Brynhildur gengur með tvö börn

Brynhildur Karlsdóttir á von á barni og er að gefa …
Brynhildur Karlsdóttir á von á barni og er að gefa út plötu í maí. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Tón­list­ar­kon­an Bryn­hild­ur Karls­dótt­ir hef­ur í nógu að snú­ast þetta vorið og má segja að hún gangi með tvö börn. Hún og unnusti henn­ar eiga von á sínu fyrsta barni en í lok maí kem­ur út annað barn í plötu­formi með hljóm­sveit henn­ar Kvik­indi. Í dag, föstu­dag, kem­ur út smá­skíf­an Eng­inn kann að lifa sem Bryn­hild­ur lík­ir við hríðir fyr­ir fæðingu. 

Bryn­hild­ur er bæði söng­kona í Kvik­indi og sem­ur texta. Hún seg­ir lagið fjalla um byrj­un á ástar­sam­bandi, fyrsta stefnu­mótið og ástar­vím­una í kjöl­farið. 

„Það er inn­sýn í hugs­an­ir og til­finn­ing­ar sem spretta upp og fang­ar einnig vand­ræðal­eik­ann við það að deita. Maður seg­ir eitt­hvað sem maður ætlaði ekki að segja, maður snert­ist óvart en veit ekki hvort það þýði eitt­hvað og út­sýnið út um bíl­rúðuna er grátt og ekk­ert róm­an­tískt. Þó er hægt að sveipa þetta allt ljóma og vand­ræðal­egt sam­tal og órómó út­sýni get­ur verið það besta í heim­in­um. Smátt og smátt læðist til­finn­ing­in að þér að þið séuð það eina sem skipt­ir máli, tvö á móti heim­in­um og að „eng­inn kunni að lifa nema ég og þú“,“ seg­ir Bryn­hild­ur um lagið. 

Er ekki leng­ur miðdep­ill heims­ins

Aðpurð seg­ir Bryn­hild­ur að meðgang­an hafi ekki haft áhrif á texta­smíðina við Eng­inn kann að lifa

„Þetta lag var reynd­ar samið löngu áður en ég varð ólétt en ást­in hef­ur alltaf verið mér of­ar­lega í huga og hug­mynd­ir mín­ar um hana eru í sí­felldri þróun. Meðgang­an hef­ur sann­ar­lega haft áhrif á þær hug­mynd­ir mín­ar. Lagið Eng­inn kann að lifa fjall­ar um nýja ást, byrj­un á sam­bandi þegar allt er spenn­andi og pínu hættu­legt. Þessi teg­und af ást er æðis­leg en þó mjög ólík ást­inni sem ég hef í lífi mínu í dag. Bæði er sam­bandið mitt og barnið í mag­an­um á hverj­um degi að kenna mér hvað al­vöru skil­yrðis­laus ást er.“

Brynhildur og samstarfsmaður hennar Friðrik Margrétar-Guðmundsson í Kvikindi eru að …
Bryn­hild­ur og sam­starfsmaður henn­ar Friðrik Mar­grét­ar-Guðmunds­son í Kvik­indi eru að gefa út Eng­inn kann að lifa. Björg Stein­unn Gunn­ars­dótt­ir hannaði plötu­um­slagið fyr­ir smá­skíf­una. Ljós­mynd/​Gunn­löð Jóna Rún­ars­dótt­ir

Ertu að breyt­ast sem listamaður í takt við kom­andi hlut­verk?

„Já, ég myndi segja það. Ég er alla­vega bara gjör­breytt. Um leið og ég komst að því að ég væri ólétt gerðist eitt­hvað innra með mér. Praktísk­ir hlut­ir eins og pen­ing­ar og hús­næði létu auðvitað á sér kræla en einnig fann ég svo sterkt fyr­ir því að ég væri ekki leng­ur miðdep­ill heims­ins. Ég held að það að hætta að hugsa of mikið um sjálf­an sig og elska ein­hvern ann­an af öll­um lífs og sál­ar kröft­um hljóti að gera mann að betri lista­manni.“

Raun­veru­leik­inn ekki eins og fant­así­an

Bryn­hild­ur er geng­in 33 vik­ur og seg­ir hún að meðgang­an hafi gengið ótrú­lega vel. 

„Þetta er al­veg sturlað ferli sem hef­ur bæði veitt mér meiri ham­ingju en ég hef fundið fyr­ir áður en einnig al­veg gengið frá mér. Þetta er bara svo ólíkt því sem ég hefði getað ímyndað mér. Ég þurfti að tak­ast á við eig­in hug­mynd­ir um meðgöngu og hvernig mér fannst hún „ætti“ að vera. Ég hafði alltaf séð mig fyr­ir mér val­hopp­andi í fal­leg­um kjól að þefa af blóm­um upp­full af kven­leika og djúpri visku en það er skemmst frá því að segja að þetta hef­ur ekki verið þannig. Ógleði, grind­ar­los og brjóstsviði var ekki part­ur af þess­ari fant­as­íu og hafa sett sitt strik í reikn­ing­inn. Samt sem áður finnst mér þetta búið að ganga ótrú­lega vel og vera stór­kost­legt ferli sem ég er sjúk­lega glöð og þakk­lát fyr­ir.“

Ertu að und­ir­búa komu barns­ins á fullu?

„Já, ég hugsa stans­laust um komu barns­ins og er að und­ir­búa mig and­lega þótt ég eigi eft­ir að kaupa flest. En svo er ég líka heltek­in af plöt­unni okk­ar og að koma henni í heim­inn. Ég er svo ótrú­lega stolt að sjá þessa rúm­lega tveggja ára vinnu líta dags­ins ljós. Ferlið á bakvið þessa plötu á margt sam­eig­in­legt með meðgöngu. Þessi langi tími og þessi mikla eft­ir­vænt­ing. Alla­vega til­finn­ing­ar, hug­mynd­ir sem maður geng­ur með í mag­an­um, hindr­an­ir, að koma hug­mynd­un­um í form og svo loks­ins að koma plöt­unni í heim­inn og sýna afrakst­ur­inn. Útgáfa á Eng­inn kann að lifa er þá kannski eins og fyrstu hríðarn­ar í lok þess­ar­ar meðgöngu.“

Brynhildur er þakklát fyrir hvernig meðgangan hefur gengið.
Bryn­hild­ur er þakk­lát fyr­ir hvernig meðgang­an hef­ur gengið. Ljós­mynd/​Gunn­löð Jóna Rún­ars­dótt­ir

Er enn að kljást við horm­óna

Áður en Bryn­hild­ur byrjaði í Kvik­indi vakti hún at­hygli í pönk­sveit­inni Horm­ón­ar. Nú er hún að upp­lifa mikl­ar horm­óna­breyt­inga en seg­ir ann­ars kon­ar horm­óna­sveifl­ur hafa verið uppp­retta pönk­s­ins sem Horm­ón­ar spiluðu. 

„Í Hórmón­um voru nátt­úru­lega mikl­ar til­finn­ing­ar á ferð enda garg­andi pönk. Í Hórmón­um fékk ég mikla út­rás fyr­ir reiði og aðrar sterk­ar til­finn­ing­ar, einskon­ar gelgju­skeið, en í Kvik­indi finnst mér ég vera orðin full­orðin. Ennþá mikl­ar til­finn­ing­ar sem brjót­ast út en meiri yf­ir­veg­un. En í meðgöng­unni er auðvitað um allt ann­ars kon­ar til­finn­ing­ar og horm­óna að ræða. Ég upp­lifi al­veg ótrú­lega marg­ar til­finn­ing­ar á dag. Það er styttra í þær all­ar. Ég verð auðveld­lega leið eða von­laus en líka mjög auðveld­lega glöð og ánægð og er þá yf­ir­leitt búin að gleyma að ég var leið og von­laus. Í lok dags er ég sátt og glöð og man ekk­ert að ég fór að gráta af því ég fann ekki veskið mitt og snög­greidd­ist þegar kon­an skipti sér af mér í sundi.“

Ertu búin að velta fyr­ir þér hvernig mamma þú vilt verða?

„Já ég velti því mikið fyr­ir mér. Mig lang­ar mest bara að vera ótrú­lega elsk­andi og samþykkj­andi móðir,“ seg­ir Bryn­hild­ur að lok­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda