Óskarsverðlaunaleikkonan Reese Witherspoon varð móðir ung. Hún hafði ekki hugmynd um hvað hún var að gera fyrstu mánuðina. Hún hélt að dóttir sín væri alltaf svöng og gekk illa að fá hana til þess að sofa á nóttunni.
„Ég bjó langt frá mömmu minni. Mamma mín vann fulla vinnu sem hjúkrunarfræðingur og ég eignaðist barn mjög ung, ég var 23 ára og ól hana upp sjálf,“ sagði leikkonan í þættinum The View að því fram kemur á vef People. „Ég á engar systur, ég á engar frænkur. Ég var ein í nýrri borg, Los Angeles og ég átti bókstaflega enga vini. Ég grét.“
Witherspoon vissi ekki hvað hún átti að gera þegar dóttir hennar grét alla nóttina. „Ég skildi ekki hvað svefnþjálfun var,“ sagði hún í þættinum. „Ava vakti alla nóttina þangað til hún var örugglega sjö mánaða af því ég skildi ekki að ég ætti ekki að gefa henni. Ég hélt að hún væri alltaf svöng.“
„Þið eigið eftir að komast í gegnum þetta,“ sagði Witherspoon við nýbakaðar mæður. „Þetta er svo erfitt en reynið að eignast vini. Hafið samband við fólk, ekki vera hræddar. Það er erfitt. Þið getið þetta sjálfar.“
Leikkonan eignaðist Övu sem er núna orðin 22 ára í september 1999 tveimur mánuðum eftir að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar, leikarinn Ryan Phillippe, gengu í hjónaband. Hjónin eignuðust soninn Deacon í október 2003 en sögðu skilið hvort við annað árið 2006. Witherspoon eignaðist þriðja barnið sitt, soninn Tennessee James, með núverandi eiginmanni sínum, Jim Toth, fyrir átta árum.