðar meðgöngur í bæði skiptin og segist sennilega ekki vera sköpuð til þess að ganga með og fæða börn. „Ég verð mjög lasin þegar ég er ófrísk, ég fékk meðgöngukvillann HG á báðum meðgöngum og varð mjög lasin, nánast rúmliggjandi. En ég var með æðislega ljósmóður sem hlustaði á hvernig mér leið og sá að þetta var ekki venjuleg morgunógleði, ég var að kasta upp allt að 10-15 sinnum á sólarhring. Hún og Arnar kvensjúkdómalæknirinn minn komu mér að í eftirlit uppki á kvennadeild þar sem ég fékk lyf við ógleðinni og vökva í æð reglulega og það hjálpaði töluvert,“ segir Íris.
Þessi veikindi Írisar Tönju urðu til þess að hún datt út af vinnumarkaði á meðgöngunni sem hafði áhrif á hana andlega. „Mér leið eins og ég væri læst í eigin líkama og það hafði mikil áhrif á andlegu hliðina. Það komu samt alveg tímabil inn á milli þar sem mér leið vel enda er ekkert magnaðra og merkilegra en líf að vaxa inni í konu og koma svo í heiminn og ég er mjög þakklát fyrir að hafa getað gert akkúrat það, sem er alls ekki sjálfgefið,“ segir Íris og bætir því við að hún hafi verið dugleg að lesa sér til um meðgönguna og hvað var í gangi í þroska hjá barninu á hverri viku.
„En mér fannst hundleiðinlegt að vera svona veik allan tímann, mér fannst erfitt að finna föt og klæða mig, stundum langaði mig bara að geta farið aftur í gallabuxur og troðið bolnum ofan í, sofa á maganum, vera aftur með lítil brjóst, þurfa ekki að vakna átta sinnum á nóttu til að pissa og fótapirringurinn var hryllingur,“ segir Íris.
Hún segir þessar erfiðu meðgöngur hafa gleymst um leið og börnin komu í heiminn. „Um leið og ég sá börnin mín og fann þau taka utan um fingurinn minn með litlu puttunum sínum var allt erfiðið á meðgöngunni gjörsamlega þess virði.“
Auk þess að eiga erfiðar meðgöngur átti Íris mjög erfiðar fæðingar. Í bæði skiptin þurftu læknar að grípa inn í og voru þau bæði tekin með bráðakeisara. Íris var með hríðir í 32 tíma með son sinn Arnar og komst aldrei í meira en fjóra í útvíkkun. Hjartsláttur litla drengsins byrjaði að falla í hverri hríð og því var hún send í keisara.
„Hann hafði þá verið með ennið á undan í stað þess að vera með kollinn á undan og festist efst í grindinni. Með stelpuna var ég staðráðin í því að reyna aftur við fæðingu en þegar ég var búin að vera í hríðum í þrjá sólarhringa og ekki komin í meira en fimm í útvíkkun var tekin ákvörðun um að senda mig í keisara aftur,“ segir Íris.
„Ég átti mjög erfitt með að sætta mig við að geta ekki fætt börnin mín „náttúrulega“ og fannst ég lengi vel ekki hafa staðið mig í einhverju sem ég ætti að geta gert. Þegar ég varð ófrísk að stelpunni minni fékk ég að lesa fæðingarskýrsluna frá fyrri fæðingu og það hjálpaði mér mjög mikið því ég fékk að lesa hvernig þetta hefði verið frá læknisfræðilegu sjónarhorni og þar kom fram að ég væri mjög dugleg en orðin verulega þreytt og þetta hefði aldrei verið til umræðu eftir að hjartslátturinn hjá honum byrjaði að falla. Ég var komin 11 daga fram yfir settan dag og hann búinn að kúka í legvatnið svo það var svo margt sem vann á móti okkur. Við vorum bæði orðin þreytt og hann farinn að ganga á eigin birgðir þar sem fylgjan var ekki lengur að vinna eins og hún átti að gera. Þetta var aldrei val og þetta snerist aldrei um að ég hefði ekki staðið mig nógu vel og hefði brugðist. Þetta snerist einfaldlega um röð atvika og óheppni og á endanum bara um að koma honum heilbrigðum í heiminn,“ segir Íris.
Íris segir að það sem hafi komið henni mest á óvart við móðurhlutverkið hafi verið áhyggjurnar og samviskubitið. „Það hræðir mann alltaf eitthvað og ég held því fram að þegar maður verður foreldri stækki hjartað um nokkur númer og maður skilur allt í einu hvað lífið snýst um en það koma líka nokkrir leiðindafylgikvillar með sem er samviskubit yfir öllu og engu.
Til dæmis að maður sé ekki að gera nógu vel, samviskubit yfir vinum og öðrum sem maður er ekki að sinna, þegar maður fer svo kannski út þá fær maður samviskubit yfir því að vera í burtu. Þegar það er erfiður dagur og þráðurinn stuttur og getur ekki beðið eftir að barnið sofni fær maður samviskubit yfir því. Áhyggjur af því að barnið sé ekki að fá nóg, að eitthvað komi fyrir það, að eitthvað komi fyrir mig, hvort barnið eigi nóg af vinum, hvort það sé heilbrigt og hamingjusamt,“ segir Íris Tanja.
Íris hefur lært að áhyggjurnar og samviskubitið sé eðlilegt, í það minnsta upp að vissu marki. Ef þær fara að heltaka fólk og hafa áhrif á daglegt líf þarf að leita sér hjálpar, því þá getur verið um fæðingarþunglyndi að ræða. Það gerði hún þegar átti strákinn sinn og segir það ekki neitt til að skammast sín fyrir.
Fæðingarþunglyndi er algengast á fyrstu þremur mánuðunum eftir fæðingu og algengast að það byrji 4-6 vikum eftir fæðingu. Rannsóknir sýna að 10 til 15% kvenna fá fæðingarþunglyndi.
Vegna veikinda sinna á meðgöngunni gat hún ekki hreyft sig mikið. Hún átti þó góð tímabil í meðgöngujóga og meðgöngusundi. „Ég reyndi að vera dugleg að fara út að labba og gera teygjur heima. Ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem geta hreyft sig á meðgöngu og ég dáist að konum sem fara í ræktina eða út að hlaupa eða hvað sem er á meðgöngu,“ segir Íris Tanja.
„Konur vita hvað þær eru færar um, hvort sem þær eru með barni eða ekki, og engra annarra að dæma það. Ég þoli ekki að sjá fólk sem finnur sig knúið til að tjá sig um hreyfngu annarra kvenna á meðgöngu. Við þekkjum líkama okkar best sjálfar og vitum hvað við erum færar um – eins og með börnin – örugglega besta ráð sem ég hef fengið var að taka við öllum ráðum sem ég fengi, velja það sem hentaði mér en alltaf hlusta á sjálfa mig, því mamman þekkir barnið best sjálf,“ segir Íris að lokum.