Mágkonurnar Eva Dögg Jónsdóttir og Oddný Þorsteinsdóttir stofnuðu barnafatalínuna ELEVEN RVK í miðjum heimsfaraldri á síðasta ári. Eva og Oddný eru hvorugar með menntun í fatahönnun en nýttu reynslu sína sem mæður til að skapa þægileg og endingargóð barnaföt.
Eva er viðskipta- og mannauðsfræðingur sem starfaði hjá SideKick Health en hún sér um daglegan rekstur ELEVEN RVK. Oddný er hjúkrunarfræðingur hjá Heilsuvernd.
Mágkonurnar höfðu fyrst hugsað sér að finna vörumerki til að flytja inn. Þegar þær fóru svo að skoða málin nánar sáu þær gat á íslenskum markaði, þar að segja, það vantaði helst föt á grunnskólabörn.
„Okkur hefur lengi langað að fara út í rekstur saman og áttum við næstum þriggja ára gamalt vinnuskjal með hugmyndum að vörumerkjum til að flytja inn sem við dustuðum rykið af reglulega, en vorum þá báðar í fullri vinnu og með börn þannig að það gerðist lítið. Svo vorið 2020 þegar ég var að vakna aftur til lífsins eftir kulnun og Oddný í fæðingarorlofi ákváðum við að skoða þetta fyrir alvöru en sáum þá fljótt að flest þessara vörumerkja sem við höfðum listað niður voru nú fáanleg á íslenskum markaði. Það sem þessi vörumerki áttu sameiginlegt var að þau fókusa að mestu á ungabörn og unga krakka. Við sáum þá að það vantaði frekar fatnað og vörur á grunnskólabörn og verandi mamma tveggja grunnskólabarna þá hafði ég upplifað það af eigin raun hvað það getur verið erfitt að fá föt á börn á þessum aldri,“ segir Eva í viðtali við mbl.is.
Eva á þrjú börn á aldrinum 4 til 11 ára og Oddný á tvo drengi, 2 og 4 ára.
„Út frá því fórum við að skoða vörumerki til innflutnings sem væru með gott úrval fyrir grunnskólabörn en svo virðist sem það sé gat í þessum markaði á fleiri stöðum en Íslandi. Við fundum ekkert sem okkur leist á en fatnaðurinn sem við vorum að leitast eftir þurfti að tikka í nokkur box, þ.e. þægindi, gæði, henta íslensku veðurfari, vera kynlaus og að sjálfsögðu á viðráðanlegu verði fyrir allflesta,“ segir Eva.
Þær fóru af stað í heimsfaraldrinum sem var fullkomið fyrir þær því upphaflega hugmyndin af netverslun. „Hins vegar fundum við það fljótlega að þó að verslun á netinu sé að aukast í mjög miklum mæli þá eru ekki nærri því allir viðskiptavinir komnir þangað og vilja sjá og koma við vöruna, sem er auðvitað eðlilegt með nýtt vörumerki,“ segir Eva en í dag eru þær með litla verslun í Firðinum í Hafnarfirði.
Í hönnun sinni leggja þær upp með að skapa þægilegan og töff föt á grunnskólakrakka sem gengur við flest tilefni. Þá gera þau ekki greinarmun á kynjunum og stilla verðinu þannig að sem flest hafi efni á fötunum.
Mágkonurnar eru ekki með reynslu í fatahönnun en Oddný er þó hússtjórnarskólagengin þar sem hún kynntist sníðagerð og fatasaum. „Annars hefur mesta reynslan komið af því að eiga börn og lært af þeirra sérvisku varðandi föt. Við höfum svo bara lært þetta smá saman og getum alveg viðurkennt það að fyrstu sniðin okkar voru ansi skrautleg,“ segir Eva.
Nafnið ELEVEN RVK dregur nafn sitt af tölunni 11, sem er um það bil aldurinn sem þær Eva og Oddný miða fötin að. „Eleven er samsett af tveimur eins tölustöfum sem er tenging við það að krakkar vilja yfirleitt falla í hópinn, vera eins, en samt einstakir á sama tíma.“
Mágkonurnar búa sig nú undir jólavertíðina og fylla síðustu vikur hafa þær verið að fylla vel á lagerinn eftir frábærar viðtökur við haustlínunni. „Við erum með litla verslun í Firðinum í Hafnarfirði en fljótlega á næsta ári þurfum við að flytja okkur um set í aðeins stærra rými, en það mun vonandi skýrast á næstunni,“ segir Eva.
Spurðar hvort þær ætli að stækka vörumerkið og bjóða upp á föt á alla fjölskylduna segir Eva að þær hafi oft fengið þessa spurningum. „Við lögðum upp með að bjóða upp á fatnað í stærðum 122-170 en ákváðum nýlega að vinna að því að bæta við stærð 110/116 en munum ekki fara í minna en það. Svo er aldrei að vita hvað við erum að bralla bak við tjöldin og hvort fullorðins stærðir verði fáanlegar á nýju ári,“ segir Eva.