Leið eins og hún væri að eignast barn

Aldís Amah Hamilton með gervikúlu í tökum.
Aldís Amah Hamilton með gervikúlu í tökum.

Leikkonan Aldís Amah Hamilton lék konu sem fæddi barn í fjórða þætti Vitjana en þátturinn var sýndur á RÚV um síðustu helgi. Aldís sem hefur ekki gengið í gegnum fæðingu sjálf aflaði sér gríðarlegra mikilla upplýsinga fyrir hlutverkið og kom margt á óvart. 

Persóna Aldísar heitir Rósa en hún er íbúi í bænum sem tekur ákvörðun um að eignast barnið í lita heimabænum sínum í stað þess að fara til Akraness. Það var hin næma Jóhanna, móðir Sísíar, sem ráðlagði Rósu. „Hún lítur á bílslysið sem svona „skilaboð að handan“ en ég tek það fram að frá mínum bæjardyrum séð er engin skömm í því að velja spítala, heimafæðingu eða eitthvað annað. Og ég er viss um að Rósa hefði átt góða fæðingu hvar sem er,“ segir Aldís um persónuna sem hún túlkaði. 

Varst þú hikandi að þér að leika fæðingu án þess að hafa gengið í gegnum fæðingu sjálf?

„Ég spáði ekki mikið í það þegar ég fór í prufuna, þá var þetta bara ein lítil sena. Svo þegar ég fékk hlutverkið varð ég mjög stressuð því ég vildi gera þetta vel, enda er það ekkert lítið afrek að koma manneskju í heiminn. En þetta var spennandi tækifæri og ég ákvað að demba í mér í rannsókn. Áður fyrr hafði ég aldrei áhuga á óléttu, fæðingum eða neinu slíku en með hækkandi aldri er þetta svolítið allt um kring, vinkonur og skyldmenni að ganga í gegnum ótrúlega lífsreynslu, þannig það var líka bara nytsamlegt að komast að öllu sem fylgir þessu. Og út frá því spratt að lokum raunverulegur áhugi,“ segir Aldís. 

Margt sem kom á óvart

Aldís lagðist í mikla rannsóknarvinnu fyrir hlutverkið. 

„Ég hlustaði á alla þætti Kviknar og Fæðingarcastsins, horfði á held ég sex fæðingar á Youtube og 90% tímans var ég bara gapandi. Það kom ótrúlega á óvart að fæðing liggjandi á bakinu er alls ekki talin besta stellingin en samt er það normið í kvikmyndum. Við Eva leikstýra vorum sammála um að vilja fara eins raunverulega leið og hægt var og þar sem Rósa þurfti ekki að vera tengd við nein tæki eða vera bundin við rúm eða slíkt völdum við þessa stellingu. Sem margar konur hafa svo sagt mér að þær tengi við.

Annað óvænt var að upp til hópa eru konur alls ekkert að „missa vatnið“ hægri vinstri. Það er víst allur gangur á því. Ég hafði líka ekki hugmynd um að eftir fæðingu þarftu að fæða aftur, nema bara fylgjuna. Finnst það algjör dónaskapur af náttúrunnar hendi að geta ekki skutlað henni út með barninu.“

Aldís kynnti sér fæðingar vel áður en hún lék í …
Aldís kynnti sér fæðingar vel áður en hún lék í senunni. Ljósmynd/Juliette Rowland

„En það sem kom mér mest á óvart eru áhrifin sem hlutverkið hafði á mig. Það opnaði augu mín fyrir ótrúlega mörgu varðandi barnseignir og fæðingu. Ég öðlaðist sterkari og dýpri tengingu við vinkonur mínar sem hafa átt börn eða voru óléttar og út frá sjálfri mér fór ég að líta aðeins mýkri augum á þessa upplifun. Dýrmætast var samt að geta verið betur til staðar fyrir bestu vinkonu mína sem var að upplifa sína fyrstu meðgöngu á þessum tíma. Ég fékk meira að segja að vera viðstödd fyrsta kafla fæðingarinnar sem er ómetanlegt og ég hefði örugglega ekki þorað að gera áður,“ segir Aldís. 

Ber ómælda virðingu fyrir móður sinni

„Ég lifði mig mjög mikið inn í þetta, vandræðalega mikið. Daginn sem við áttum að skjóta senuna leið mér eins og ég væri sjálf að verða móðir. Þessi dagur var allur mjög „merkilegur og mikilvægur“. Ógeðslega fyndið. Og líka mjög gaman. Mér fannst bara skrítnast að fólk kæmi ekki fram við mig eins og ég væri að fara að eiga, mögulega orðin svolítið gegnsýrð. En eini sársaukinn var í raddböndunum daginn eftir. Annars var ég bara hress.“

Búin að eignast barnið.
Búin að eignast barnið. Ljósmynd/Juliette Rowland

Svo skemmtilega vildi til að þátturinn með fæðingunni var sýndur á mæðradaginn. Aldís segir að það hafi verið algjör tilviljun. 

„Það var svo fullkomið að þessi þáttur skyldi hafa fallið á mæðradaginn, og algjör tilviljun. Ég hef alltaf borið ómælda virðingu fyrir mömmu minni út af ótal ástæðum. Hún hefur sagt mér frá fæðingunni „okkar“ en ég sé hana kannski í raunverulegra ljósi eftir þetta. Ég hafði engan áhuga á því að koma í heiminn og ég hef komist að því að síðustu dagar óléttu eru víst ógeðslega þreytandi. Og það eru langar fæðingar líka, sem mín var. Þannig að ég efa að virðing mín í hennar garð gæti náð hærri hæðum.“

Ertu orðin hræddari við að eignast barn eftir þessa rannsókn eða jafnvel spenntari?

„Ég pæli lítið í því. Eina breytingin er kannski að áður fyrr var ég handviss um að ég vildi ekki bera barn, núna er ég eldri og meira á „aldrei segja aldrei“ brautinni. En ég er hvorki stressuð né spennt. Það sem gerist gerist. Og ég á hund. Hún er alveg næg vinna og gefur mér heilan helling,“ segir Aldís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda