Tóku börnin með á Grammy-verðlaunin

Chrissy Teigen og John Legend tóku börnin með á Grammy-verðlaunin.
Chrissy Teigen og John Legend tóku börnin með á Grammy-verðlaunin. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn John Legend, mættu með börnin sín tvö á Grammy-verðlaunahátíðina um liðna helgi. Hátíðin er ekki þekkt fyrir að vera fjölskylduviðburður en hjónin ákváðu upp á sitt einsdæmi að breyta þeirri hugsjón.

Systkinunum Lunu, fimm ára og Miles, þriggja ára, leiddist það ekki að vera innan um allar helstu stórstjörnur heims. Börnin voru prúðbúin líkt og foreldrarnir en Luna klæddist fallegum kjól sem var þakinn pallíettum. Miles var hinn flottasti í grænum Gucci jakka, svörtum buxum, hvítri skyrtu og bar svarta slaufu um hálsinn líkt og faðir sinn. Skóbunaður litla mannsins var heldur ekki af verri endanum, svartar og hvítar mokkasíur.

Teigen leit óaðfinnanlega út á verðlaunahátíðinni en hún skipti um föt þegar líða fór á kvöldið. Í byrjun klæddist hún fyrirferðarmiklum bleikum síðkjól sem prýddur var pífum. Síðar klæddist hún glæsilegum gylltum kjól en bar bleikar fjaðrir við. Kjóllinn var þakinn semelíusteinum og fór hann Teigen vel. Faðirinn var ekkert að flækja málið og skartaði klassískum svörtum jakkafötum. 

Börnin tvö áttu ekki í erfiðleikum með að vera viðstödd hátíðina og hegðuðu þau sér vel. Meðal annars náðist mynd af þeim halla sér að móður sinni og gáfu henni lítinn sætan koss. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.  

Hjónin eru í miðju tæknifrjóvgunarferli um þessar mundir og freista þess að geta eignast fleiri börn í náinni framtíð. Hefur Teigen verið mjög opinská með ferlið en hefur beðið aðdáendur sína um að sýna sér aðgát. 



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka