„Lífið breyttist á einni nóttu“

Bryndís Stefánsdóttir á bæði dóttur og son.
Bryndís Stefánsdóttir á bæði dóttur og son. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Stefánsdóttir er 28 ára tveggja barna móðir sem rekur verslunina Míní Lúx. Bryndís sem hefur átt heima í nokkrum löndum og fætt börn bæði á Íslandi og Þýskalandi segir að móðurhlutverkið hafi veitt henni innblástur þegar kom að því að stofna verslunina en fyrir er hún með BA-gráðu í sálfræði. 

„Lífið breyttist á einni nóttu, til hins betra. Loksins fær maður að sjá þetta litla gull sem maður er búin að elska í níu mánuði og maður upplifir óútskýranlega ást en á sama tíma upplifði ég mikla ábyrgðartilfinningu. Lífið snýst ekki lengur bara um mig heldur er þarna kominn lítill einstaklingur sem stólar algjörlega á mig í einu og öllu og það er undir mér komið að vernda hana og hann. Fyrir mér er þetta stærsta og mikilvægasta hlutverk sem mér gæti verið úthlutað í lífinu og ég ætla vanda mig eins og ég get að vera besta mamman og fyrirmynd fyrir börnin mín,“ segir Bryndís um hvernig lífið breyttist eftir að hún varð móðir. 

Gott að geta talað íslensku í fæðingunni

Bryndís glímdi við mikla ógleði á meðgöngunum sínum. „Fyrri meðgangan var verri hvað ógleðina varðaði, hún hætti ekki fyrr en í kringum 32. viku en á seinni meðgöngu hætti ógleðin um 22. viku. Líkamlega var ég spræk báðar meðgöngurnar og er ég afar þakklát fyrir það,“ segir Bryndís. 

„Ég held að ég hafi verið heppin með fæðingar, fyrri fæðingin var lengri og mikið brösuglegri. En þá var maður líka að gera þetta í fyrsta skipti, ég var í öðru landi og maður var yngri og óöruggari. Ég var tilbúnari að takast á við fæðinguna í seinna skiptið og ég held að það hafi hjálpað. Dóttir mín lét hafa meira fyrir sér með tilheyrandi dramatík á meðan sonur minn kom í heiminn tveimur tímum eftir fyrsta verk. Mér fannst magnað að fá að upplifa tvær svona gjör ólíkar fæðingar,“ segir Bryndís þegar hún var spurð hvernig fæðingarnar hennar voru. 

Börn Bryndísar fæddust í Þýskalandi og á Íslandi.
Börn Bryndísar fæddust í Þýskalandi og á Íslandi. Ljósmynd/Þórdís Halla

Bryndís hefur upplifað meðgöngur í nokkrum löndum og fæðingar í tveimur. 

„Við bjuggum í Þýskalandi þegar ég verð ólétt af dóttur okkar. Það hræddi mig fyrst svolítið að vera svona langt frá mínu heimalandi en ég var fljót að sjá að aðstaðan í Þýskalandi væri mjög flott og traustvekjandi. Ég hitti alltaf fæðingarlækni og ljósmóður tvisvar í mánuði, það lét mér líða mjög öruggri. 

Það sem mér fannst vera kostur fram yfir Ísland var að við áttum okkar barnalækni strax frá fyrsta dagi. Fyrstu skoðanirnar voru allar þannig að læknirinn kom heim til okkar, verandi ein í útlandi að gera þetta í fyrsta skipti þá fannst mér þetta vera alveg meiriháttar. Svo þegar dóttir okkar varð eldri þá var mjög aðgengilegt fyrir okkur að fá strax tíma ef eitthvað var að og fengum alltaf að hitta sama lækni, mér fannst það frábært,“ segir Bryndís. 

Það fjölgaði í fjölskyldunni þegar lítill drengur kom í heiminn hér heima á Íslandi. „Ég tók fyrri helming meðgöngunnar úti í Svíþjóð og kláraði hana svo á Íslandi. Mér fannst svolítið skrítið hvað það voru færri skoðanir en á fyrri meðgöngu en ljósmæðurnar hérna heima fullvissuðu mig um að ég væri alveg örugg og allt liti vel út. Mér fannst frábær upplifun að eignast barn á LSH, svo frábært að geta tjáð mig á íslensku og meiriháttar starfsmenn þar.“

Bryndís segist ekki hafa upplifað mikinn menningarmun á uppeldinu á milli þeirra landa sem hún hefur búið í. „Kannski helst að krakkar byrja eldri á leikskóla en vanalegt er á Íslandi. Það opnaði augun mín fyrir því hve mikilvæg þessi fyrstu ár barns eru hvað varðar til að mynda tengslamyndun. Ég held að það sé besta veganesti sem barn gæti fengið útí lífið er góður tími með foreldrum sínum,“ segir Bryndís. 

Móðurhlutverkið er mikilvægasta hlutverk sem Bryndísi hefur verið úthlutað í …
Móðurhlutverkið er mikilvægasta hlutverk sem Bryndísi hefur verið úthlutað í lífinu. Ljósmynd/Þórdís Halla

Hvað hefur verið krefjandi í foreldrahlutverkinu?

„Þetta er eflaust svar sem mun breytast eftir því á hvaða æviskeiði maður er á. Eins og staðan er núna myndi ég segja að það sem hingað til hefði verið mest krefjandi væri svefnleysið. En það gæti svo sem skrifast á okkur foreldrana að hafa ekki tekið slaginn fyrr.“

Dóttirin veitti innblástur

Bryndís rekur verslunina Míni Lúx sem hún segir vera hágæða barnafataverslun sem býður meðal annars upp á fylgihluti, húfur, sokkabuxur, hárskraut og skó. 

„Dóttir mín var klárlega innblásturinn fyrir Míní Lúx. Við bjuggum erlendis á þeim tíma sem Míní Lúx var stofnað og það var svo margt fallegt til á börn þar sem mig langaði til að geta boðið upp á á Íslandi. Dóttir mín varð kveikjan af því að mig langaði til þess að skapa eitthvað, vera fyrirmynd fyrir hana og úr varð Míní Lúx!“

Fannst þér þessar vörur skorta hér á Íslandi?

„Já mér fannst vanta svolítið punktinn yfir i-ið. Ég vanda svakalega valið þegar ég tek inn nýjar vörur og legg mikið uppúr að vörurnar séu ekki til sölu annars staðar á Íslandi.“

Bryndís stofnaði barnafataverslun eftir að hún varð móðir.
Bryndís stofnaði barnafataverslun eftir að hún varð móðir. Ljósmynd/Þórdís Halla

Er eitthvað alveg ómissandi að eiga þegar maður er með lítil börn?

„Það sem skiptir fyrst og fremst máli er að börn fái sem mest af ást og umhyggju. Í okkar tilfelli þar sem börnin mín fæddust að vetri til þótti mér voða gott að eiga hlýtt teppi og góð ullarföt. Mér fannst líka frábært að eiga burðarsjal.“

Hefur þú átt það til að kaupa eitthvað ónauðsynlegt? Í hvað má alls ekki spara?

„Já sérstaklega með fyrra barnið. Ég keypti allt samviskusamlega og notaði svo ekki helminginn af því, en maður lærir og lifir svo ég gerði ekki sömu mistök í seinna skiptið. Ég vil frekar eiga fáa og vandaða hluti, það hefur reynst mér best.“

View this post on Instagram

A post shared by Míní Lúx (@minilux.is)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda