Tónlistarkonan Cher var 18 ára gömul þegar hún missti fyrst fóstur. Hin 76 ára gamla tónlistarkona opnað sig um fósturmissi á Twitter á dögunum í tengslum við umræðuna um viðsnúninginn á hæstaréttardóminum Roe gegn Wade er varðar rétt kvenna til þungunarrofs.
Alls missti Cher fóstur þrisvar sinnum. Fyrst þegar hún var átján ára og ein heima. Hún segir þáverandi eiginmann hennar, Sonny Bono, hafa fundið hana í öngum sínum á gólfinu. Hann hafi farið með hana til læknis og hún hafi verið öskrandi úr sársauka.
Í kjölfarið þurfti hún að fara í aðgerð til þess að láta fjarlægja fóstrið því, þrátt fyrir að hafa misst það, gat líkaminn ekki losað sig við það sjálf. Í einhverjum ríkjum Bandaríkjanna er nú tekist á um hvort slíkar aðgerðir séu löglegar eftir að lög sem að stórum hluta heimila ekki þungunarrof tóku gildi.
„Mæður, systur, frænkur, bestu vinkonur... engin kona er örugg í Bandaríkjunum. Fljótlega mun engin heilbrigð manneskja vera örugg,“ skrifaði Cher líka á Twitter. Einn aðdáandi hennar skrifaði að hann hefði ekki vitað að hún hefði misst fóstur og sagði Cher þá að hún hefði aldrei ætlað sér að deila því opinberlega fyrr en nú.
Cher eignaðist tvö börn seinna. Þau Bono eignuðust sonin Chaz Bono þegar hún var 22 ára en þau skildu eftir ellefu ára hjónaband árið 1975. Seinni son sinn, Elijah Blue Allman, eignaðist hún svo með fyrrverandi eiginmanni sínum Gregg Allmann.