Ástrós Rut Sigurðardóttir prýðir forsíðu Börn og uppeldi sem fylgir Morgunblaðinu í dag. Þótt hún sé bara rétt um þrítugt hefur hún upplifað meira en margir upplifa á langri ævi. Hún missti eiginmann sinn, Bjarka Má Sigvaldason, úr krabbameini og stóð uppi ein með Emmu dóttur þeirra sem var níu mánaða. Nú hefur hún fundið ástina á ný en þau Davíð Örn Hjartarson búa ásamt fjórum börnum á Selfossi.
Davíð átti þá soninn Elmar Óðin úr fyrra sambandi og allt small saman. Nú eiga þau saman tvo syni til viðbótar, Eið Ben sem er 17 mánaða og Erik Ben sem er fimm mánaða. Á heimilinu eru líka hundurinn Ronja og páfagaukurinn Pógó.
Fyrstu mánuðina eftir að Bjarki kvaddi var Ástrós algerlega í molum og ætlaði sér ekki í samband nærri því strax.
„Ég flúði heimilið og ferðaðist mikið með Emmu. Á einu af okkar ferðalögum hitti ég gamlan vin, Davíð, sem kom eins og ferskur andblær inn í líf mitt. Við spjölluðum heilmikið í þeirri útilegu og rifjuðum upp gamla tíma. Með tímanum fór þetta frábæra vinasamband á annað stig og við ákváðum að hittast sem meira en bara vinir,“ segir Ástrós. Hún bætir við að þá hafi ekki verið aftur snúið þrátt fyrir að hún hafi verið ákveðin í að fara ekki strax aftur í samband.
„Málið er að ég féll algjörlega fyrir honum á fyrsta stefnumóti og hann fyrir mér þannig við tókum þetta á nýtt flækjustig. Ég var ekki tilbúin í að opinbera neitt enda vildi ég sjá hvernig hlutirnir þróuðust. Þegar ég sá að mikil alvara var komin í okkar samband og ég vissi í hjartanu að hann væri nákvæmlega sá maður sem ég sæi fyrir mér að eyða ævinni með þá var þetta frekar auðvelt,“ segir Ástrós.
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni HÉR.