„Hún skilur ekki að hann kemur aldrei aftur“

Hjónin Kelsey og Tom.
Hjónin Kelsey og Tom. Skjáskot/Instagram

Kelsey Hardwick, ekkja tónlistarmannsins Tom Parkers, opnaði sig á dögunum um átakanlegar og tilfinningaríkar samræður sem hún hefur átt við þriggja ára gamla dóttur þeirra, Aureliu, eftir að hann lést.

Hardwick var gestur í spjallþættinum Lorraine fyrr í vikunni. Þar ræddi hún lífið eftir andláts eiginmanns síns en Tom Parker, sem þekktastur var fyrir að vera söngvari strákabandsins The Wanted, lést af völdum heilaæxlis í lok mars á þessu ári. 

„Hún spyr mig um pabba sinn á hverjum degi,“ sagði Hardwick í samtali við Lorraine og viðurkenndi að hún sjálf ætti í erfiðleikum með að útskýra fyrir Aureliu að pabbi hennar komi ekki heim aftur. „Hún skilur ekki alveg að hann kemur aldrei aftur,“ sagði Hardwick.

Hann vildi ekki að við myndum syrgja

Auk Aureliu litlu lætur Tom Parker einnig eftir sig soninn Bodhi, sem kom í heiminn árið 2020. 

„Þegar hún sér pabba sinn verður hún spennt og segir: „Þarna er pabbi minn“ þannig hún verður stundum mjög rugluð á þessum en við tölum um hann á hverjum degi,“ sagði Hardwick um Aureliu sem hefur mikið verið að spá í andláti pabba síns síðustu misseri.

Hardwick hefur verið dugleg að vinna í sorginni. Sagði hún mikilvægt að halda áfram að lifa lífinu og halda í gleðina í gegnum börnin.

„Þau vakna glöð. Þau vakna í góðu skapi svo ég get ekki verið leið. Og hann [Tom Parker] vildi ekki að við yrðum sorgmædd og myndum syrgja,“ sagði Hardwick sem syrgir eiginmann sinn samt sáran. „Ekki misskilja mig, ég á mína slæmu daga.“  

Tilfinningaþrungið viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert